10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3933 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

20. mál, ábyrgð á láni Landsvirkjunar til virkjana í Tungnaá

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Í l. nr. 37 16. apríl 1971 var ríkissjóði heimilað að veita ríkisábyrgð á láni sem Landsvirkjun tæki vegna fjármögnunar kostnaðar við undirbúning virkjunar Tungnaár, bæði við Sigöldu og Hrauneyjafoss, við byggingu þeirrar sem fyrr yrði ráðist í, svo og vatnsmiðlunarvirkjun við Þórisvatn og lúkningu Búrfellsvirkjunar. Seinni áfanga Búrfellsvirkjunar lauk sumarið 1972 og Þórisvatnsmiðlun var að fullu lokið á árunum 1972–1973, en eins og vitað er, þá er gert ráð fyrir að Sigölduvirkjun ljúki á þessu og næsta ári. Téð ríkisábyrgðarheimild frá 1971 takmarkaðist við 2 milljarða 772 millj. kr., þ.e. 31.5 millj. Bandaríkjadala eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri erlendri mynt, en á genginu 1 Bandaríkjadollar 88 kr. Á þeim tíma lágu ekki fyrir endanlegar áætlanir um stofnkostnað Sigölduvirkjunar, enda virkjunin þá ekki komin á útboðsstig. Endurskoðaðar áætlanir hér að lútandi á grundvelli verksamninga og þróunar í verðlags- og efnahagsmálum sýna að ríkisábyrgðarheimildir vegna lána í þágu Sigölduvirkjunar þurfa að hækka um 15 millj. Bandaríkjadala eða um 2679 millj. kr. á skráðu gengi 1 Bandaríkjadollar kr. 178.60. Í frv. þessu er því farið fram á heimild fyrir ríkisábyrgð á lántöku að þessu marki, eins og ég hef nú gert grein fyrir.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.