10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Frsm. minni hl. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls þann 1. mars tók hæstv. menntmrh. fram að till. frá n. þeirri, er vinnur að endurskoðun á skólaskipan framhaldsskólastigsins í heild, væri að vænta innan fárra vikna, þ.e.a.s. frá 1. mars, jafnvel í marsmánuði eða áður en honum lyki. Hæstv. menntmrh. lofaði að hlutast til um að menntmn. Alþ. yrði gerð grein fyrir niðurstöðu þeirrar n. vegna þess að heppilegt væri að gefa þeim niðurstöðum auga um leið og fjallað væri um þetta frv. Með þessu hefur hæstv. ráðh. viðurkennt að samhengi væri svo skýrt milli þeirra tveggja mála að æskilegt væri að fjallað yrði um þau bæði í einu, því að skipulag viðskiptamenntunar er einn þáttur framhaldsskólastigs sem nú er í allsherjarendurskoðun. Hæstv. menntmrh. hefur sagt mér að hin raunverulegu störf þessarar n. séu búin og lítið eða ekkert muni eftir nema ganga skipulega frá till. Það er því frá mínum bæjardyrum séð algerlega óverjandi að knýja á að þetta frv. verði samþ. nú þegar svo stendur á.

Eins og ég sagði, þá er viðskiptamenntun einn þáttur þess samræmda framhaldsskóla sem n. mun gera till. um, og er því í hæsta máta óeðlilegt að festa í lögum skipulag viðskiptamenntunar sérstaklega, eins og gert yrði ef frv. þetta yrði samþykkt, áður en till. um heildarskipulag samræmds framhaldsskóla liggja fyrir.

Ekki verður á þessu stigi séð hvort það fyrirkomulag viðskiptamenntunar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, falli eðlilega inn í heildarskipulag framhaldsskólastigs, og raunar má fullyrða að sum ákvæði þessa frv. stangast beinlínis á við þær hugmyndir sem menn gera sér um samræmdan framhaldsskóla. Sömu sjónarmið koma fram í umsögnum stjórnar Landssambands framhaldsskólakennara og Félags háskólamenntaðra kennara. Í umsögn Landsambands framhaldsskólakennara segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er unnið að nánari skipulagningu náms á framhaldsskólastigi. Þar er lögð áhersla á að allar námsbrautir verði í framtíðinni í fjölbrautaskólum. Því virðist eðlilegt að fresta samþykkt þessa lagafrv. þar til nánar verður séð hver skipan þessara mála verður í skólum ríkisins.“

Í umsögn Félags háskólamenntaðra kennara segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. ber þess ljósan vott að það er fram borið vegna Samvinnuskólans og Verslunarskóla Íslands. Þótt þessum tveimur skólum verði e.t.v. ekki jafnað saman mætti álíta að þetta frv. sé ótímabært vegna þeirrar heildarathugunar, sem nú fer fram á framhaldsskólastiginu, og væntanlegra laga þar um og því væri vafasamt að festa enn í sessi þær stofnanir sem hingað til hafa notið sérstöðu sinnar.“ Og síðar í sömu umsögn, með leyfi forseta: „Þar til lög um framhaldsskólastigið verða samþykkt, sem er mjög aðkallandi og verður vonandi á næsta þingi, mætti leysa vanda sérskólanna tveggja með sérstökum fjárveitingum.“

Þetta var umsögn Félags háskólamenntaðra kennara.

Ég tel varhugavert að taka þessi sjónarmið ekki til greina. Skólamál eru viðkvæm mál. Þau varða marga, og það er höfuðatriði að samkomulag náist með skólamönnum. Það er gæfulegra að ná samstarfi um þessi mál í heild en knýja þetta frv. fram gegn vilja þeirra sem eiga að vinna samkv. þessum lögum, ef þetta frv. verður að lögum.

Allir umsagnaraðilar gera aths. við frv. auk þessa. Þeir mótmæla því að ríkið skuli ekki gera sömu kröfur um eignaraðild og stjórnunaraðild til einkaskóla og gert er til annarra skóla sem ríkið rekur í samráði við aðra, t.d. sveitarfélögin. Að vísu reynir meiri hl. menntmn. að klóra hér í bakkann, en að mínu viti ganga þær till. ekki nógu langt. Þar er t.d. gert ráð fyrir því að menntmrh. eigi aðeins einn fulltrúa í n. í stað þess, sem mér hefði þótt rétt, að fulltrúi tilnefndur af menntmrh. væri formaður skólanefndar.

Þá hef ég gert aths. við það að knúið skuli á um samþykkt þessa frv. sem felur í sér umtalsverð ríkisútgjöld, á sama tíma og framlög til skólamála almennt hafa verið skorin niður og iðnmenntun ekki sinnt sem er þó brýnasta viðfangsefnið á sviði framhaldsmenntunar. Samkv. þessu frv. mundi á þessu ári 90 millj. verða varið til Verslunarskólans í rekstrarkostnað og 20–25 millj. til Samvinnuskólans auk 20–25 þús. á mánuði aukalega fyrir hvern nemanda sem er í heimavist. Nú má segja að meiri hl. menntmn. sé sömu skoðunar og ég um kostnaðaraukann, þ.e. hann hefur gert till. un. að lög þessi öðlist ekki gildi fyrr en 1. jan. 1977. Hefur meiri hl. þar með í rauninni fallist á sjónarmið mín í þessu efni en það tel ég enn ein rökin fyrir því að algerlega óþarft sé að knýja á um samþykkt frv. þessa á þessu þingi. Nær væri að samræma fyrst kostnaðarþátttöku ríkisins til hinna ýmsu skóla, áður en einkaaðilum eru veitt meiri framlög en sveitarfélögum. Til samanburðar má geta þess að ríkið greiðir aðeins helming af stofnkostnaði Iðnskóla, en með þessu frv. er ríkinu gert að greiða 30% af stofnkostnaði Verslunarskólans og Samvinnuskólans. Ég minni á það að fyrir Alþ. hefur legið þáltill. frá hv. þm. Helga Seljan um að ríkið greiði stofnkostnað iðnskóla að fullu og geri þeim þar með jafnhátt undir höfði og menntaskólum Þessari till. hefur ekki verið sinnt, en hins vegar knúið mjög á um það að Verslunarskólinn og Samvinnuskólinu fái úrlausn sinna mála.

Ég er þeirrar skoðunar samkv. því sem ég hef nú greint frá, að það sé ekki nein nauðsyn á því að knýja á um þetta frv. Ég tel að forsendar hafi breyst svo mjög frá því að þetta frv. var áður til umfjöllunar á Alþ. að rétt sé að því sé vísað til ríkisstj. og fjallað verði um fyrirkomulag viðskiptamenntunar í tengslum við heildarendurskoðun náms á framhaldsskólastigi. Og ég er sömu skoðunar og stjórn Félags háskólamenntaðra kennara, að þangað til megi leysa vanda þessara tveggja sérskóla með sérstökum fjárveitingum eins og gert hefur verið fram að þessu.