10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3917 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þar sem ég hef margoft látið uppi skoðanir á Framkvæmdastofnun ríkisins og lögum um þá stofnun, þá vil ég strax nú við 1. umr, láta koma fram meginviðhorf mitt til þess frv. sem hér er lagt fram.

Fyrst vil ég rifja það upp að miklar deilur urðu strax þegar frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins kom fram á árinu 1971 og var þá Sjálfstfl. fremstur í flokki þegar frv. var gagnrýnt. Sú gagnrýni var ekki sett fram til þess að andmæla margvíslegum tilgangi sem fram kom í því frv., heldur þeirri aðferð sem beitt var, hvernig lögin voru úr garði gerð, hvað snerti vald stofnunarinnar og vinnubrögð. Að því leyti tel ég að það sé rangt, sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, þegar hann heldur því fram nú að Sjálfstfl. hafi gefist upp í þessu máli. Staðreyndin er óneitanlega sú, að með því frv., sem hér er lagt fram, er mjög dregið úr þessu valdi og margvíslegum ákvæðum laganna breytt í þá átt sem hugur Sjálfstfl. stefndi til á sínum tíma og vonandi enn. Sjálfstfl. og þ. á m, ég er að sjálfsögðu ekki á móti eðlilegri, heilbrigðri byggðastefnu, var ekki á móti hagrannsóknum né áætlanagerð. En það var hin pólitíska stefnumörkun, sem frv. fól í sér og lögin um Framkvæmdastofnunina höfðu að geyma, sem var andstæð stefnu Sjálfstfl. og ýmissa annarra sem þátt tóku í þeim umr. á sínum tíma.

Sú stefnumörkun, sem þessi lög fólu í sér, var fyrst og fremst sú að mikið vald var sett í hendur einnar stofnunar við hliðina á og fram hjá ríkisstj. og um leið fram hjá Alþ. sem fjárveitingarvaldi. Og jafnframt var það gagnrýnt að stofnun framkvæmdaráðs og áhrif og völd þeirra, sem í það völdust, hefðu svip pólitískra hrossakaupa, það væri farið aftur til vinnubragða, sem þekktust hér áður fyrr og gáfust mjög illa, buðu upp á margvíslega spillingu og misnotkun og hefur verið reynt að hverfa frá á Íslandi. Þarna var sem sagt horfið aftur til þess fyrirkomulags.

Nú er lagt fram frv. um breyt. á þessum l., og ég vil halda því fram að það beri með sér að að miklu leyti hafi verið tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur verið sett. Þetta ber að viðurkenna og þakka. Einkum vek ég athygli á breytingum á 1. gr., 12. gr. og 30. gr., en þeim hefur öllum verið breytt á bann veg að úr völdum stofnunarinnar er mjög dregið og hennar hlutverki breytt að því leyti sem um er rætt í þessum gr. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja það efnislega, þm. geta borið það saman af skjölum og þeim gögnum sem fyrir liggja. Ég mun því sleppa að þessu sinni að fara mjög nákvæmlega út í umr. um hvert einstakt atriði.

Ég tel að það hefði mátt ganga miklu lengra með breytingum á 1., og hef ég margvíslegt við það að athuga hvernig frv. er lagt fram hvað snertir önnur atriði, sem eru sum meiri háttar, en flest þó minni háttar. Og þegar ég segi þetta, þá geng ég út frá því að stefnt sé að áframhaldandi lífi þessarar Framkvæmdastofnunar. Ég hef talið eðlilegra að stofnunin yrði alfarið lögð niður og það hefði verið gert til þess að stokka upp, til þess að eyða þeirri tortryggni, sem skapast hefur gagnvart þessari stofnun, og byggja upp þetta kerfi á nýjan leik á þann hátt sem fallið hefði að skoðunum m.a. mína flokks. Þetta segi ég og endurtek það án þess að ég sé að andmæla tilgangi þessara laga. Ég skil hann og ég styð hann, en ég held að honum sé hægt að ná án þess að þessi stofnun sé fyrir hendi, það megi leysa hana upp og framkvæma þá hluti, sem henni er nú falið, með öðrum og heppilegri hætti. En ef sem sagt gengið er út frá því að stofnunin standi áfram, þá hef ég einkum tvennt við þetta frv. að athuga.

Það er í fyrsta lagi skipan framkvæmdastjóra eða forstjóra þessarar stofnunar sem fram kemur í 4. gr., og í öðru lagi það ákvæði sem kveður á um ákveðið framlag úr ríkissjóði og á að vera í 28. gr., breyting á 27. gr. Ég vil aðeins víkja að því siðarnefnda fyrst örfáum orðum.

Alþ. semur og samþykkir á hverju ári fjárlög og í höndum Alþ. skal fjárveitingavaldið vera. Eins og fram hefur komið í umr. hér í dag hefur það verið vaxandi vandamál fyrri Alþ. að hafa nokkra stjórn á fjármálum og efnahagsmálum vegna þess hversu það, Alþ., er bundið af margvíslegum lögum sem mæla fyrir um fjárveitingar. Það eru markaðir tekjustofnar og mörkuð útgjöld. Þetta hefur mjög bundið hendur okkar og hefur margoft komið fram, þegar menn hafa t.d. sett fram óskir og aðstæður hafa kallað á hugsanlegar breytingar á fjárl., t.d. til niðurskurðar, þá hefur svigrúm okkar verið mjög lítið einmitt vegna margvíslegra laga sem binda hendur okkar hvað fjárlög og fjárveitingar snertir. Og með þessu frv. er enn gengið inn á þá óheillabraut að binda hendur okkar og marka ákveðin útgjöld sem ekki verður hnikað til. Ég hef auðvitað ekkert á móti því að ákveðið fé sé látið ganga til byggðamála. En ég tel það hljóti að vera pólitískar ákvarðanir þeirra, sem ráða hverju sinni, hversu mikið skal lagt fram og það sé auðvitað háð þessum pólitíska vilja og aðstæðum hverju sinni. En þær aðstæður geta auðvitað breyst frá ári til árs og eðlilegt væri að þingið hefði eitthvað um það að segja, en þyrfti ekki að lúta sérstakri löggjöf um þetta efni. Ég mun styðja það heils hugar sem fram kemur í stjórnarsáttmála, að þessi ríkisstj. og meiri hl. hér á þingi skuli leggja fram ákveðið fé til byggðamála, og ég tel að að svo miklu leyti sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum, þá sé þessum vilja fullnægt.

Ég skal ekki vera margorður um þá gagnrýni sem fram hefur komið um að fé, sem ráðstafað er úr Byggðasjóði, sé ráðstafað til einstakra kjördæma meir en annarra án fullrar sanngirni eða raka. En ég vil túlka 29. gr. núgildandi laga svo, að hlutverk Byggðasjóðs sé ekki einvörðungu að ráðstafa fé til hinna dreifðu byggða, sem svo eru nefndar, heldur, eins og reyndar kemur fram í þessari gr., til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði, þ.e.a.s. það fé, sem Byggðasjóður hefur til ráðstöfunar, geti farið til kjördæma, til byggðarlaga sem til þéttbýlis teljast og skuli bæta aðstöðu manna til búsetu í byggðarlögum, hvort heldur er í dreifbýli eða þéttbýli. Ég legg áherslu á að þessi skilningur sé ríkjandi hjá Byggðasjóði og hjá Framkvæmdastofnun.

Þetta var annað atriðið sem ég vildi sérstaklega gera að umtalsefni. Ég er fullur efasemda um að rétt sé að lögbinda ákveðið ráðstöfunarfé, eins og 14. gr. gerir ráð fyrir.

Hitt atriðið er skipan forstjóra. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að ákvæði 4. gr. gefur enga vísbendingu um það hvort ætlast er til þess að forstjóri sé einn eða fleiri. Í sjálfu sér er hægt að fallast á að þegar um er að ræða stóra og mikla stofnun í þjóðfélaginu, þá sé ekki útilokað að þar sé forstjóri fyrir þeirri stofnun, einn forstjóri, sem hafi yfirsýn yfir stofnunina og samræmi störf hennar. Það getur ekki verið gagnrýnisvert og ekki heldur sú aðferð að sá forstjóri sé skipaður af ríkisstj. eins og jafnan er gert undir slíkum kringumstæðum. Ef sú verður niðurstaðan, þá get ég ekki haft neitt á móti því. En ég hef ástæðu til þess að halda að ætlunin sé að ráða fleiri en einn forstjóra, og ég dreg þessa ályktun m.a. af orðum hæstv. forsrh. áðan, þar sem hann að gefnu tilefni vegna fsp., sem komu fram, svaraði þessu ekki ákveðið eins og auðvitað var farið fram á. Aðra ályktun er því miður ekki hægt að draga af svari hans heldur en gert sé ráð fyrir að forstjórarnir verði fleiri en einn. Hann tók fram að það væri á valdi stjórnar Framkvæmdastofnunar hversu margir þeir yrðu. Það er rétt samkv. því sem lesa má af frv. En ég held því fram að það sé ákaflega óeðlileg aðferð. Við vorum t.d. fyrir nokkrum dögum að ræða um og fjalla um lagafrv. um breyt. á l. um Búnaðarbanka Íslands. Sú meginbreyting, sem fólst í því frv., var einmitt að Alþ. var að ákveða hversu margir bankastjórar ættu að vera við þá bankastofnun, en það var ekki heimild fyrir bankaráð þess banka að ákveða hvort bankastjórinn væri einn, tveir, þrír eða fleiri. Ég held að sami háttur eigi að vera um þetta frv. og um þessa stofnun, að það sé Alþ. sem ákveði það skýrt og greinilega hversu margir forstjórarnir eigi að vera. Ég segi að hann eigi að vera einn, vegna þess að ef forstjórarnir verða fleiri, þá er það auðvitað alveg nákvæmlega sama fyrirkomulagið og verið hefur hingað til, pólitísk samtrygging og hrossakaup á milli einstakra flokka. Og það er rétt sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson segir, að ef það verða þrír eða fjórir flokkar í ríkisstj., þá eru allar líkur á því að þarna verði bætt við forstjórum til þess að uppfylla kröfur og þarfir einstakra flokka. Til hvers er verið að uppfylla þessar kröfur, þessar þarfir? Það er auðvitað vegna þeirra hrossakaupa sem fram fara hverju sinni milli pólitískra flokka, annar getur varla tilgangurinn verið, til þess að halda einhverju jafnvægi, til þess að sjá um að einn fái ekki meira heldur en annar, til þess að passa upp á sína.

Ég tek það fram einu sinni enn, að ég er ekki að halda því fram að einhver misnotkun eða misbeiting hafi í sjálfu sér átt sér stað hjá þeim sem starfað hafa hjá þessari stofnun. Þeir eru, eins og sagt er, hæfir menn. En ég held um leið í þessu sambandi að hversu miklum hæfileikum sem menn eru búnir, þá eigi þeir ákaflega erfitt með að sinna þingmannsstörfum jafnframt því sem þeir eru forstjórar fyrir svona stórri stofnun. Starf þeirra fyrir stofnunina hlýtur allt að vera unnið á hlaupum eða þá að þingstörf þeirra séu öll unnin á hlaupum, og hvorugt er gott. Ég held þess vegna að það sé algerlega nauðsynlegt að sá maður, sem velst sem forstjóri yfir þessa stofnun, sinni því alfarið og hafi ekki önnur störf með höndum, og auðvitað er það fráleitt, að forstjórar í Framkvæmdastofnuninni séu jafnframt alþingismenn, þó ekki sé nema vegna þeirrar pólitísku tortryggni sem af því stafar og af því hlýst. Það er þegjandi samkomulag um það í seinni tíð að alþm. séu ekki bankastjórar, og ef þeir gefa kost á sér og veljast til þingsetu, þá segja þeir af sér þeim störfum í bönkum sem þeir höfðu fyrir. Þessi regla hefur skapast vegna þess að menn hafa séð að þetta fer ekki saman. Það er siðferðilega óheppilegt, og þó að það sé ekki misnotað, þá býður það upp á misnotkun og fólk vill ekki blanda því saman, bankarnir vilja ekki blanda því saman, almenningur, sem leitar til bankanna, vill ekki tvinna þetta svo saman að menn séu að biðja um lán eða fá lán vegna pólitísks litarháttar. Sem betur fer er í vaxandi mæli sá hugsunarháttur ríkjandi að þarna skuli gera mjög sterkan greinarmun á, menn skuli fá hlutlausa, sanngjarna afgreiðslu þegar þeir sækja um einhverja fyrirgreiðslu hjá hinu opinbera, án þess að spurt sé um pólitískan lít. Þetta er siðferðiskrafa sem almenningur setur fram og Alþ. setur fram og ríkisstj. á að taka undir og taka af skarið um. Það er ætlast til þess að ríkisstj. skipi forstjóra í samræmi við og samkv. till. Framkvæmdastofnunar, en í stjórn Framkvæmdastofnunar veljast auðvitað fyrst og fremst stjórnmálamenn, þm., og er í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En hér hefur ríkisstj. öll tök á því að fylgja þessari reglu, sem ríkt hefur í bönkunum, og koma til móts við þessa eðlilegu kröfu.

Herra forseti. Það er margt fleira sem mætti segja um þetta frv. En ég skal vegna tímaþrengingar láta þessu lokið núna. Ég endurtek, að það er margt í þessu frv. sem horfir til bóta, margt hefur verið lagfært og skal ég fyrstur manna viðurkenna það. En þegar eftir standa ákvæði eins og t.d. um skipan forstjóra og óvissa í því sambandi, þá geta menn ekki sætt sig við frv. að öllu leyti, og ég held því fram að um það verði mikið fjaðrafok og miklar deilur ef menn ætla að halda því til streitu að forstjórarnir verði fleiri en einn og að þeir verði skipaðir án þess að taka tillit til þeirrar reglu sem ég hef gert að umtalsefni.