10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Þegar verið var að undirbúa stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins var uppi milli þeirra þriggja flokka, sem þá stóðu að ríkisstj. og höfðu einsett sér að koma þessari nýju ríkisstofnun á fót, verulegur ágreiningur fyrst og fremst um eitt skipulagsatriði hjá Framkvæmdastofnuninni. Þá settum við Samtakamenn eindregið fram það sjónarmið að einn framkvæmdastjóri skyldi valinn fyrir þessa stofnun og bera framkvæmdaábyrgð á störfum hennar. Þetta sjónarmið varð þá að lúta í lægra haldi fyrir afstöðu samstarfsflokka okkar í ríkisstj., og hefur engin breyting orðíð á því fyrirkomulagi sem upp var tekið um framkvæmdaráð fyrr en nú, að lagt er til að nafninu sé hreytt, en þar með er ekki gefið, eftir því frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 640, að eðli þessa höfuðs stofnunarinnar breytist.

Ekki þarf ég að rekja fyrir þingheimi hversu marga dálkmetra í Alþingistíðindum hv. þm. Sjálfstfl. hafa lagt af mörkum í áranna rás um Framkvæmdastofnunina. starfsemi hennar, eðli hennar og skipulag. Sá ríkulegi orðaflaumur, sem frá þeim hefur komið, hófst á þinginu 1971 og hefur síðan brotist fram í stórum gusum, t.a.m. mjög ríflegum í upphafi þessa þings. Ég hef verið ósammála mörgu og ég held flestu í gagnrýni Sjálfstfl. á Framkvæmdastofnunina frá öndverðu, en þó varð ekki annað skilið á málflutningi þeirra sjálfstæðismanna en að um eitt atriði væru þeir sammála því sem ég og mínir samherjar héldu fram þegar stofnunin tók til starfa, sem sé að rétt væri að koma framkvæmdaábyrgð á eins manns hendur. En það ætlar ekki að verða kápan úr því klæðinu, að ég og þeir, sem sömu skoðunar eru, geti orðið samstiga sjálfstæðismönnum í þessu atriði.

Nú liggur fyrir frv. um breyt. á l. um Framkvæmdastofnun frá ríkisstj. sem tók það upp í stefnuyfirlýsingu sína, að sjálfsögðu fyrir frumkvæði Sjálfstfl., að eitt af hennar brýnni verkefnum væri að gera breytingar á starfi og skipulagi Framkvæmdastofnunarinnar. Þetta frv. hefur látið eftir sér bíða, en liggur nú loks fyrir, og þá kemur í ljós að það er öðru nær en að einn framkvæmdastjóri eigi að koma í stað framkvæmdaráðs. Þvert á móti er ljóst bæði af því, hvernig frv. er orðað, þótt það megi teljast nokkuð tvírætt eins og það kemur fyrir á pappírnum, og ekki síður af því, sem fram hefur komið í þessum umr., að afráðið er af hálfu Sjálfstfl. og þá beggja núv. stjórnarflokka að þarna skuli vera framkvæmdastjórar, ótiltekið hve margir. Og er þá svo komið að Sjálfstfl. er lagstur fyrir fullt og allt við stjóra í þessu máli og ekki einn stjóra, a.m.k. sinn á hvort borð, gott ef ekki sinn á hvort borð bæði í stafni og skut áður en lýkur. Furða ég mig ekkert á því þó að sumir sjálfstæðismenn, eins og t.d. hv. 11. þm. Reykv., reyni enn að æmta gegn þeirri ráðabreytni sem ofan á hefur orðið í þeirra flokki, þótt oft hafi hann um þetta mál verið öllu skeleggari en í ræðu sinni hér í dag.

Af öðrum atriðum í þessu frv. vil ég sérstaklega gera að umtalsefni það ákvæði sem fjallar um að stofnuð skuli ný deild við Framkvæmdastofnunina, byggðadeild. Af því, sem um hana segir í 9. gr., er ljóst að þessi byggðadeild mun hafa að meginverkefni áætlanagerð. Í gr. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Byggðadeild gerir áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að tryggja atvinnu og búsetu í byggðum landsins.“

Þarna er um að ræða að í stofnun þessari eiga að vera tvær deildir sem hafa áætlanagerð á sinni könnu. Þar er áætlanadeild eins og verið hefur og verður áfram eftir þessa breytingu, en við tekur ný deild sem tekur við byggðaáætlununum sér í lagi. Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi að þessi skipting áætlanagerðarinnar hlýtur að vera mjög vandasöm, ekki aðeins í öndverðu meðan hin nýja deild er að setja sig á laggirnar og koma festu á starfshætti sína, heldur hlýtur svo alltaf að vera, því að heildaráætlanir, sem virðast eiga að vera á könnu áætlanadeildar, og byggðaáætlanir, sem byggðadeild á að annast, hljóta að sjálfsögðu að grípa hvorar inn í aðrar. Þarna verður að gæta mjög vel að ef ekki á að koma upp ósamræmi og árekstrar. Þetta er mjög vandasamt verkefni, og ég held að það verði enn vandasamara með því að hafa þann hátt á, ef þetta frv. nær fram að ganga, að áfram sé framkvæmdastjórnin í höndum fleiri manna en eins. Það vita allir að slíkt samræmingarverk hlýtur að vera auðveldara þegar einn maður hefur ákvörðunarvaldið heldur en þegar deildir, sem búast má við að eigi í einhverri togstreitu um verkefni, sem búast má við árekstrum á milli, þurfa að leita um lokaúrskurði í slíkum ágreiningsmálum til framkvæmdastjórnar sem skipuð er a.m.k. tveim mönnum og enginn veit í rauninni hve mörgum.