10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

115. mál, íslensk stafsetning

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mjög. Þetta mál hefur á næstliðnum þingum verið þæft svo rækilega að þar er í raun og veru fáu við að bæta. En þó eru nokkur orð, sér í lagi í máli hv. síðasta ræðumanns, Ingvars Gíslasonar, sem gerðu það að verkum að ég sá mig til knúinn að gera málið aðeins að umtalsefni.

Það hefur verið að því unnið að þetta mál væri tekið fyrir hér á kvöldfundi. Ég held að hv. þm. Magnús T. Ólafsson hafi orðað það svo, að hann kynni því illa, eða tekið það fram, að um þetta mál ætti að fjalla í dagsbirtu, en ekki að laumast með það að næturþeli. Ég minni nú á það að mörg jafnvel mikilvægari mál, — kannske ekki mér hjartfólgnari, ekki segi ég það kannske, — hafa verið afgreidd miklu síðar um kvöld og um nótt heldur en nú er. Það hefur enginn ætlað sér að læðupokast með þetta. Ég hef aldrei farið í launkofa með afstöðu mína í þessu máli, og ég tek hjartanlega undir það að atkvgr. og frekari umr. fari fram um hábjartan dag og hvenær sem menn þess óska. Því fer alls fjarri að ætlun sé að fara í felur með málið.

En það hefur verið gert töluvert að umtalsefni og hv. minni hl. menntmn. hneykslast á því að meiri hl. hefur ekki fengist til þess að afgreiða fyrst frv. til l. sem hæstv. menntmrh. hefur flutt, og hv. þm. Ingvar Gíslason talar sem svo að með þessari aðferð sé verið að reyna að knésetja hæstv. menntmrh. Þetta sýnir að hv. þm. hefur ekkert samband haft við hæstv. menntmrh. um málíð, aldrei átt við hann viðtal um það. Það hef ég aftur á móti gert æ ofan í æ. Hæstv. menntmrh. sendi þetta frv. inn í þingflokk Sjálfstfl. í vetur til athugunar, og honum er fullkunnugt um að þaðan var það sent aftur og því var alfarið hafnað, ekki vegna þess að aðferðin út af fyrir sig væri fordæmd, heldur vegna þess að það var ekki samkomulag um að taka upp neina athugun um aðferð sem viðhafa skyldi fyrr en undirstaðan væri réttleg fundin, út frá hverju skyldi gengið.

Ég vil strax víkja að þessu frv. Ég er ósamþykkur því að aðeins 3 menn frá háskóla eigi sæti í slíkri n. Ég mundi vilja hafa þá 7. Ég hef till. um það hvernig n. skuli skipuð. Ég mundi vilja hafa báða formenn menntmn. Alþ. í þeirri n. og e.t.v. einn frá Félagi menntaskólakennara og enn annan frá bókaútgefendum. Þarna væru teknir menn úr ýmsum áttum sem gjarnan hafa áhuga og vitsmuni til að bera til að fjalla um þessi mál. Og ef menn fallast á það og hafa sett lög um þessa aðferð, þá er það þessarar n. að skila til hæstv. menntmrh. till. sínum, en síðan mundi hann kynna þingi hvernig breyta skyldi þeim grundvelli sem byggt var á í 45 ár. Menn hafa það gjarnan á orði að mikil ringulreið ríki í þessum efnum og það er vissulega rétt. Menn segja jafnvel nú þegar gerð er tilraun til þess að hverfa aftur til þess skipulags sem var á þessum málum, að það muni valda ringulreið að hverfa aftur til hinnar gömlu reglu. Það hefði átt að flökra að hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni meðan hann var menntmrh. hvort ekki mundi valda ringulreið að fara að breyta um með þeim hastarlega hætti sem hann gerði eftir 45 ára reglur í þessum efnum. Þess vegna er það að þegar við höfum orðið sammála, og sættir geta ekki tekist fyrr en við höfum náð einhverjum ákveðnum grundvelli til að byggja á og ganga út frá, þá gæti ég vel fellt mig við þessa aðferð.

Og hvað um það að fordæmt er að Alþ. hafi með þetta að gera. Samt vilja menn samþykkja till. um það að áður en settar eru stafsetningarreglur eða gerðar breytingar á þeim skal afla heimildar Sþ. í þál.- formi. Hvað þýðir þetta? Er hægt að fella sig við þetta kannske vegna þess að menn hafi hugsað sér að þeir geti haft áfram þá aðferð að fortaka ályktanir Alþ.? Ef þetta er samþ. og ef tekin væri aftur upp sá siður að fara að þál., þá er trúlegt að Alþ. mundi leggja síðustu hönd á hvaða breytingar yrðu á stafsetningu. En ég vil einmitt víkja að þessari nýju aðferð sem er með ólíkindum í þessu máli.

Hinn 29. apríl 1974 var samþ. á Alþ. svo hljóðandi þál., með leyfi virðulegs forseta: „Alþingi ályktar, að hrundið skuli þeirri ákvörðun að fella z niður í íslensku ritmáli.“

Ég álít að þessi þál. snúi alveg eins að núv. hæstv. menntmrh. eins og hinum fyrri sem gerði ekkert með hana.

En það hefur verið samþykkt fleira í þessa veru. Hinn 16. maí 1976 er svo hljóðandi ályktun samþ., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu.“

Það er grundvallarmisskilningur ef einhver ætlar að halda því fram að þetta frv. hans um þær reglur, sem eiga að gilda um hvernig endurskoða skuli, komi eitthvað stafsetningu við. Það er grundvallarmisskilningur. Stafsetning kemur hvergi nærri þessu, heldur sú aðferð sem viðhafa skuli við endurskoðun á reglum um stafsetningu. Hér er ályktað að skora á ríkisstj., og það er verst að hæstv, forsrh. er ekki við því að hann hefur þar formennsku á hendi, og ég hlýt að kalla hann til ábyrgðar fyrir því að ekki er farið eftir þessari ályktun. Og þar sem engir tilburðir voru hjá hæstv. menntmrh. að fara eftir ályktuninni, þá voru það þm. sem tóku sig saman um að láta gera heilstætt frv. til l. í þessu efni. Ég fæ ekki séð að þetta beri að með neinum óvenjulegum hætti. En hér eru alls konar útúrdúrar og sveiflur teknar til þess að reyna að drepa málinn á dreif. Og meira að segja hv. landsk. þm. Svava Jakobsdóttir er rugluð svo rækilega að hún er búin að týna niður zetunni.

Nei, að það sé verið með ofurkappi að sækja þetta mál til þess að knésetja hæstv. menntmrh. er alger firra sem ég mótmæli. Hann sagði mér þegar hann lagði fram frv. sitt, hæstv. menntmrh., að hann gerði það til þess að sýna Alþ. þetta mál sitt og kynna það. Hann hefur aldrei í mín eyru lagt áherslu á að þetta mál næði fram að ganga. Hann hefur þvert á móti sagt við mig að hann mundi ekki setja fót fyrir það að meiri hl. Alþ., ef hann væri til fyrir lagafrv. okkar, hann fengi að njóta sín. Ég veit að hann staðfestir þetta fúslega þegar og ef honum líst. Það er einmitt það sem þarf, það er að fá festu í þetta mál. Hún hefur ekki verið að undanförnu. Hafa menn kynnt sér það hvernig ástandið er sem ríkir í skólum landsins nú? Meira að segja er það svo, að mjög viða er það sem kennarar reyna að búa til stafsetningarpróf þar sem sneitt er alfarið fram hjá öllum þessum hinum nýju reglum, ekkert orð látið koma fyrir þar sem ætti að standa z né heldur um lítinn eða stóran staf, svo að maður sleppi nú við að skrifa íslendingur með litlum staf og fái fyrir það rétt að vísu — eða skrifa það með stórum og fá fyrir það villu. Og hver er reynsla þeirra manna sem gerst ættu til að þekkja? Við höfum hér heila fylkingu manna á fskj. með frv. Geta þeir, sem valdið hafa ruglingnum í stafsetningunni, lagt einhverja slíka vitnisburði fram máli sínu til stuðnings? Ég er hræddur um að það mundi vefjast fyrir þeim, enda hefur í vaxandi mæli aukist óánægjan hjá kennurum þjóðarinnar með þetta fyrirkomulag, og raunar er það svo að enginn veit sitt rjúkandi ráð.

Hér er lögð áhersla á það af hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni að það sé tvískinnungur í máli þeirra sem flytja frv., og vísar til þess að hér er heimildargr. um að hafa sömu reglu sem Haraldur heitinn Guðmundsson setti 1934 um að ekki væri skylda að kenna z í barnaskólum. Með því að leggja til að menntmrh. hafi þessa heimild er enginn að fyrirskipa honum að nota hana.

Ef hv. þm. Magnús T. Ólafsson getur sýnt honum fram á það með rökum sínum að þetta sé hið mesta óráð og það sé verið að skipta þjóðinni niður í lærða menn og ólærða í máli, þá er ég hræddur um að hæstv. menntmrh. mundi fara að þeim rökum. Og vera að nefna norðmenn í þessu sambandi, það er með ólíkindum. Það gerir enginn nema sem lætur sér detta það í hug að íslendingar hafi aldrei heyrt minnst á ástandið sem ríkir í Noregi í þessum málum, sem á ekkert skylt við það, sem betur fer, sem ríkir hér á Íslandi, ekki í neinu. Þeir eru ekki öfundsverðir, það er mikið rétt. En að fara að jafna því til þess sem er hjá okkur, þar sem við tölum og ritum allir sömu tunguna, nokkurn veginn nákvæmlega eins, með örlitlum, vart nú orðið finnanlegum blæbrigðum, það er auðvitað út í hött og ekki þessu máli til neins stuðnings. Ég er hræddur um það, eins og ég segi, að það þyrfti ekki að vera að seilast um hurð til lokunnar ef það væri verið að ræða einhver rauð strik hérna eða vísitölur eða einhver smáframlög, hvort heldur það væri til vegagerðar eða annars, þó að það þyki hið mesta hneyksli að taka þetta mál til umr.

En ég vil þá víkja að efnahagshlið þessa frv., og það er gott að hæstv. forsrh. er mættur hér, formaður stjórnarinnar sem ég vísa til ábyrgðar um það að eigi að semja lög um íslenska stafsetningu, eins og honum var falið í ályktun Alþ. frá 16. maí í fyrra, og bið eftir þakklæti til okkar þm., sem fluttum þetta frv., fyrir að hafa tekið af ríkisstj. ómakið.

En ég vil þá víkja að efnahagsþætti þessa máls, því að það gengur best í þá sem hafa asklokið fyrir himin.

Það vill svo til að það prentaða mál, sem við nú höfum í landinu, er að talið er yfir 95% prentað á því ritmáli sem gilt hefur frá 1929 fram að því óreiðan hófst með auglýsingaherferð hæstv. fyrrv. menntmrh. Nú er það svo að ljósmyndatækni hefur fleygt svo fram að það að endurútgefa þessar bækur er talið aðeins brot af kostnaði við það sem væri að setja þær allar upp á nýtt, — aðeins brot af þeim kostnaði. Og nú er komið að því, þar sem mjög mikið af þessum bókum, bæði skáldritum og fræðibókum og öðru, hefur verið gefið út í mjög litlu upplagi sem að líkum lætur, þar sem þjóðin var miklu fámennari fyrir örfáum áratugum en hún er nú, að það þarf að fara að gefa það út upp á nýtt. Og nú athugi menn, þeir sem geyma ríkiskassann, að hér eru engar smáfúlgur á ferðinni sem þetta skiptir, og ljósmyndatæknin er orðin það fullkomin að á þessu er megin munur. Á þetta vildi ég benda, og nú kynnu kannske einhverjir að hrökkva við sem eins og ég segi hafa asklokið fyrir himin og vilja helst ekki um annað tala heldur en efnahagsmál og þykir það sérviska að menn hafi áhuga á einhverju öðru, leiðinleg sérviska.

Ég er tilbúinn til þess að styðja hæstv. menntmrh. til allra góðra hluta í þessu sambandi, og það er mjög mikill misskilningur ef hv. þm. Ingvar Gíslason heldur að ég ætli með einum eða neinum hætti að taka þátt í að knésetja þann mann. Það er alger misskilningur og algert klámhögg af hv. þm. að orða þetta svo.

Hann kemur ókunnugur frá útlöndum, hann hafði í vetur legið á þessu frv. löngum og ekki afgreitt það. Síðan brá hann sér af bæ og kemur svo ókunnugur málatilbúnaði nú og setur fram fullyrðingar sem eiga sér enga stoð.

Nei, Alþ. á ekki að fjalla um málið, er sagt. En þó er í till. hæstv. menntmrh. gert svo ráð fyrir að áður en nokkur breyting kemur til greina, þá eigi að afla sér heimildar hjá Alþ. í þál.- formi. Þetta er með nákvæmlega sama hætti, nema við höfum þá myndað festu í málinu í þessu atriði með því að hafa sett lögin.

Hvað á hv. þm. Svava Jakobsdóttir við með því þegar hún endar ræðu sína með því að segja að hún vilji vara menn við því að nota Alþ. sem persónulegt hagsmunatæki sitt? Hvernig útleggst þetta? Á þetta við mig í þessu máli? Nú er að fá svar við þessu. En hv. þm. hefur nú brugðið sér af bæ.

Ég fer nú að stytta mál mitt, en ég hlýt enn að vekja athygli á því og endurtek það að gefnu tilefni að tvívegis hefur Alþ. sjálft tekið af skarið í þessu máli. Það fer ekkert milli mála og það fer heldur ekkert milli mála hvað við var átt. Og af því að hv. þm. Svava Jakobsdóttir er mætt hér, þá vil ég, ef hún gæti gefið sér tíma til, biðja hana svo vel að gera að útleggja fyrir mig síðustu mgr. í hennar ræðu sem var svona: Ég vil vara hv. alþm. við því að nota Alþ. sem persónulegt hagsmunatæki sitt. — Sérstaklega vil ég fá að vita það í þessu máli. Getur hún kannske svarað því strax? (SvJ: Málvísindalega eða efnislega? Hvað meinti hv. þm.?) Efnislega? Persónulegt hagsmunatæki sitt, ég vil fá að vita hvað það þýðir í þessu máli. En ég var að ræða um það að tvívegis hefur Alþ. lýst yfir vilja sínum í þessu máli svo að ekkert verður um villst. Og ef á að fara að taka upp þá aðferð að virða að vettugi beinar ályktanir Alþ. og handhafar framkvæmdavaldsins ætla að leyfa sér það, þá gæti farið í verra, eins og menn hljóta að sjá af því að vantraust er t.d. ævinlega borið fram í þál.-formi, og ef vantraust yrði nú borið fram á stjórn, þá mundi það líklega þykja hart við að búa að handhafar framkvæmdavaldsins virtu það að vettugi. Og ég vil spyrja: Var kannske ekkert að marka þáltill., var það ekki að marka þegar hv. þing felldi hér þáltill. um vantraust á ríkisstj. á þessum vetri?

Hér eru tvær till., ályktanir Alþ., samþykktar, sem handhafar framkvæmdavaldsins hafa virt að vettugi. Slík brot á bingræðinu getur ekki gengið. Ég vona að menn átti sig á því áður en fer í verra. Nei, ég tek undir það, við skulum greiða atkv. um þetta og ræða það áfram, ef mönnum svo sýnist, um hábjartan dag. Það ætlar enginn að fara með veggjum í þessu máli, enginn aftan að neinum og engan á að knésetja. Það er aðeins beðið um það að Alþ. eða meiri hl. þess fái að ráða. Það var farið fram á það og ekki fleira.