11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

300. mál, samstarf við erlenda aðila um virkjanir og stóriðju á Austurlandi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Vegna fsp., sem hv. 7. landsk. beindi til mín, vil ég taka það fram í upphafi að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað er að sjálfsögðu ekkert annað en ráðgefandi nefnd. Hún er skipuð af iðnrh. Hún tekur engar ákvarðanir nema ríkisstj. fjalli þar um. Ég hlustaði ekki á svar hæstv. iðnrh. um daginn, en ég efast ekki um að slíkt hefur þar komið fram.

Þar sem þarna er sérstaklega rætt um Swiss Aluminium og áhuga þess fyrirtækis á virkjunarmöguleika á Austfjörðum, —- það má vel vera að ég sé að endurtaka það sem kom fram áður, — en það fyrirtæki sýndi, ef ég man rétt, fyrir um það bil tveim árum áhuga á því jafnvel að taka þátt í virkjunarrannsóknum þar, en því var vísað frá af stjórnvöldum og mér er ekki kunnugt um að slíkt tilboð hafi verið endurnýjað.

Hins vegar fór fyrirtækið fram á það siðar, hvort það mætti kynna sér þær hugmyndir sem þarna eru uppl. Því var játað, enda hafa ýmsir gert það, og komu, að því er ég best veit, 2 eða 3 sérfræðingar frá þessu fyrirtæki til landsins og ferðuðust þarna um með mönnum frá Orkustofnun. En um skipun samstarfsnefndar er mér ekki kunnugt. Það hefur a. m. k. ekki verið á vegum viðræðunefndar um orkufrekan iðnað og ekki á vegum iðnrn. að því sem ég best veit. Þeir komu og kynntu sér þessi mál, og ég get bætt því við, að þeir sögðu okkur nýlega að þeir ætluðu að skrifa einhverja álitsgerð um þetta og það er þeim að sjálfsögðu frjálst að gera.

Annars verð ég að segja um það, sem kom fram hjá. hv. fyrirspyrjanda, að mikil ásókn væri í þetta, að ég held að það sé miklu minna en hv. fyrirspyrjandi telur. Það eru ákaflega margar fsp. sem koma bréflega og jafnvel stoppa hér menn á ferð á milli heimsálfa. Langflestir sýna ekki áhuga framar. Þeir koma hér, fá einhverja bæklinga sem eru til og fara svo. Staðreyndin er sú að það hafa verið sett ákaflega þröng skilyrði fyrir slíku samstarfi, sem ég get ekki rakið nú, en hef oft minnst á, og það hefur ekki verið horfið frá þeim. Margir vilja ekki sætta sig við það. Margt fleira mætti að sjálfsögðu um þetta segja, en það hefur eflaust komið hér fram. Tíminn leyfir ekki frekari ræðu.