11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt því mér er ljóst að það er knappt um tíma hér á Alþ. eins og komið er. En aðaltilefni þess, að ég kveð mér hér hljóðs, eru nokkur atriði sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh. um þetta mál. Það var ljóst á málflutningi hans að hann telur fullnægjandi að viðbrögð okkar að þessu sinni verði með svipuðum hætti og áður. Hann talar um að við eigum að kæra þessa atburði fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það tel ég tiltölulega mjög lítils virði. Við höfum reynt þá leið áður, og við vitum mætavel að Öryggisráðið fjallar um slíka atburði, slík mál, að það eru ákaflega litlar líkur til þess að þetta mál okkar verði tekið þar mjög alvarlega. Ég geri því ekki ráð fyrir miklum árangri af því. Hitt atriðið, að kæra málið enn einu sinni til fastaráðs NATO, eins og gert hefur verið í hliðstæðum tilfellum oft áður, ég hygg að menn geri sér enn þá minni vonir um árangur af því heldur en nokkurn tíma af viðbrögðum Öryggisráðsins. í þriðja lagi talar svo hæstv, forsrh. um að utanrrh. mæti á næsta fundi NATO-samtakanna í Osló og flytji þar okkar mál, og eins og hæstv. ráðh. sagði: flytji þar mál okkar til sigurs. Ja, mikil er trú hæstv. forsrh. ef hann býst nú við því að ofan á það, sem á undan er gengið, verði nú ræðuhöld utanrrh. okkar á þeim fundi til þess að við náum fullum sigri í þessu máli.

Ég held að hæstv, forsrh. verði að gera sér grein fyrir því að viðbrögð af þessu tagi eru gjörsamlega ófullnægjandi og nálega einskis virði af okkar hálfu. Spurningin er auðvitað þessi, hvort við lítum þannig á þessa hluti, eins og mér fannst koma fram í máli hans, að við gætum nú sagt: Sigur í þessari deilu er í sjónmáli. Það er ekki mjög langt undan. Sigurinn kemur. Við verðum að sýna það að við erum ekki að örvænta. Við getum beðið. — Þetta er auðvitað ein leið: gera ekki neitt og láta þetta ganga yfir, sem yfir okkur hefur verið að ganga, í trú á það að framtíðin færi okkur fullnaðarsigur. Hitt er svo aftur það, að hugleiða hvaða ráð við eigum til. Hvað getum við gert til þess að tillit til okkar verði tekið? Hver eru þau ráð?

Ég álít að þessir síðustu atburðir séu sérstaklega alvarlegir vegna þeirrar stöðu sem landhelgismálið hefur fengið nú, eins og hefur verið minnst á í þessum umr. Við gerum okkur grein fyrir því að það er orðin gjörbreytt aðstaða í deilu okkar við breta frá því sem var á árinu 1972 þegar deilan upphaflega hófst. Nú geta bretar ekki með neinu móti reynt að vitna til alþjóðaréttar varðandi þessi mál. Það er þvert á móti komin upp sú staða að á alþjóðavettvangi er búíð að staðfesta stefnu okkar í þessu máli á þann hátt, bæði af bretum og nær öllum öðrum þjóðum, að enginn getur tekið sér þau orð í munn lengur að þetta sé andstætt við alþjóðavilja og alþjóðareglur, það sem við erum að gera, og eins og við vitum eru bretar sjálfir opinberlega farnir að gera hliðstæðar kröfur og við gerum. En þeir halda eigi að síður áfram fyrirgangi sínum, þrátt fyrir allar þessar breytingar, og spurningin er sú: Hvað ætla þeir að halda þessum yfirgangi lengi áfram og með hvaða hætti?

Við verðum auðvitað líka að hafa það í huga í þessum efnum hvernig þeir aðilar, sem við hljótum að beina þessu máli talsvert alvarlega til, hafa tekið okkar máli. Við höfum rætt þessi mál við Bandaríkin á beinan og óbeinan hátt af skiljanlegum ástæðum. Við höfum fengið þar auðvitað hinar verstu móttökur. Bandaríkin neita okkur um lítils háttar fyrirgreiðslu í sambandi við útvegun á hentugu strandgæsluskipi fyrir okkur. Við vitum mætavel að þeir hefðu getað greitt fyrir okkur á þessu sviði, en þeir segja bara nei, draga okkur fyrst lengi á málinn og neita svo. Og svona til þess að auðmýkja okkur til fulls í málinu þá undirstrikar utanrrh. þeirra í viðtölum í Bretlandi við breska ráðh. að þeir séu raunverulega, bandaríkjamenn, með bretum í þessari deilu, það komi ekki til mála að þeir fari að styðja íslendinga með því að útvega þeim skip. Þetta er auðvitað auðmýking. Þetta er auðvitað fjandsamleg framkoma eins og hún getur frekast orðið, þessi framkoma Bandaríkjanna.

Sama er að segja auðvitað um öll viðbrögð NATO. Þau hafa verið okkur einskis virði, yfirborðskennd, og þau hafa ekki einu sinni fengist til þess að fordæma breta sem árásaraðila í þessum efnum, hvað þá meir.

Það er mín skoðun, eins og ég hef lýst hér oft áður, að það sé bæði rökrétt og eðlilegt og það sé eina ráð okkar, eins og sakir standa, ef við ætlum ekki að láta þessa hluti yfir okkur ganga, að sýna þessum aðilum, bæði forustumönnum NATO og Bandaríkjanna, að við höfum sjálfsvirðingu, við höfum nokkurn metnað, við látum ekki traðka á okkur, ganga yfir okkur, beita okkur órétti — sýna þeim það í verki að við eigum viss ráð gagnvart þeim, og okkar ráð eru auðvitað þau, að við eigum að tilkynna forustumönnum NATO að við munum svipta bandalagið þeirri aðstöðu sem það hefur í okkar landi. Við getum byrjað það á okkar aðgerðum í þrepum, eins og hefur verið minnst á hér áður. Það er hægt að loka fyrir vissa hluti fyrst og aðra hluti síðar, þar til kannske kæmi að því að þeir færu að skilja alvöru málsins. Og það væri alveg á sama hátt hægt að tala við bandaríkjamenn og gera þeim það ljóst að við erum ekki eingöngu þiggjendur af þeim, þeir eru ekki síður þiggjendur af okkur í þeim málum sem þeir meta mikils. Við eigum líka að tala við þá þannig. Og virðing okkar hjá þessum aðilum mundi vaxa, en ekki minnka, ef við héldum þannig á málunum.

Ég hef sagt það áður, sumpart til þess að hugga þá sem trúa í blindni á þátttöku í NATO, að það er mín skoðun að ef íslensk stjórnvöld héldu með myndarskap á þessu máli, þá þyrfti ekki einu sinni til þess að koma að við gengjum úr NATO, þeir væru orðnir nægilega hræddir löngu áður en kæmi að því og við værum búnir að ná okkar sigri. En við skulum gera okkur það alveg ljóst, að verði haldið áfram af okkar hálfu á sama hátt og verið hefur til þessa, þá lækkum við og lækkum í áliti sífellt hjá forustumönnum þessara samtaka og þeir óvirða okkur meir og meir með framkomu sinni og ganga meir og meir á okkar hagsmuni. Það er þetta sem spurningin stendur um í þessu máli. Eigum við að beita þeim ráðum, sem við vitum að við eigum til, til þess m.a. að koma því til leiðar að bretar viðurkenni almennar staðreyndir, eins og málin hafa þróast nú í hafréttarmálum, og víki burt með herskip sín af okkar miðum? Ég er ekki í neinum vafa um að sú staða er nú komin upp að breskir forustumenn eru farnir að íhuga hvernig þeir eigi að komast út úr þessari vitleysu. Auðvitað geta þeir ekki haldið áfram í marga mánuði enn. Það er augljóst mál eftir það sem gerst hefur. En ég held að við eigum að flýta fyrir þróuninni í þessu með því að tala því máli við þessa aðila sem þeir skilja.

Tilefni mitt er sem sagt aðallega að leggja að ríkisstj., að vísu ekki allt of vongóður í þeim efnum, en að leggja enn einu sinni að henni að endurskoða afstöðu sína í þessum málum og beita þeim ráðum sem við höfum til þess að knýja hér fram breytingar. Það getur orðið okkur býsna dýrt að hanga með þá aðstöðu, sem við búum við í dag, hér á fiskimiðunum út allt þetta ár. En það er ákaflega hætt við að það verði ef slík linkind verður uppi af hálfu stjórnvalda sem verið hefur. Ég held hins vegar að með réttum ráðum ættum við að geta losað okkur við þennan ófögnuð nú alveg á næstu mánuðum, ef við beitum réttum ráðum.