10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. meiri hl. (Ellert B. Schram):

Virðulegi forseti. Ég var búinn að gera grein fyrir áliti meiri hl. n., sem um þetta mál fjallaði, og hef í sjálfu sér engu þar við að bæta. En vegna ummæla hv. þm. Ingvars Gíslasonar tel ég míg knúinn til þess að koma hingað upp í ræðustólinn aftur og bera af meiri hl. nokkrar sakir.

Hv. þm. lét að því liggja að meiri hl. n. væri að beygja menntmrh. til undanhalds og lýsti því að hér væri um að ræða óeðlilegan og óviðurkvæmilegan hátt á afgreiðslu máls. Þessu vil ég algerlega vísa á bug, og mér kemur það á óvart að hv. þm., sem jafnframt er formaður menntmn., skuli taka svona til orða.

Hæstv. menntmrh. vissi um þann áhuga, þann ásetning meiri hl. n. í síðustu viku að afgreiða þetta mál, og hann vissi um fjarveru formanns n. Honum var kunnugt um að ég sem varaformaður mundi stýra þeim fundi og leiða umr. um þetta mál, og hann lét ekki í ljós við mig nein mótmæli við væntanlegri afgreiðslu málsins eða hafði efnislega við það að athuga að tekin yrði afstaða til þessa frv. í n. á umræddum fundi. Þessu vildi ég koma á framfæri, og vísa ég þessum ummælum á bug sem viðhöfð voru af hv. þm. Ingvari Gíslasyni varðandi störf og vinnubrögð meiri hl. nefndarinnar.

Ég vildi aðeins bæta því við, sem ég reyndar tók fram í framsögu minni, að það er mikill fjöldi íslendinga sem vildi ekki sætta sig við auglýsingu menntmrh. þar sem zetan var felld úr ritmáli og aðrar veigamiklar breytingar voru gerðar á notkun íslenskrar stafsetningar. Ég er í hópi þeirra manna sem vilja hafa z í íslensku ritmáli og vil leita ráða til þess að ná fram því sjónarmiði mínu. Það liggur fyrir að viljayfirlýsingar Alþ., sem lúta að sömu niðurstöðu og horfa í sömu átt, hafa verið virtar að vettugi. Og það liggur líka fyrir að frv. hæstv. ráðh., sem liggur fyrir þinginu, leysir ekki þennan vanda. Það kveður ekkert á um það hvort zetan skuli vera tekin upp aftur eða ekki. Ef við víkjum nú til hliðar því frv., sem hér er til umr., og tækjum fyrir og afgreiddum frv. hæstv. ráðh., þá stæðum við frammi fyrir sama vanda áfram. Það lægi ekki ljóst fyrir hver úrslit eða afstaða Alþ. eða stjórnvalda væri til þessa veigamikla atriðis, til grundvallarreglna í íslenskri stafsetningu. Ég hef því ekki séð neina aðra leið heldur en þá að fylgja frv. til l. frá sex þm. sem kveður á um að horfið sé til þeirrar stafsetningar sem gilti áður en auglýsing rn. var birt á sínum tíma. Af þeirri ástæðu hef ég skrifað undir og samþykkt það frv. sem hér liggur fyrir.