10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Árnason:

Herra forseti. Hér er vissulega um mikilsvert mál að ræða og skiptir miklu hversu til tekst um löggjöf og setningu reglugerða varðandi hagnýtingu þeirra fiskstofna sem verið hafa aðaluppistaðan í þeim sjávarafla sem íslendingar hafa veitt og verkað til útflutnings, en það hefur sem kunnugt er verið grundvöllurinn að þeirri gjaldeyrisöflun sem þjóðin hefur byggt lífsafkomu sína á.

Eins og fram kemur í aths. við frv. hafa meðal þeirra, sem frv. þetta sömdu, verið skiptar skoðanir um ýmis atriði málsins. Með tilliti til þess hefur sá háttur verið á hafður varðandi afgreiðslu frv. Í n. að þar hefur meiri hl. atkv. ráðið. Það kemur hins vegar ekki fram um hvaða þætti frv. mestur ágreiningur hefur verið. En strax og frv. hafði verið lagt fram Í Nd. komu fram, eins og hæstv. sjútvrh. skýrði hér frá áðan, brtt. sem flm. féllust á og voru samþ. Ég geri einnig ráð fyrir því að svo muni fara þegar frv. hefur verið tekið til athugunar í þessari hv. d., að fram komi nýjar brtt. við einstök atriði frv.

Varðandi það, sem hæstv. sjútvrh. sagði um samvinnu við sjútvn. Nd. varðandi þær brtt. sem kynnu að verða fluttar við frv. í þessari d., þá vil ég segja það, að það var haldinn einn fundur sameiginlega með n. í Ed. og Nd. í upphafi þar sem var lítillega rætt þetta frv. og farið yfir það, en síðan var ekkert samráð haft við okkur frekar af þeirri hv. n. varðandi þær brtt. sem n. flutti eða að það væri nokkuð leitað frekar eftir því hvort við vildum koma á framfæri brtt. við frv. þegar sjútvn. Nd. skilaði áliti um málið.

Það er öllum að sjálfsögðu ljóst að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða og ekki verður hjá því komist að lögfesta ákveðnar reglur um hagnýtingu fiskimiðanna. En með því er ekki allt fengið. Þá er eftir að tryggja það að lög og reglugerðir séu haldnar, því að vissulega er ekki því að leyna að íslendingar hafa ekki sýnt gott fordæmi í þeim efnum. Er skemmst að minnast þess hvernig fór á s.l. hausti um takmörkun á síldveiðinni.

Að sjálfsögðu er margt sem menn getur greint á um ýmis ákvæði þessa frv., og þannig hlýtur alltaf að vera um málefni sem þetta. Koma þar inn í margs konar hagsmunir og sérsjónarmið. En öllum er ljóst að hér verðum við að ná saman og treysta á að sú löggjöf, sem Alþ. samþ. og hæstv. sjútvrh. færir síðan út með reglugerðum til að fara eftir, verði á þann veg að gott hljótist af.

Það er eitt, sem ég veit að skiptar skoðanir eru um í þessu máli, en það er varðandi friðunarsvæðin, hvað viða þau eiga að vera og hvað stór. Gert er ráð fyrir að ráðh. geti lokað ákveðnum veiðisvæðum með tiltölulega litlum fyrirvara að höfðu samráði við fiskifræðinga og Fiskifélag Íslands. Í þessu sambandi er spurningin hvort ekki sé heppilegra í sumum tilfellum varðandi þau veiðisvæði sem vitað er um að ungfiskur heldur sig á að einhverju leyti árlega, að þau veiðisvæði séu ákveðið lokuð, en aftur á móti heimilt að opna fyrir veiðar á vissum tíma þegar fiskifræðingar hafa rannsakað veiðisvæðin og sannfærst um að ekki sé um smáfisk að ræða. Öllum ber saman um að það geti verið nokkuð frábrugðið frá ári til árs hvar smáfiskurinn heldur sig hverju sinni, þó að vissar uppeldisstöðvar séu taldar árvissar í þessum efnum.

Það er ekki ætlun mín að tala langt mál við þessa umr., en ég tel að afgreiðslu þessa máls verði vel að vanda og að leggja beri höfuðáherslu á þá þætti frv. sem lúta að friðunarráðstöfunum ungfisks og uppeldisstöðva. Því aðeins getum við vænst þess að sjávarútvegur og fiskveiðar geti á ókomnum árum verið sá burðarás í íslensku efnahagslífi sem þær hafa verið, að kveðin verði niður hvers konar rányrkja sem um er að ræða og skynsamleg hagnýting fiskstofnanna látin sitja í fyrirrúmi.

Ég á sæti í þeirri n., sem fá mun mál þetta til meðferðar, og hef þá aðstöðu til að koma á framfæri þeim breyt. sem ég tel óhjákvæmilegt að gerðar séu á frv. Ég get því geymt mér að ræða málið frekar við þessa umr.