10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm., sem hafa talað í þessu máli, fyrir góðar undirtektir, og jafnframt er ég mjög ánægður yfir því að allir hafa þeir lýst því yfir að þeir vilja stuðla að framgangi málsins.

Út af fyrirspurn hv. síðasta ræðumanns, þá hefur möskvastærð verið auglýst og aðlögunartíminn. Hins vegar skal ég játa það í sambandi við möskvastærð á dragnót að þar er enginn aðlögunartími, en hún hefur einnig verið auglýst.

Varðandi 8. gr., þá vil ég aðeins nefna það, að við töldum rétt að hafa þetta orðalag heldur en að hafa ákveðinn fjölda báta. Hafrannsóknastofnunin hefur ákveðna báta sem hún notar. Það er líka til og það munum við í sjútvrn. taka upp í okkar fjárlagatill., hvernig við ætlum að framfylgja þessu. Það er því í hendi fjárveitingavaldsins á hverjum tíma hve mikið stofnunin fær til þess að halda eftirliti uppi og það tel ég að sé nóg.

Í sambandi við uppsetningu frv., þá er ég sammála hv. síðasta ræðumanni að þetta hefði verið æskilegt. En við létum setja frv. upp bæði á þennan hátt og eins á hinn háttinn og þegar við sáum uppsetninguna frá grein til greinar, þá fannst okkur að sú uppsetning, sem mér persónulega leist betur á, gæti ekki gengið. Það er of langt mál að skýra það hér. Þess vegna hurfum við frá því og tókum upp gömlu uppsetninguna.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um málið. Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. og vænti þess að sjútvn. fari mjög fljótt í þetta mál og við reynum að ná sem viðtækustu samstarfi um að koma því í gegn.