14.10.1975
Efri deild: 3. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

4. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar reglugerð var gefin út 15. júlí um útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 200 mílur átti hún að taka gildi 15. okt. eða á miðnætti í nótt. Þess vegna er nauðsynlegt að setja lög um breyt. á l. nr. 102 frá 1973 til að fastákveða ákvæði laganna, þ. á m. um veiðiheimildir, veiðitakmarkanir, leyfakerfi og viðurlög við brotum, er taki í heild til hinnar nýju 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi. Hér er því nánast um formsatriði að ræða og þarfnast frv. ekki frekari skýringa.

Ég leitaði eftir því við formenn stjórnarandstöðuflokkanna hvort þeir teldu réttara að hafa þann hátt á að flytja slíkt frv. sem þetta eða gefa út brbl. Þótti bæði mér og öðrum nokkuð orka tvímælis að gefa út nokkrum dögum áður en þing kæmi saman brbl., sem áttu að taka gildi frá og með 15. okt., og fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru allir sammála mér um að það væri réttara að flytja frv. til l. þó að tími væri ekki nema einn dagur til þess að koma því frv. gegnum báðar deildir þingsins því að það verður eðlilega að verða að lögum í kvöld. Hétu þeir að beita sér fyrir því að greiða fyrir framgangi málsins.

Í Nd. gekk málið viðstöðulaust í gegn og er komið hingað til Ed. Ég vænti þess að það fái jafngóða afgreiðslu hér og í Nd. og vil leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.