10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3886 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

257. mál, jarðalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er kannske ekki alveg nógu kunnugur vinnubrögðum Alþ., og það getur verið að ókunnugleiki minn flæki mál í þessu tilfelli meira en eðlilegt er eða vant er, en ég vildi aðeins að það kæmi fram, að ég álít að þeir hv. þm., sem ekki eiga sæti í þessu tilfelli í landbn. og hafa ekki annan vettvang til þess að gera sínar aths. við frv. en í þessari hv. d. við umr., hafi þeir eitthvað við frv. að athuga, þ.e.a.s. frv., sem koma frá n., þá sé eðlilegt að þeir óski eftir því að mál séu athuguð nánar. Og ég vil leyfa mér að óska eftir því að úr því verði skorið af fagmönnum hvort hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Ég skal ekki deila við hæstv. ráðh., ég er ekki lögfræðingur frekar en hann, en ég hef haft tilhneigingu til að túlka lagaheimild, sem hann vitnaði hér í, þ.e.a.s. stjórnarskrána, á þann hátt að það bæri að sækja um heimild til Alþ. hverju sinni þegar selja ætti ríkisjarðir eða eignir. Ég skal ekki draga í efa að dr. Gaukur Jörundsson sé mjög hæfur maður, en mér er næst að halda að honum hafi yfirsést hér. Hann er mannlegur eins og hver annar og þar af leiðandi ekki óeðlilegt að hann geti gert mistök eins og hver annar. Ég hafði ekki hugsað mér að veita þessu frv. brautargengi og mun greiða atkv. gegn því, en ég mun ekki leggjast gegn því að málið hljóti þá meðferð sem hæstv. ráðh. óskaði eftir þrátt fyrir það sem ég hef sagt hér í umr. j kvöld.