11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

300. mál, samstarf við erlenda aðila um virkjanir og stóriðju á Austurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Fsp. hv. þm. fjallar um það við hvaða erlenda aðila íslenskar stofnanir hafa haft samband vegna nýrra virkjana eða hugsanlegrar stóriðju á Austurlandi og hvers eðlis þessi samskipti hafi verið.

Samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar, vinstri stjórnarinnar, er það viðræðunefnd um orkufrekan iðnað sem hefur það verkefni með höndum að eiga viðræður við erlenda aðila í þessu sambandi. Þau svör, sem ég hér gef, eru því fyrst og fremst að sjálfsögðu byggð á upplýsingum frá n.

Á undanförnum árum hafa ýmsir erlendir aðilar haft samband við íslensk stjórnvöld og spurst fyrir um möguleika á orkuöflun til stóriðju. Eðlilega hefur staðsetning slíkrar iðju á Austurlandi einnig komið til tals, ekki síst þar sem talið er að þar geti orðið stærsta virkjun landsins og jafnframt að mjög góð hafnarskilyrði eru víða á Austfjörðum. Meðal þeirra fyrirtækja, er samband hafa haft við íslenskar stofnanir, má nefna Norsk Hydro í Noregi, Alusuisse í Svisslandi og Amax Aluminium í Bandaríkjunum. Viðræðunefnd um orkufrekan iðnað er sá íslenski aðill sem þessi fyrirtæki hafa haft samband við. Frumkvæðið hefur komið frá hinum erlendu aðilum.

Þessi samskipti hafa verið með ýmsu móti. Í sumum tilvikum hefur verið um bréfaskriftir að ræða eingöngu, í öðru hafa fyrirtækin látið í ljós óskir um viðræður og kynnisferðir. Einnig hefur í nokkrum tilvíkum komið fram ósk frá fyrirtækjunum um að þau fengju leyfi til að senda sérfræðinga sína á vettvang til að kynna sér aðstæður. Viðræðunefnd hefur orðið við þessum óskum og hefur jafnan séð þá til þess að íslenskir sérfræðingar hafi starfað með hinum erlendu til þess að fylgjast með og kynna sér sjónarmið þeirra.

Má að öðru leyti vísa til þess svars sem ég gaf fyrir viku við fsp. hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljans, en fsp. hans, önnur sú sem hann bar hér fram, fjatlaði um það hvort Swiss Aluminium eða aðrir erlendir aðilar hefðu átt einhverja aðild að rannsóknum á Austfjörðum og hvort uppi væru áform um slíka aðild varðandi frekari rannsókn o. s. frv. Ég tel því ekki ástæðu til að hafa þetta svar lengra.