11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

300. mál, samstarf við erlenda aðila um virkjanir og stóriðju á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka iðnrh. fyrir hans svör, sem voru nú allítarlegri en við sams konar fsp. sem hv. þm. Helgi F. Seljan bar fram, eins og hæstv. ráðh. sagði, fyrir viku. Bendir það til að ítrekaðar fsp. af þessu tagi kunni að afla áfram nákvæmari upplýsinga um þessi samskipti heldur en hin fyrsta tilraun bar árangur um.

Hæstv. ráðh. upplýsti að tvö fyrirtæki til viðbótar við Swiss Aluminium hefðu leitað eftir og sýnt áhuga á stóriðjurekstri á Austurlandi. Fyrir viku taldi hann enga ástæðu til að nefna þessi fyrirtæki, þótt hv. þm. Helgi F. Seljan spyrði þá um Swiss Aluminium eða aðra aðila. Nú hefur verið upplýst að a. m. k. tveir aðrir aðilar, Amax Aluminium og Norsk Hydro, hafa með bréfaskriftum eða kynnisferðum eða heimsóknum eða viðræðum við íslenska sérfræðinga sýnt áhuga á stóriðju á Austurlandi. Ég tel það vissulega ómaksins vert að fá slíkar upplýsingar hér fram, þótt þær hefðu gjarnan mátt vera ítarlegri en fram kom hjá hæstv. ráðh., um hver framþróun þessa máls hefði verið eða hvort samskiptum við þessa aðila hefði verið algerlega slitið. Ég vil þess vegna ítreka það aftur við hæstv. ráðh. hvort hann vilji lýsa því hér yfir að þessum samskiptum sé slitið, þau hafi átt sér stað, frumkvæðið hafi komið frá hinum erlendu aðilum, en þau séu nú úr sögunni, eða hvort þau séu enn með einhverjum hætti á dagskrá og þá með hvaða hætti. Ég tel að þetta sé einföld spurning, ekki flókin, hún krefjist ekki mjög flókins svars. Hún felur það einfaldlega í sér: Er þessum samskiptum lokið eða ekki? — að það komi skýrt fram hjá hæstv. ráðherra hvort svo sé. Ef þeim er ekki lokið eða hæstv. ráðh. vill ekki lýsa því hér yfir að þeim sé lokið, þá lýsi hann því yfir í hvaða formi þau séu nú.

Ég vil ítreka það, að ég tel að þessi ásókn erlendra stóriðjufyrirtækja í íslensk orkuver sé eitt það mesta hættumerki, sem að íslenskri þjóð stafar í framtíðinni. Þegar járnblendiverksmiðjan verður tekin til starfa, þó að hún sé að vísu að hluta til í eign íslendinga, þá verður það hlutfall af gjaldeyristekjum okkar og útflutningi, sem beinlínis er grundvallað á eða sprottið af samstarfi við erlenda aðila, orðið svo hátt að ég tel að það verði þegar komið að hættumerkinu, hvað þá heldur ef einhverjum öðrum fyrirtækjum verður bætt í þann hóp. Ég held að það sé hollt að rifja upp yfirlýsingar íslenskra stjórnmálaflokka á fyrri hluta áratugsins 1950–1960, þegar hlutfall gjaldeyristekna af bandaríska hernum var orðið svo hátt að öllum þjóðhollum mönnum þótti nóg komið og íslendingar gengu í það að snúa þeirri þróun við.

Ég tel þess vegna að það sé fyllilega tímabært að tekið sé til athugunar hér á Íslandi og þá á Alþ. sérstaklega með tilliti til þessarar ásóknar fyrirtækja eins og Swiss Aluminium, Norsk Hydro og Amax Aluminium og jafnvel annarra slíkra aðila og með tilliti til þeirra skýrslna, sem komið hafa fram um stórverksmiðjur víða um land, að Alþ. taki til athugunar hvort það vilji ekki lýsa því yfir að þessi fjárfesting, þessi atvinnurekstur erlendra aðila á Íslandi sé þegar að komast á það hátt stig, að a. m. k. á næsta áratug verði ekki fleirum bætt í þann hóp.

Ég er þess fullviss að haldi gjaldeyristekjur okkar áfram að vera í svo ríkum mæli og jafnvel enn frekar sprottnar af starfsemi þessara aðila og íslenskir fiskistofnar verða jafnvel skertir og okkar eigin veiðar takmarkaðar á mestu árum, þá verður það fyllilega spurning innan fárra ára hvort hægt sé að tala um raunverulegt efnahagslegt sjálfstæði þjóðar sem á kannske fjórðung gjaldeyristekna sinna eða meir frá starfsemi erlendra stóriðjufyrirtækja í landinu.