10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3936 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Virðulegi forseti. N. fjallaði um þetta mál á fundi sínum og varð sammála um að leggja til að frv. yrði samþ. óbreytt.

Við 1. umr. kynnti hv. 3. þm. Norðurl. v. brtt. sem hann lagði fram. Brtt. þessi vék að því að þrengja ákvæði sem eru í reglugerð um úthlutun lána við byggingu 1000 leiguíbúða sveitarfélaga. í umr. um annað mál hér á Alþ. í mars í vetur kom fram, þegar rætt var um þáltill. um hönnun opinberra bygginga, að þessi ákvæði, eins og þau eru í reglugerðinni og eins og þau hafa verið framkvæmd hjá húsnæðismálastjórn, hafa leitt til þess að hönnunarkostnaður þessara íbúða hefur orðið að mati ræðumanna óeðlilega hár. Ákvæðið, eins og það er í 3. gr. reglugerðarinnar, 2. mgr., er þannig, með leyfi forseta:

„Þegar húsnæðismálastjórn hefur samþykkt að veita lán til að byggja leiguíbúðir samkv. reglugerð þessari skal húsnæðismálastjórn annast eða láta annast allan tæknilegan undirbúning framkvæmda, könnun aðstæðna á byggingarstað, gerð teikninga, verklýsinga og kostnaðaráætlana, eftirlit og tæknilega aðstoð á byggingartímanum.“

Það kom fram hjá hv. flm. brtt, að hér væri ekki á nokkurn hátt leitað samstarfs eða umsagnar sveitarfélaganna sjálfra, en það væri eðlilegt þar sem hér væri um að ræða framkvæmdir sem sveitarfélögin reistu og ættu, að til þeirra yrði leitað varðandi framkvæmdir. Með tilvísun til ummæla hæstv. félmrh. að ræðu flm. lokinni, þar sem hann tók undir ummæli hans og taldi að n, þyrfti að skoða þessa till. vandlega, þá sýndist n. ekki ástæða til þess að taka þessa brtt. inn í frv. og væntir þess að hæstv. félmrh. beiti sér fyrir því, þar sem þarna er um reglugerðarákvæði og framkvæmdarákvæði að ræða, að þeim verði breytt í þá veru sem flm. lagði til. Fyrir því varð niðurstaða n. sú að mæla með og leggja til að frv. yrði samþ. óbreytt, en nm. áskildu sér allir rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. ef fram kynnu að koma hér við 2. umr.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.