10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Frsm. meiri hl. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til athugunar hjá hv. menntmn., eins og það hefur reyndar verið áður, og meiri hl. menntmn. mælir með því að frv. verði samþykkt með tveimur breytingum. Er það í öllum aðalatriðum sama afgreiðsla af hálfu meiri hl. og á síðasta þingi, þ.e.a.s að gera tillögur til breytinga á 9. gr. frv., en hún fjallar um það hvernig með tvo þarnefnda skóla skuli fara, þ.e.a.s. Samvinnuskólann og Verslunarskólann, ef frv. verður að lögum. En ákvæði þar fjallar um fjárveitingar ríkissjóðs til nefndra skóla hvað snertir rekstrar- og stofnkostnað.

Breytingin, sem n. leggur til að gerð sé, er í því fólgin að kveðið er á um hvernig fara skuli með skólahúsnæði ef það er ekki nýtt í þágu skólanna og ef skólarnir eru lagðir niður. Á hinn bóginn er gerð lítils háttar breyting á skipan skólanefnda, þannig að menntmrn. eigi þar fulltrúa. Þá er gerð till. um að í stað þess að lögin öðlist nú þegar gildi, þá sé sett ákvæði sem kveði á um að þau taki gildi 1. jan. 1977. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því að mistök hafa átt sér stað við frágang þskj., þar sem segir á þskj. 641 að 12. gr. skuli orðast eins og þar segir. Þetta er rangt. Hið rétta er að till. er að lögin öðlist gildi 1. jan. 1977, og mun þetta verða leiðrétt.

N. hefur klofnað um afgreiðslu þessa máls og mun minni hl. væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni. Þess skal getið að þessi afgreiðsla meiri hl. er í fullu samræmi við fyrri afstöðu hans varðandi þetta frv.