10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3911 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hefði nú e.t.v. getað fallið frá orðinu, því að erindi mitt í ræðustólinn að þessu sinni var það eitt að bera fram tvær fsp. til hæstv. forsrh. sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur þegar sett fram. En við nokkur tækifæri á undanförnum árum, þegar málefni Framkvæmdastofnunar ríkisins hafa komið til umr. hér á hv. Alþ., hef ég leyft mér að leggja þar nokkur orð í belg.

Ég hef gagnrýnt rekstur Framkvæmdastofnunar ríkisins aðallega á þeirri forsendu að hún væri að of miklu leyti undir flokkspólitískri stjórn sem í reyndinni gerði henni nær ókleift að sinna þeim almennu hagfræðilegu málefnum sem stofnun eins og Framkvæmdastofnun ríkisins á að standa að. Vil ég þar til nefna t.d. það mikilvæga málefni í þjóðarbúskap okkar að undirbúa og semja áætlunargerðir um stærstu þætti í þjóðarbúskapnum. Ég held að reynslan, sem við höfum haft af starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins frá því að hún tók til starfa á árinu 1972, sanni að það er í aðalatriðum rétt, sem ég hef haldið fram, að þessi mikilvæga stofnunar ríkisins frá því að hún tók til starfa aukinni áætlunargerð í þjóðarbúskap okkar né styrkt efnahagslegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ég hef ekki heyrt nein rök færð fram fyrir því að þetta séu rangar staðhæfingar. Ég las meira að segja upp hér fyrir nokkrum mánuðum á hv. Alþ. úr skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins frá 1974 þar sem því er lýst með óyggjandi orðalagi að einmitt hin flokkspólitísku áhrif á starfsemi áætlanadeildarinnar hafi komið í veg fyrir, að áætlanadeildin hafi getað skilað þeim árangri sem hægt var að krefjast af henni með sanngirni og hægt var að búast við. Ég skal ekki fara út í að rekja þau mál nú. En mér þætti æskilegt að hæstv. forsrh. svaraði skilmerkilega hér á eftir þeirri spurningu sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason setti fram áðan. Mér leikur ekki síst hugur á að fá að vita hvort um skipan forstjóra eða framkvæmdastjóra stofnunarinnar eigi að gilda svipuð viðhorf og gilda nú um ráðningu bankastjóra viðskiptabankanna, þar sem ég held að bankaráðin hafi flest eða öll tekið þá ákvörðun að starfandi alþm. geti ekki verið bankastjórar. Og ég tel, að með þeim gífurlega auknu fjármunum, sem frv. þetta á að færa til Framkvæmdastofnunarinnar, þ.e.a.s. með þeirri aukningu sem á að verða á Byggðasjóði, sé það mikið atriði að fá um það skýr svör hvort þetta viðhorf á að ráða hjá hæstv. ríkisstj. þegar hún skipar forstjóra Framkvæmdastofnunarinnar, hvort sem þeir verða einn eða tveir eða fleiri.

Ég tek eftir því að í frv. er gert ráð fyrir að uppsagnarfrestur forstjóra eigi að vera 12 mánuðir. Í gildandi lögum er það ákvæði að framkvæmdaráðsmanni megi segja upp með eins mánaðar fyrirvara, og er það undirstrikun þess að af hálfu hæstv. síðustu ríkisstj. var lítið á framkvæmdaráðsmenn sem eins konar trúnaðarmenn flokkanna sem þá ríkisstj. studdu. Ef þessi breyting þýðir það að meining hæstv. ríkisstj. sé að hverfa frá því að skipa flokkspólitíska fulltrúa sem forstjóra Framkvæmdastofnunarinnar, þá tel ég þessa breytingu eðlilega. Ef hins vegar á að halda því áfram sem gilt hefur til þessa samkv. lögum, þá tel ég þetta afar óeðlilega breytingu.

Ég veit ekki hvort ég tók rétt eftir því, en mér heyrðist hæstv. forsrh. segja í ræðu sinni áðan efnislega að Byggðasjóður gæti styrkt fjárhagslega sambærilegan atvinnurekstur hvar sem væri á landinu. Hafi ég heyrt þetta rétt, þá fagna ég þeirri breytingu, því að ein og aðalástæðan fyrir því að ég hef ekki getað fellt mig við hina flokkspólitísku yfirstjórn Framkvæmdastofnunarinnar, er sú furðulega skoðun þeirra, sem þar hafa ráðið málum, sem minnir um ýmislegt á störf Péturs mikla Rússakeisara sem dró strik á landakort, að þeir hafi talið sig þess umkomna að geta dregið línu um vissa staði á landinu og sagt að á þetta svæði mætti alls ekki lána, það væri óheilagt svæði sem ekki mætti lána inn á. Nú skal ég viðurkenna að á þessu hefur orðið nokkur breyting hin síðustu árin og síðustu mánuðina. T.d. er farið, að því er ég best veit, að lána út á skip hvar sem er, en þó stendur þessi mismunun áfram að verulegu leyti. Það þýðir ekki að rökstyðja þetta á þeim grundvelli að á þessu svæði, Suðvesturlandssvæði, Reykjanesi, hluta af Suðurlandi og Reykjavik, megi ekki lána því að þar hafi fólki fjölgað. Sannleikurinn er sá að Framkvæmdastofnunin hefur lánað á mörg svæði í landinn önnur sem hafa verið fólksfjölgunarsvæði ár eftir ár. Ég þarf ekki annað en minna á minn ágæta fæðingarbæ, Akureyri, og raunar miklu fleiri staði á landinu þar sem lán frá Byggðasjóði hafa verið veitt og fagna ég því. En ég fæ ekki séð hvernig þannig megi gera upp á milli staða ef ekki eru notaðar sömu forsendur í öll skiptin.

Ég vil svo aðeins að endingu taka það fram, að ég fagna því og er reiðubúinn til að veita stuðning öllum raunhæfum og skynsamlegum fjárstuðningi hins opinbera til þess að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Ég hef aldrei verið því andvígur. Ég tel það mikilvægt hlutverk, og raunar tel ég að fyrir löngu hefði átt að vera búið að móta betur og á skiljanlegri hátt hvað er í reyndinni átt við þegar talað er um byggðastefnu. Þar virðist ýmislegt óljóst og sumt rekst á annað í þeirri framkvæmd. Ég get því fagnað því að Byggðasjóður á með þessu frv. að fá aukið fjármagn þó að ég telji vafasamt að lögfesta slíkt. Í þessu tilfelli er það í stjórnarsáttmálanum að efla skuli stórlega fjárráð Byggðasjóðs og það hefur verið gert. En að taka þetta upp í löggjöf og marka jafnháan tekjustofn og Byggðasjóðurinn á að fá með þessu frv. í lögum tel ég dálítið vafasamt á tímum óðaverðbólgu í þjóðfélaginn þar sem gerð fjárl. gæti verulega miklu ráðið um það hvernig tekst til í baráttunni við verðbólguna. Það tel ég meira en vafasamt. Það er þegar nægilega mikið af svokölluðum mörkuðum tekjustofnum í okkar ríkisbúskap, og ég held að við fjárlagagerð valdi slíkt iðulega miklum vandkvæðum og á þau vandkvæði á ekki að auka.