10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

115. mál, íslensk stafsetning

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er einvörðungu í tilefni af orðum sem hv. formaður menntmn. Nd., hv. þm. Ingvar Gíslason, lét falla í ræðu sinni sem ég tel rétt að ég segi örfá orð. Hann sagði að áhugi okkar flm. þessa frv. og fylgismanna þess standi í sambandi við það sem hann kallaði löngun okkar til þess að knésetja hæstv. menntmrh. og þá væntanlega að við bærum til hans vantraust. Þessari staðhæfingu vil ég ekki láta ómótmælt, ekki síst vegna þess að ég er formaður stjórnarandstöðuflokks, en þeir tveir þm., sem talað hafa með málinu, eru báðir í stuðningsflokki hæstv. ríkisstj. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér er um algerlega ópólitískt mál að ræða.

Mergur málsins er að mínu viti sá sem hv. 3. þm. Austurl., Sverrir Hermannsson, lagði megináherslu á í ræðu sinni áðan, að Alþ. hefur þegar látið í ljós ótvíræðan meirihlutavilja í þessu máli með samþykkt till. til þál. á þinginu 1974–1975, þ.e.a.s. í fyrra, en þá ályktaði Alþ. að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu. Þetta var alveg undir þinglokin. Og í kjölfar þessarar ályktunar létu 33 þm. það skriflega í ljós við hæstv. menntmrh. — og þeir hefðu getað verið fleiri, það vitum við allir — að þeir væru fylgjandi því að hin gamla stafsetning yrði tekin upp aftur þegar á næsta hausti, þ.e.a.s. við endurprentun þeirra skólabóka sem á s.l. sumri lá fyrir að endurprenta. Hæstv. menntmrh. hefur því vitað og veit áreiðanlega enn að það er greinilegur meiri hl., verulegur meiri hl. fyrir því á Alþ. að breyta þeirri ákvörðun sem fyrrv. menntmrh. tók þegar hann breytti þeim reglum um stafsetningu sem gilt höfðu í fjóra áratugi.

Hversu fjarri því fer að í þessari skriflegu áskorun hinna 33 felist tilraun til þess að knésetja hæstv. menntmrh. eða lýsa að einu eða neinu leyti vantrausti á honum í þessu sambandi, hversu víðs fjarri því fer má m.a. sjá af því að einn hinna 33, sem skrifuðu undir þetta skjal og lýsir sig þar með fylgjandi því að tekin verði aftur upp hin gamla stafsetning sem gilt hafði síðan 1929, er starfsbróðir minn í hans eigin flokki, þ.e.a.s. formaður þingflokks Framsfl., Þórarinn Þórarinsson. Má geta nærri hvort formaður þingflokks Framsfl., jafngrandvar og reyndur maður og hann er, sé að gera nokkra tilraun til þess með því að lýsa skoðun sinni á þessu máli að knésetja sinn ágæta menntmrh.

Ég vildi sem formaður stjórnarandstöðuflokks aðeins láta það í ljós að ég lít svo á að hér sé um algerlega ópólitískt mál að ræða og ekki eigi að blanda trausti eða vantrausti á hvorki einstökum ráðh. né ríkisstj. í heild inn í þetta mál. Menn hafa skiptar skoðanir um þetta alveg án tillits til stjórnmálaskoðana. Mergurinn málsins er sá, að ég tel það eðlilegt að Alþ. láti í ljós vilja sinn í þessu máli með afstöðu sinni til þess frv. sem um það hefur verið flutt, fyrst það tafðist hjá hæstv. menntmrh, að verða við þeirri áskorun, sem samþ. var á s.l. vori, að láta undirbúa frv. um íslenska stafsetningu sem þá átti auðvitað að vera í samræmi við hina gömlu stafsetningu, vegna þess að það var augljós og vitanlegur vilji meiri hl. þm. að svo skyldi gert.

Ég endurtek svo það sem hv. 3. þm. Austurl. sagði í ræðu sinni, undirstrika það frekar: Það eina, sem fyrir okkur vakir í málinu, er að eðlilegur þingvilji fái að njóta sín í þessu máli eins og hann á að fá að njóta sín í öllum málum.