11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

303. mál, undanþága afnotagjalda af hljóðvarpi og sjónvarpi

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir). Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, greinargóð svo langt sem þau náðu. En ég held að þau sýni einmitt það, sem okkur grunaði áður, að þessi undanþága nær ekki til allra sem á þurfa að halda. Það kom fram að undanþágan nær til innan við 900 hvað snertir sjónvarp og hljóðvarp saman og um 250 sem eru aðeins með hljóðvarp. Tala þeirra, sem njóta uppbótar af tekjutryggingu, mun vera um 1700 manns, svo að þetta er ekki óskapa upphæð sem þarna þyrfti að sjá af ef allir fengju að njóta. Þar að auki yrðu þetta alls ekki allir, því að þetta tekur aðeins til einkaafnota, en ekki til þeirra sem búa á heimilum þar sem aðrir búa sem hafa fullar tekjur eða eðlilegar tekjur.

En það er annað, sem ég vildi vekja máls á í þessu sambandi, og það er að benda hæstv. ráðh. og þingheimi á að e. t. v. væri eðlilegra að þetta næði ekki aðeins til þeirra, sem hafa uppbót á tekjutryggingu, heldur kannske til þeirra sem hafa svo tillitlar tekjur að þeir þurfa að fá tekjutryggingu. Tekjutrygging er nú, 1975, 29 þús. kr. á mánuði til einstaklinga og 61169 kr. til hjóna. Geta allir sagt sér það sjálfir hvernig fólki gengur að lifa á þessu, hvað þá að borga að auki afnotagjöld fyrir útvarp, síma og aðrar þarfir. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá Tryggingastofnuninni, mun undanþága frá afnotagjöldum að miklum meiri hluta ná til fólks í Reykjavik og nágrenni, en síður til fólks úti á landi, af hverju sem stafar, kannske af upplýsingaleysi. En úti á landi er kostnaðurinn enn þá meiri fyrir fólk við að lifa og þar koma til liðir eins og t. d. olía sem er mjög mörgu eldra fólki mjög erfiður liður.

Þessar upphæðir, sem hæstv. ráðh. nefndi, — hann talaði um milli 20 og 30 millj., — leyfi ég mér að efast um að sé réttar. Ég fékk þessa tölu reyndar líka hjá menntmrn. Mér var sagt að útvarpsmenn teldu tekjurýrnun vegna sjónvarps yfir 20 millj. kr. og vegna útvarps um 6–7 millj. kr. Þetta passar ekki við tölurnar sem Tryggingastofnunin og innheimta útvarpsins gefur upp yfir þá sem njóta undanþágu af afnotagjaldi, vegna þess að ef maður margfaldar 900 með árgjaldinu 12 200 kr., þá koma reyndar út tæpar 11 millj., en ekki neinar 20, og um 950 þús. hjá þeim sem njóta undanþágu af afnotagjaldi af hljóðvarpi, en ekki það sem þarna vantar á þessar 30.