10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3883 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

257. mál, jarðalög

Jón Árm. Héðinsson; Herra forseti. Þau orð, sem síðasti ræðumaður sagði hér, ern alveg rétt frásögn af því sem skeð hefur, en það aðeins sannar eitt, að stundum skýst, þó skörpum sé, okkur öllum, og ég átti sæti í þessari landbn. Ég man ekki að ég hafi verið viðstaddur fund þegar lagaprófessorinn kom. En það, sem ég er að reyna að vekja athygli á, er að sá andi, sem er í 40. gr. stjórnarskrárinnar, heldur ekki lengur þegar þetta er orðið að lögum. Hér segir:

„né selja eða með öðru móti láta af hendi neinar fasteignir landsins né afnotarétt þeirra nema skv. lagaheimild.“

Hér erum við að leita eftir lagaheimildinni. Það hefur alltaf verið venja áður að við hvert einstakt tilfelli, þegar lagður er á skattur og þegar eign ríkisins er seld, þurfi sérstök lög. Hér er verið að vísa í þessu frv. á almennt ákvæði er gildir um óákveðinn tíma, þangað til við breytum því aftur, og það á aldrei að spyrja Alþ., aldrei framar í því efni. Það er það sem ég er að benda á, að við erum að breyta anda þessa ákvæðis 40. gr. stjórnarskrárinnar. Auðvitað fer ráðh. að lögum ef þetta verður að lögum og það verður heimilt að gera þetta. Þetta er ekki stjórnarskrárbrot sem slíkt. Ég er aðeins að undirstrika það hvaða stefnumörkun við erum hér að framkvæma. Ég tel ótvírætt að við erum að framkvæma hér stefnumörkun ef þetta verður samþ. Ef mönnum sýnist svo að það þurfi aldrei að spyrja Alþ. framar um ráðstöfun eigna ríkisins sem nema tugum millj. eða hundruðum millj., þá hafa menn þá sannfæringu. Ég tel hins vegar, þegar ekki má leggja nokkrar kvaðir á nokkurn landsmann og jafnvel einnig ekki ráðstafa eignum ríkisins, — og hér neðanmáls er vitnað í Hæstaréttardóma því til staðfestingar og hæstiréttur hefur fjallað um þessa gr. og ráðstöfun eigna ríkisins og staðfest að það þurfi sérstök lög í hverju einstöku tilfelli þegar ráðstöfun á sér stað, þá er virkilega um stefnumörkun að ræða. En hæstv. ráðh. mun auðvitað fara að lögum. Hann hefur þetta vald, hann leitar umsagnar þriggja manna, og þess vegna er það ekki brot á stjórnarskránni kannske sem slíkt.

Ég er aðeins að vekja athygli á því að við erum að gjörbreyta anda þessarar 40. gr. og við þurfum aldrei framar á löggjöf um þetta að halda hér á Alþ., þegar hæstv. landbrh., hver sem hann verður, vill selja jörð, — auðvitað er enginn ódauðlegur í ráðherrastól fremur en ein ríkisstj. er ódauðleg, — hann hefur einn manna þetta mikilvæga vald, og þetta er virkileg stefnubreyting. Ef hæstv. ríkisstj. telur lífsspursmál að fá þetta núna, þá má hún auðvitað hagnýta sér meiri hl., en ég tel að það sé bráð nauðsyn að vekja athygli á þessari grundvallarbreytingu frá því sem verið hefur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins frá upphafi.