11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

304. mál, kynlífsfræðsla í skólum

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Þegar samþykkt voru lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir voru flestir því sammála að eitt hið þýðingarmesta við þessi lög væri kafli sem fjallaði um ráðgjöf og fræðslu, bæði til almennings og í skólum. Í 7. gr. í þessum kafla er kveðið á um fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fræðsluyfirvöld skulu í samráði við skólayfirlækni veita fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins. Einnig skal veita þessa fræðslu á öðrum námsstigum.“

Þessi lög voru samþykkt 9. maí s. l. Ég hef ekki orðið vör við að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að veita þessa fræðslu í skólum né reyndar heldur í heilbrigðisstofnunum nema að mjög litlu leyti. Spurning mín til hæstv. ráðh. er því á þessa leið:

„Hafa fræðsluyfirvöld gert ráðstafanir til að veita fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins og á öðrum námsstigum? Hvenær má vænta þess að slík fræðsla komi á námsskrá?“