11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3970 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég get með glöðu geði orðið við þeim tilmælum að orðlengja ekki þessa framsöguræðu mína því það er ástæðulaust.

Ég kveð mér hér hljóðs til þess að inna eftir viðbrögðum hæstv. ríkisstj. við síðustu atburðum á miðunum fyrir Austurlandi. Svo sem hv. þm, er öllum kunnugt, þá hófu bresku herskipin að nýju ásiglingar á íslensku varðskipin eystra af meiri hörku og tillitsleysi en nokkru sinni áður nokkrum klukkustundum eftir að breska stjórnin hafði tilkynnt að fjölgað yrði herskipum á Íslandsmiðum og nokkrum klukkustundum áður en birtur var samræmdur texti síðasta fundar Hafréttarráðstefnunnar um 200 sjómílna auðlindalögsögu, þar sem tekinn er af allur vafi um bað að íslendingar skuli sitja einir að fiskimiðum sínum og vafinn tekinn af um þetta atriði svo skýlaust að jafnvel Evensen, fiskimálaráðherra Noregs, sem hefur þótt heldur hægfara og varfærinn í þessum málum, lýkur nú upp sínum munni um það að hér með séu 200 sjómílurnar orðnar að þjóðarétti.

Ég get ekki frætt hv. alþm. um það sem á miðunum skeði þarna eystra á föstudaginn umfram það sem fram hefur komið í fjölmiðlum, en ummerkin geta menn séð eða hluta af þeim í austurhöfninni hérna í Reykjavík.

Og því kveð ég mér nú hér hljóðs utan dagskrár að frá ríkisstj. hefur það eitt komið fram varðandi atburðinn þarna eystra sem marktækt er sem lesa má í ritstjórnargrein Morgunblaðsins, málgagns forsrh., á laugardaginn, þar sem raunar segir berum orðum í ritstjórnargreininni að sú ályktun, sem hægt sé að draga af atburðunum þarna eystra, sé að skynsamlegasta leiðin sé friðsamleg lausn til skamms tíma. Ályktunin, sem er dregin af því sem skeði á miðunum fyrir Austurlandi, er sú, að nú eigi að semja við breta. Ef Alþ. á ekki heimtingu á því að ríkisstj. láti í té nánari útleggingu á þessari yfirlýsingu sinni, þá held ég að það mætti a.m.k. orða það þannig að æskilegt væri að hv. Alþ. fengi nánari skýringu, ekki síst vegna þess að þessi yfirlýsing er í grundvallaratriðum í samræmi við margyfirlýsta stefnu hæstv. forsrh. í deilu okkar við breta, því viðbrögð hans hafa æ verið þau, er bretar hafa hert hernaðaraðgerðir sínar á miðunum, að hann hefur þá Íátið málgagn sitt svara með kröfu inn á við um samninga við þá. Af hálfu okkar alþb.-manna hefur því verið haldið fram að slík viðbrögð við hertum hernaðaraðgerðum af hálfu breta væru til þess fallin að eggja þá til frekari aðgerða þessarar tegundar á miðunum. Fyrst þeir fá rétta svörun við einni ofbeldisaðgerð, þá reikna þeir með enn þá betri svörun við þeirri næstu og enn þá harðari.

Af hálfu okkar er talin fullkomin ástæða til þess að krefjast ljósra svara um raunverulegar fyrirætlanir ríkisstj. í landhelgismálinu eins og nú er komið.

Formaður Framsfl., hæstv. dómsmrh., hefur nýlega kveðið fastar að orði en áður og það á miðstjórnarfundi í Framsfl. um þá skoðun sína að Ísland eigi tæpast samleið með Atlantshafsbandalaginu eins og nú sé komið, að tæpast sé við hæfi að íslendingar láti her NATO sitja hér í landi, og kveðið mjög, að ég segi ekki fast beinlínis, en þó ljósum orðum um þá framkomu bandaríkjamanna, meintra verndara okkar, að synja okkur nú um gæsluskip sem við þurfum á að halda á miðunum.

Nú er fram undan utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Osló, og ein af hliðarspurningunum í tengslum við þetta mál, sem æskilegt væri að fá nú svar við, er þessi: Ætlar utanrrh. okkar að sitja þennan ráðherrafund NATO við hliðina á breska utanrrh. eftir það sem á undan er gengið? Hvað þarf að ske hérna á miðunum, fyrir hvaða skakkaföllum þurfum við að verða, fyrir hvaða tjóni þurfum við að verða af hálfu herskipa Atlantshafsbandalagsins til þess að hæstv. ríkisstj. þyki ekki lengur við hæfi, til þess að hæstv. ráðh. ríkisstj. verði sammála um að það sé ekki lengur við hæfi að við eflum þetta sama hernaðarbandalag? í hvaða nauð þurfum við að komast til þess að hæstv. ríkisstj, álykti sem svo að það sé óhæfilegt að við höfum her frá Atlantshafsbandalaginu sitjandi á Miðnesheiði, veitum Atlantshafsbandalaginu stoð með þeim hætti til þess að níðast á okkur.

Til þess að spara tíma, vegna þess að ég geri ráð fyrir að eftir því kynni að verða innt, þá vil ég nú þegar vekja athygli á því að af hálfu Alþb. er þess krafist að við lýsum nú yfir því, að ríkisstj. lýsi nú yfir því að við munum segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu, að ameríski herinn eigi að víkja af landi okkar og auknum hernaðaraðgerðum breta á miðunum okkar verði svarað með því að setja fleiri pólska skuttogara til gæslunnar.

En sem sagt, ég óska þess að forsrh. segi okkur frá því, af því að nú hefur gefist sannarlega tóm til að fjalla um þetta mál í ríkisstj., sökum þess að fyrir skemmstu hafði verið lýst yfir því að ríkisstj. hefði öll þessi mál til athugunar vegna þess að ýmislegt væri nú fyrirsjáanlegt í landhelgismálinu, þá óska ég eftir því að hæstv. forsrh. segi okkur frá því hvað ríkisstj. hefur nú ákveðið í þessum málum.