10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

154. mál, sálfræðingar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég var nú eiginlega að hugsa um að falla frá orðinu þegar hv. þm. tók till. sína til baka. En ég held þó að það sé rétt vegna meðferðar málsins að ég láti koma hér fram nokkru nánari rök fyrir því að afgreiða þetta mál óbreytt heldur en ég gerði við umr. hérna um nóttina. Þá greindi ég frá því að þetta frv. er alveg í samræmi við löggjöf sem sett var um félagsráðgjöf á síðasta Alþ. og að þetta er þáttur í norrænu samstarfi um þessi mál. Það hefur verið fjallað um þetta mál í samstarfi Norðurlandanna og undirbúningur hér heima hefur verið að mínum dómi nokkuð ítarlegur og farið fram á vegum Sálfræðingafélags Íslands og síðan í menntmrn. En ég held að bað sé rétt að ég setji fram nokkur atriði til viðbótar þessu.

Mér sýnist að það séu ekki rök að vitna til lögmannsréttinda því til stuðnings að eðlilegra sé að miða löggildingu sálfræðinga við réttindi til starfs fremur en rétt til að kalla sig sálfræðing. Lögmaður verður að hafa staðist embættispróf í lögfræði og það nám er stundað hérlendis við Háskóla Íslands. Þess vegna getur ekki ríkt þar neinn vafi um hvort tilskildu námi hefur verið lokið eða ekki. Við Háskóla Íslands er svo unnt að ljúka BA-prófi í sálarfræði, en það er aðeins fyrri hluti fullgilds náms sálfræðinga, áfangi sem þarf að bæta við, eða um það bil tveggja ára nám við erlenda háskóla til þess að ljúka fullnaðarprófi sálfræðinga. Slíkt framhaldsnám til lokaprófs geta menn stundað viða um heim og t.d. hafa núverandi meðlimir í Sálfræðingafélagi Íslands numið í 8 löndum. Það er m.a. þess vegna sem það er talið nauðsynlegt að það gildi samræmdar reglur um þau menntunarskilyrði sem fullnægja þarf í þessu tilviki, og þá þykir mönnum eðlilegt að hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem gilda á Norðurlöndum í þessum efnum. Er þá sérstaklega vitnað til norskrar löggjafar frá 1973, en hún er sett í framhaldi af þeirri samstarfsvinnu Norðurlandanna sem fram hafði farið áður, og þess sjónarmiðs er einnig gætt í þessu frv.

Mér fannst rétt að láta þetta koma fram, en ég held það sé ekki ástæða til að fara út í fleiri efnisatriði fyrst hv. þm. hefur dregið till. sína til baka.