10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mun gera hér grein fyrir sjónarmiðum minni hl. menntmn.

Þegar um er að ræða Lánasjóð ísl. námsmanna, þá eru tvö meginatriði sem ástæða er til að leggja sérstaka áherslu á. Í fyrsta lagi er það meginatriði að lánveitingar séu nægilegar til þess að fullnægja umframfjárþörf námsmanna. Í öðru lagi er það meginatriði hvernig tilhögun endurgreiðslna er á lánum. Það er vissulega mikið atriði að Lánasjóðurinn eflist, en eyðist ekki í eldi verðbólgunnar. En hitt er ekki síður mikilvægt, að endurgreiðslubyrðin sé ekki óhæfileg, að hún fæli menn ekki beinlínis frá námi, heldur hvetji þá til náms.

Um fyrra atriðið er það að segja, að í lögunum frá 1967, um námslán og námsstyrki, var kveðið svo á að stefnt skyldi að því að aðstoð hins opinbera við námsmenn nægði námsmönnum til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefði verið tekið til tekna, fjölskyldustærðar og fleiri atriða. Síðan eru liðin 9 ár og á þessum tíma hefur mjög þokast í þessa átt. Þegar lögin voru sett árið 1967 mun um 43% af umframfjárþörf námsmanna á þeim tíma hafa verið fullnægt, en á árinu 1974 var þessi prósentutala komin nokkuð yfir 80%. síðan hefur hún staðið í stað og nú á þessu ári gengið verulega til baka. Viðbára ríkisstj. og stjórnarfl. er öllum kunnug. Það er borið við peningaleysi, að þjóðin eigi í miklum erfiðleikum og hafi ekki efni á því að lána námsmönnum sínum fé til þess að þeir geti framfleytt sér meðan þeir eru við nám.

Þessi viðbára gæti kannske staðist ef lögin væru algjörlega óbreytt og íhaldsemin mikil, eins og hún vissulega er. En nú þegar hér birtist frv. um námslán sem gerir ráð fyrir gífurlegum breytingum á lánskjörum, þannig að í staðinn fyrir að lánin skili sér að verðgildi 7% til baka til sjóðsins, eins og hefur verið. 7–8%, þá er ætlunin að tífalda þessa upphæð, þannig að milli 70 og 90% af lánunum skili sér aftur í fullu raungildi. Þegar þannig er komið er að sjálfsögðu einstaklega ömurlegt að horfa upp á það að meiri hl. Alþ. skuli ekki treysta sér til þess að stíga þá sporið að fullu með því að tryggja námsmönnum greiðslu á fullri umfram. fjárþörf. Það er vissulega hámark þess nirfilsháttar gagnvart námsmönnum sem lýsir sér í þessum lögum að enn einu sinni á að orða þessa gr. með því loðna orðalagi sem hefur verið á henni um 9 ára skeið: „Stefnt skal að.“

Eins og kunnugt er felur þetta frv. það í sér að námsfólki verða eftirleiðis boðin lán með langtum lakari kjörum en gerist hjá bönkum, fjárfestingarsjóðum eða yfirleitt nokkurri annarri innlendri lánastofnun. Ég hélt satt að segja, þegar þetta frv. kom fyrst fram og var hér kynnt af hæstv. menntmrh., sem því miður er ekki viðstaddur þessa umr. og verður það að teljast mjög furðulegt, en þegar þetta frv. var hér kynnt, þá hélt ég í sakleysi mínu að um væri að ræða vanhugsað fljótræði sem yrði leiðrétt, því ég áleit að hæstv. ráðh. léti sér ekki til hugar koma að gera slíkan frv. óskapnað að lögum. En núna er það komið á daginn að það á að keyra beint af augum með frv. lítt breytt. Þær breyt., sem meiri hl. menntmn. leggur til að verði gerðar á frv., eru mjög óverulegar og breyta afar litlu um eðli þessa máls.

Eins og ég tók fram áðan, þá er mjög nauðsynlegt að efla Lánasjóð námsmanna, ekki fyrst og fremst til þess að spara ríkinu þá fjármuni sem lagðir hafa verið til þessa sjóðs, heldur til þess að unnt verði að láta lánakerfið ná til miklu fleiri námsmanna heldur en nú njóta lána og styrkja. Það þarf að stórefla námsaðstoðarkerfið og alveg sérstaklega þarf að huga að kjörum framhaldsskólanema sem ekki koma nú til með að heyra undir þessi lög, en ég óttast að um það verði ekkert hugsað fyrr en sjóðurinn hefur eflst verulega frá því sem nú er. Og ég viðurkenni fúslega að það er illt að horfa upp á þennan vísi að sjóði, — hann hefur aldrei orðið annað en vísir að sjóði, — að horfa upp á hann brenna á eldi verðbólgunnar ár eftir ár þótt miklu sé í hann mokað. Þess vegna tel ég og sjálfsagt langflestir, sem skoðað hafa þessi mál, að verðtrygging nokkurs hluta lánanna hefði í sjálfu sér alls ekki verið óeðlileg og komið vel til greina. Og ég get upplýst það hér, sem sjálfsagt flestir vita, að þegar þessi mál voru til umr, hér á Alþ. fyrir fáum árum, þá hafði tekist allviðtæk samstaða um breyttar reglur sem m.a. fólu í sér verðtryggingu að nokkrum hluta, en því miður fór svo, að sú breyt. náðist ekki fram og það er kannske þess vegna að við verðum nú að horfa upp á þessa frv.-ómynd hér í dag.

Námslán hafa fram að þessu verið á afar hagstæðum kjörum, sem í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt gagnvart þeim sem síðar eiga eftir að verða láglaunamenn, en aftur á móti óþarfi gagnvart væntanlegum hátekjumönnum. En vegna þessara hagstæðu kjara og vegna óðaverðbólgu seinustu ára hafa essi lán í reynd orðið fyrst og fremst styrkir. Ég vil leggja á það sérstaka áherslu hér, vegna þess að það virðist ganga dálítið illa að koma mönnum í skilning um það grundvallaratriði, að það er að sjálfsögðu reginmunur á því hvort lán eru verðtryggð að einhverjum hluta, t.d. að 1/3 hluta, eins og lán húsnæðismálastjórnar, eða að hálfu leyti, eins og er um allra óhagstæðustu tegundir fjárfestingarlána, eða hvort lán eru gegngistryggð, sem er það skásta af þessu öllu sem ég nú nefni, eins og lán Iðnþróunarsjóðs, svo ég nefni enn eitt dæmið, eða þá að lánin eru verðtryggð að fullu, eins og stefnt er að hjá Lánasjóði námsmanna. Á þessu er sem sagt reginmunur, Það að fara að gera námslán nú í einni svipan að óhagstæðustu lánum sem þekkjast á íslenskum lánsmarkaði er að sjálfsögðu slík kollsteypa í afstöðu stjórnvalda til námsmanna að dæmalaust er, og þetta lýsir að sjálfsögðu afar glöggt og skýrt viðhorfum núv. hægri stjórnar til menntamála almennt. Ég vil hins vegar vara við því að afleiðingin mun ekki lengi láta á sér standa. Það er alveg vafalaust að ef frv. þetta verður að lögum, þá muni hundruð námsmanna, sem ekki eiga von á háum launum að námi loknu, ekki treysta sér til að taka þessi óhagstæðu lán og þar af leiðandi tefjast verulega í námi eða gefast upp. Þessi breyt. mun því verulega auka misréttið í þjóðfélaginu og valda því að við fjarlægjumst aftur það markmið sem stefnt hefur verið að á undanförnum árum, að skapa jafnrétti til náms.

Ég vil enn ítreka það hér, að frá sjónarmiði mínu og margra annarra og sjálfsagt flestra annarra er ekkert óeðlilegt við það að hátekjumenn endurgreiði námslán með verðtryggingu. Við lifum í þjóðfélagi þar sem tekjumunur er mjög verulegur. Meðan þessari skipan hefur ekki verið breytt er alls ekki óeðlilegt að miklir hátekjumenn skili aftur til þjóðfélagsins því sem þeir hafa fengið áð láni til þess að afla sér þeirrar menntunar sem gerir þeim kleift að verða hátekjumenn. Ég vek á því athygli að meðal námsmanna hefur verið ríkur skilningur á nauðsyn þess að Lánasjóður ísl. námsmanna yrði efldur með hörðu og óvægilegu endurgreiðslukerfi gagnvart þeim sem hagnast af námi sinu. En ég vil leggja á það sérstaka áherslu að það hefur alltaf verið algjört skilyrði af hálfu námsmanna að væru lánakjörin verulega hert, t. d, með verðtryggingum, þá yrðu skýr mörk dregin milli þeirra, sem lenda í hópi hálaunamanna, og hinna, sem ekki njóta efnahagslegra ávinninga af námi sínu.

Í till. kjarabaráttunefndar námsmanna, sem má segja að séu grundvöllur að þessari lagasmíð sem hér birtist, þá var námsmönnum skipað í 3 hópa. Í fyrsta hópnum voru þeir, sem reikna má með að kynnu að hafa tvöfaldar tekjur vísitölufjölskyldu á ári, en það mun vera fast að 3 millj. kr. á núv, verðlagi. Þessir menn áttu að endurgreiða lán sín með fullri verðtryggingu á tiltölulega mjög skömmum tíma, á þá var lögð mikil byrði. í öðrum hópnum voru þeir sem höfðu viðmiðunartekjur vísitölufjölskyldu allt upp í tvöfaldar þær tekjur, þ.e.a.s. voru á bilinu frá 1400–2800 þús. eða fast að 3 millj. Þessir lántakendur áttu að greiða 3 5% af heildartekjum fjölskyldunnar í allt að 20 ár. Það hefði að vísu orðið mjög mismunandi hvað þessi hópur hefði greitt eftir því hvort menn hefðu talist hærra megin í þessum tekjuhópi eða í lægri hlutanum. Þeir sem hefðu verið hærri hefðu vafalaust greitt sín lán með fullri verðtryggingu, en þeir tekjulægri hefðu væntanlega fengið lánakjör sem hefðu getað talist nokkuð hófleg. Í þriðja hópnum voru svo þeir lánþegar sem hugsanlega hefðu að námi loknu lægri tekjur en þessar margnefndu viðmiðunartekjur. Samkv. till. námsmanna var gert ráð fyrir því að þeir greiddu alls ekki af lánunum.

Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á það hér, að þegar minnt er á, að þetta frv. sé smíðað upp úr till. námsmanna, og þegar sagt er, að námsmenn hafi fallist á verðtryggingu, en það er því miður það sem hætt er við að standi upp úr í fjölmiðlum og eftir hinu sé ekki tekið, fyrirvörunum, þá verða menn að reyna að koma því inn í höfuðið á sér að námsmenn hafa raunverulega aldrei fallist á verðtryggingu námslána. Það er rangt að taka svo til orða. Þeir hafa fallist á þessa verðtryggingu eingöngu gagnvart væntanlegum hátekjumönnum. En ef litið er á hóp hinna tekjulægri má frekar segja, að till. þeirra hafi falið í sér að þeir hlytu námslaun, en ekki námslán, og að sjálfsögðu með þeim rökum að þeir, sem ekki hafa hagnast af námi sínu og fengið hærri tekjur að því loknu en almennt gerist, þeir hafi einungis verið að gera þjóðfélagi sínu gagn með náminu og eigi þar af leiðandi að njóta launa en ekki lána. Þetta er afar rökrétt afstaða, og það er á þessu grundvallaratriði sem till, námsmanna eru reistar. Það er svo rétt að bæta því hér við, að þrátt fyrir þessa mildilegu afstöðu námsmanna til endurgreiðsluskyldu lágtekjumanna kemur það út úr reikningsdæminu, ef reynt er að áætla skilahlutfall lánanna, að um 54% lánanna hefðu skilað sér í sjóðinn á 20 ára endurgreiðslutíma miðað við raungildi lánsfjár og rýrnun peninganna. Í þessu sambandi er kannske rétt að nefna ummæli Þjóðhagsstofnunar einmitt um þetta atriði, og bað skal viðurkennt að það er tekið svo til orða í umsögn Þjóðhagsstofnunar að hér sé um grófa útreikninga að ræða þar sem menn verði að gefa sér ýmsar forsendur sem erfitt sé að sanna til fulls að séu hinar réttu, en ég vil benda á að sérfræðingar Þjóðhagsstofnunar fóru vandlega yfir þessa reikninga og þeir sáu ekki ástæðu til að vefengja þá og það er ekkert sem bendir til þess að þessi tala sé of lágt reiknuð. Hitt má vel vera, að þessi tala kunni að vera hærri ef tækist að reikna hana nákvæmlega út.

Samkv. því frv., sem ríkisstj, hefur hér lagt fram, og með þeim brtt., sem meiri hl. menntmn. leggur nú til að samþ. verði, eiga allir lántakendur að greiða a.m.k. 40 þús. kr. á ári án tillits til tekna, og sú upphæð á að hækka í samræmi við framfærsluvísitölu. Það er rétt að benda hér alveg sérstaklega á þau ummæli sem formaður menntmn, las upp úr bréfi Þjóðhagsstofnunar áðan, að miðað við meðallán í þeirri úthlutun, sem nú er nýlokið, mun þessi fasta lágmarksendurgreiðsla, 40 þús. kr. á alla námsmenn, skila sjóðnum hvorki meira né minna en 62% af raungildi veittra lána, og þetta eru nákvæmir útreikningar að sögn sérfræðinga Þjóðhagsstofnunar. Þessi tala ein, 40 þús., sem nú á að gera að lögum, skilar sjóðnum 62% að raungildi. Ofan á þetta ætlar svo ráðh. að bæta sérstakri aukaafborgun sem svo er kölluð, en er ekki nánar skilgreind í frv. En ef miðað er við að þar sé um einhverja verulega afborgun að ræða til viðbótar, þannig að tekjuviðmiðunin sé til einhvers, sé ekki orðin tóm, þá er alveg ljóst að hér er verið að samþ. frv. sem felur í sér að 80–90% lánanna skili sér aftur til sjóðsins með fullri verðtryggingu, og þá fer ekkert milli mála að hér er tvímælalaust um langtum óhagstæðari kjör að ræða en boðin eru hjá nokkrum lánasjóði eða fjárfestingarsjóði í landinu. Þar komast ekki óhagstæðustu fjárfestingarlán í neinn samjöfnuð, og er auðvelt að færa rök að því. Þau eru margfalt hagstæðari jafnvel þótt á þeim séu vextir.

Ég ætla ekki hér að rekja fjöldamargar ályktanir og mótmæli sem borist hafa frá námsmönnum um þetta efni og hv. þm, hafa fengið í hendur. Það er ástæðulaust að fara að lesa þær hér allar. En þessi mótmæli eru ekki borin fram að ástæðulausu.

Minni hl. menntmn, telur að sjálfsögðu fráleitt með öllu, að ekki séu notuð stærri orð, að þessi ákvæði verði að lögum. Það er ein helsta brtt, okkar á þskj. 687 að þessi fasta lágmarksendurgreiðsla falli niður. Það er hins vegar till. okkar að farin verði nokkur millíleið. Við setjum fram þessa hugmynd í von um að slík millileið fengi frekar að njóta náðar fyrir augum hæstv. ríkisstj. en till. námsmanna, enda þótt ég telji að fyllstu rök séu fyrir þeirri tilhögun sem námsmenn leggja sjálfir til. Sú millileið, sem við leggjum hér fram og gengur nokkru meira á hlut námsfólks heldur en till. námsmanna gera, felur það í sér að laun, sem eru fyrir neðan hálfar viðmiðunartekjur vísitölufjölskyldu, þ.e.a.s. eru fyrir neðan 600–700 þús. kr. tekjur á ári, sleppa algjörlega við greiðslur í sjóðinn meðan launin eru ekki hærri en þetta. En þeir, sem bar eru fyrir ofan, greiða 2% af brúttótekjum sinum til sjóðsins allt þar til kemur upp í viðmiðunartekjur vísitölufjölskyldunnar, en þá er gert ráð fyrir að komi aukaafborgun sem nemi 2–12% af brúttótekjum allt upp í tvöfaldar viðmiðunartekjur, þó þannig að enginn greiði meira en 10% vergra tekna til skatts, en það ákvæði er sameiginlegt með till. námsmanna og till. rn.

Um aðrar till. okkar er það að segja, að við bendum í fyrsta lagi á það að óeðlilegt er að taka þannig til orða eins og gert er í 2. mgr. 2. gr.: „Lánasjóði er heimilt að veita fjárhagsaðstoð öðrum námsmönnum en þeim sem tilgreindir eru í 1. mgr. þessarar gr.“ o.s.frv. Við teljum eðlilegt að sagt sé: „Lánasjóður veitir einnig fjárhagsaðstoð öðrum námsmönnum en þeim sem tilgreindir eru“ o.s.frv. Við teljum að það sé engin ástæða til að vera að draga neitt af þessu. Við viljum að sagt sé skýrt og skorinort að þetta skuli gera.

Önnur brtt, er um fulla brúun umframfjárþarfar. Ég hef þegar gert hana að umtalsefni og má eiginlega segja að bað sé ein veigamesta breyt. sem fólgin er í okkar till. og ein sú sjálfsagðasta.

Þriðja brtt. okkar snertir 4. gr. Við leggjum sem sagt til, að stjórn Lánasjóðs námsmanna sé óbreytt frá því sem nú er, og fylgjum þar till. kjarabaráttunefndar námsmanna. Við teljum að full rök séu fyrir því að háskólaráð skipi einn mann í sjóðsstjórnina, en teljum hins vegar algjöran óþarfa að menntmrn. skipi tvo menn án tilnefningar. Nægilegt ætti að vera að menntmrn, skipaði einn og yrði hann þá jafnframt formaður sjóðsstjórnar. Í þessari brtt. er einnig fólgið það ákvæði að framkvæmdastjóri sjóðsins sé ráðinn samkv. till. sjóðsstjórnar, en ekki að fengnum till. Við teljum að líkt og núv. stjórnarfl. telja sjálfsagt að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins ákveði hver eigi að vera forstjóri hennar og ríkisstj. hafi aðeins hið formlega vald að skipa samkv. till. stjórnar Framkvæmdastofnunar, þá sé rétt að hafa sama hátt á hjá Lánasjóði, að sjóðsstjórnin ráði raunverulega hver er gerður að framkvæmdastjóra sjóðsins.

Við gerum brtt. við 6. gr., en þar er gert ráð fyrir því og hefur lengi verið gert ráð fyrir því að námsmenn leggi fram yfirlýsingu tveggja manna um að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt verðtryggingu þess. Við teljum að þegar er verið að leggja þessar drápsklyfjar á námsmenn sem á að innheimta í 20 ár eftir að námsmenn hafa lokið námi, þá blasir það við öllum heilvita mönnum að það fæst ekki nokkur maður til þess að skrifa upp á sjálfskuldarábyrgð fyrir svo gífurlegum lánum. Það vilja vist áreiðanlega flestir vera lausir við það. Það er því algjör óþarfi að vera að krefjast þess áfram þegar endurgreiðslukröfurnar eru nú orðnar svona miklar, að menn fari að snapa einhverju og einhverja úti í bæ til þess að skrifa upp á skuldabréfin með sér. Þetta er ákvæði sem á alls ekki lengur heima í þessum lögum.

Við 7. gr. höfum við gert enn eina brtt., þ.e.a.s. nánar tiltekið við 1. málslið 3. mgr., en hún orðast svo: „Lán veitt gegn yfirlýsingum ábyrgðarmanna falla öll í gjalddaga ári eftir námslok“ og er afleiðing af hinni fyrri brtt. Við viljum að ábyrgðarmennirnir verði líka felldir út úr þessari gr.

6. brtt. okkar fjallar um endurgreiðslurnar og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hana.

7. brtt. fjallar um vanskilin, en í frv. ráðh. segir: „Verði veruleg vanskil á endurgreiðslum námslána skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.“ Það er bara eins og um sé að ræða togara eða frystihús, en ekki námsmenn og menn sem kannske skulda á aðra millj. kr. í námslán. Ef þeir geta ekki borgað í eitt skipti, þá eiga þeir bara að borga allt saman. Hvers konar endileysa eru ákvæði af þessu tagi! Menn verða að vita um hvað þessi lög eiga að fjalla og geta ekki verið að herma um ákvæði af þessu tagi eftir lögum um fjárfestingarsjóði sem eru auðvitað allt annars eðlis. Við flm. þessara till. teljum sjálfsagt að hér verði beitt svipuðum reglum og beitt er í sambandi við álagningu skatta, þar sem gengið er út frá því sem sjálfsögðum hlut að það falli ekki á menn skattar langt fram í tímann ef þeir geta ekki borgað í eitt skipti, heldur verði menn skyldaðir til þess að greiða einhverja dráttarvexti eins og er í sambandi við skattframtöl, og sé ég ekki ástæðu til að rökstyðja þessa brtt. frekar Ég vil nú eindregið fara fram á það við hæstv. menntmrh. sem kann að hafa bitið það blýfast í sig að hagga ekki við svo heilögum hlutum í þessu frv. eins og endurgreiðslukerfinu, hvort hann vildi nú ekki taka aðeins til athugunar fáránleg ákvæði eins og þetta.

Ég hef hér hlaupið yfir eina brtt. sem ég vil einnig mjög eindregið biðja hæstv. ráðh. að skoða svolítið betur, en það er að aftan við 8. gr. um endurgreiðslurnar bætist ný mgr., svo hljóðandi: „Endurgreiðslur af námslánum, sem veitt hafa verið samkv. eldri lögum, skulu hafðar til hliðsjónar við ákvörðun endurgreiðslna samkv. lögum þessum. Skulu endurgreiðslur samkv. eldri lögum dragast frá þeirri upphæð sem lánþegi mundi ella greiða samkv. lögum þessum.“

Er ekki alveg ljóst að það er mjög óeðlilegt að þeir, sem hafa þegar tekið allmikil námslán samkv. núv. lögum og þurfa að greiða þau, að engin undantekning sé gerð hvað þá snertir t.d. varðandi það hvað samanlögð upphæð afborgunar og aukaafborgunar megi nema hárri upphæð? Það segir í frv. að samanlagt megi þessi upphæð ekki nema meira en 10% vergra tekna til skatts og að lágmarksendurgreiðsla eigi ekki að nema meira en 40 þús. kr. Væri hér ekki sjálfsagt og eðlilegt að draga frá greiðslur vegna eldri lána, þannig að þeir sem hafa tekið lán samkv. fyrra kerfi borgi ekki meira en þó þessar lágmarksgreiðslur sem hér eru nefndar. Ef hæstv. ráðh. lítur svo á að hér sé einhver meinloka á ferðinni, þá er ég hræddur um að hann verði að skoða sinn hug vandlega og vita hvort meinlokan er ekki þar.

Við 12. gr. höfum við svo gert svolitla brtt. Það er í raun og veru brtt. við brtt. meiri hl. menntmn. og er ekki alvarlegs eðlis, en skiptir þó töluverðu máli, en það er að í sambandi við aðstöðujöfnunarstyrki til námsmanna, sem verða að kosta sig fjarri eigin heimili sínu vegna náms, þá geti þar ekki einungis komið til greina þeir, sem nefndir eru í 1. gr., heldur einnig þeir, sem nefndir eru í 2. gr. Mér er nær að halda að þetta hljóti að vera mistök hjá nefndinni.

Ég er næstum víss um að það eru mistök hjá n. að taka ekki tillit til fyrri lána, því ég man ekki betur en að meirihlutamenn í n, hafi tekið mjög vel í að draga þá upphæð frá og mér er nær að halda að mönnum hafi bara sést yfir að taka það með í brtt. Eins gæti ég trúað því að menn gætu fallist á að aðstöðujöfnunarstyrkirnir, sem nefndir eru í 12. gr., giltu ekki aðeins um þá, sem nefndir eru í 1. gr., heldur einnig þá, sem nefndir eru í 2. gr. Um það fjallar till. okkar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál nú þegar ég hef gert grein fyrir till. okkar sem skipum minni hl. þessarar n. Ég vil bara að endingu segja þetta: Afglöp hæstv. ríkisstj. eru orðin æðimörg á ekki mörgum ævidögum. Meðal verstu verka þessarar stjórnar er að sjálfsögðu aðför hennar að ýmsum hópum þjóðfélagsins sem eiga undir högg að sækja. Stríð ríkisstj. við láglaunafólk í landinu hefur nú staðið linnulaust frá því að stjórnin kom til valda. Hún hefur afrekað það að skerða lífskjör þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, um þriðjung, og þó er enn verri aðför ríkisstj. að lífeyrisþegum, að þeim þjóðfélagsþegnum sem hafa ekki neinar tekjur aðrar en örorkubætur og ellilífeyrisgreiðslur ásamt tekjutryggingu. En nú er sem sagt röðin komin að námsmönnum.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu hér að með samþykkt þessa frv. er ekki aðeins verið að ráðast á námsmenn. Samþykkt þessa frv. er árás á íslenska menntakerfið, og þessi aðför að kjörum námsmanna hlýtur að hafa hinar verstu afleiðingar fyrir framhaldsmenntun á Íslandi almennt. Ég er ekkert að fara í launkofa með það og ég aðvara hæstv, menntmrh, um það, að hann hefur lagt hér fram ýmis vond mál, en þetta er það versta, það langversta. Ef þetta frv. verður að lögum, þá hefur hann reist sér níðstöng sem lengi verður í minnum höfð.

Ég vil leyfa mér að lokum að skora á þm. að styðja þær sjálfsögðu brtt. sem við í minni hl. höfum lagt hér fram, en fella frv. ella.