11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vísa algjörlega frá mér þeirri ásökun hæstv. forsrh. að ég líti á landhelgismálin með nokkurri örvæntingu. Þvert á móti hef ég í rúmlega þrjár víkur haldið því fram að við séum í raun búnir að vinna það sem hægt er að vinna af þessu stríði á miðunum. Fyrir þá bjartsýni hef ég orðið fyrir aðkasti af hálfu eins af ráðh. ríkisstj. og hún hefur verið kölluð ábyrgðarleysi. Ég held ég vari því hæstv. forsrh, við, ef hann er nú kominn á það stig að sigurinn í málinu sé í sjónmáli, að það kann að vera að einhverjum mislíki á bak við hann ef menn leyfa sér slíkar skoðanir.

Það er algjör misskilningur hjá hæstv. forsrh. að það sé nokkurt ósamræmi í því að taka þetta mál upp í NATO-ráðinu einu sinni enn og hinu, að utanrrh. mæti ekki á ráðherrafundum. Atlantshafsráðið situr að jafnaði allt árið í Brüssel og fulltrúar í því eru sendiherrar þátttökuþjóðanna. Ég tel að sendiherra okkar hefði átt að biðja um fund strax um helgina og hefði fengið þann fund, ef ekki í gær, rá í dag. Það er allt annað mál þegar ráðh. Atlantshafsþjóðanna halda fundi sína sem eru að jafnaði tvisvar á ári og er annar þeirra, vorfundurinn haldinn í Osló í næstu viku. Ég hef alltaf haldið því fram að það væri sterkt fyrir okkur íslendinga að vera ávallt reiðubúnir til að ræða þessi mál við alla sem telja sig eiga við okkur erindi um þau, og þetta hefur verið gert. En einmitt vegna þess að við höfum rætt málin við hvert tækifæri við aðra, þá er hægt að ná árangri með því að hætta einu sinni að mæta — að mæta ekki.

Það vakti athygli þegar fulltrúar Sovétríkjanna gengu út hjá Sameinuðu þjóðunum, af því að þeir höfðu setið þar frá því bandalagið var stofnað. Ráðleysingjar, sem eru á sífelldu flakki inn og út á fundum og ráðstefnum, þeir ná e.t.v. ekki miklum árangri með slíkum aðferðum. En fyrir okkur mundi þetta tvímælalaust verða mjög áhrifamikið, og það er algjör fjarstæða að kalla það að hörfa af hólmi.

Það er til önnur útgáfa af þessari baráttuaðferð, og hún er sú að ráðh. fari á fundinn og reyni að komast á mælendaskrá mjög snemma og flytji stutta ræðu og gangi síðan út. Blaðamenn í Brüssel héldu einu sinni að utanrrh. okkar hefði gert þetta, en það reyndist vist vera misskilningur.

Ég tók líka fram að ég tel að ráðh. eigi að senda skýringu á því, af hverju hann mætir ekki, og fá hana lesna af aðalritara eða einhverjum öðrum, þannig að það fari ekki á milli mála hvað um sé að vera, hér sé um mótmælaaðgerð að ræða, og það mun ekki fara fram hjá neinum hvert þeirri aðgerð er beitt. Sendiráð okkar í Osló gæti síðan sent út fréttatilkynningu um þetta, enda munu verða þarna 240–300 blaðamenn staddir á meðan á fundinum stendur í Osló.

Menn tala um að það hafi engan árangur borið að vísa þessu máli til Öryggisráðsins, og er mikið til í því. En meiri hl. þeirra mála, sem vísað er þangað, fær ekki miklu meiri raunhæfa afgreiðslu, en öll fá þau kynningu og áróður út úr því að um þau er fjallað á þessum vettvangi. Við megum þess vegna ekki missa þolinmæðina og fussa á Sameinuðu þjóðirnar bara af því að okkur hefur ekki dottið í hug hingað til neitt ráð til að vekja frekari athygli á málinu. Hvernig væri t.d. nú, vegna þess hvað á Hafréttarráðstefnunni í New York miðaði þó langt áfram, að koma á framfæri í Öryggisráðinu till. um átakahlé innan 200 mílna þangað til Sameinuðu þjóðirnar eru búnar að ljúka verkefni Hafréttarráðstefnunnar. Það standa yfir átök um þetta mál, átök sem á sumum stöðum, t.d. hér við Ísland, gætu hæglega leitt til manntjóns og vandræða, og það er ekkert eðlilegra en alþjóðasamtök beittu sér fyrir átakahléi (moratorium) á svæðum rit að 200 mílum á meðan á þessu tímabili stendur. Þetta er hugmynd sem vel mætti ræða. Ég veit að við eigum ekki fast sæti í Öryggisráðinu og kann að vera að við getum ekki sjálfir flutt um það till., en við fáum sæti þar meðan fjallað er um okkar mál. Það mætti líka athuga hvort ekki væri hægt að fá einhverja aðra til að styðja slíka till. Það er ekki bara hér við Ísland sem vandræði eru á þessu sviði. Nú fyrir nokkrum dögum tók fallbyssubátur frá Panama tvo bandaríska túnfiskbáta og flutti til lands. Þeir höfðu í flugvél komið að 4 slíkum skipum sem voru að ólöglegum veiðum innan 200 mílna landhelgi Panama. Og þeir heimta af bandaríkjamönnum að þeir fái greidda 100 þús. dollara sekt eða eitthvað um 18 millj. kr., þannig að tilefni eru viðar en hér þó að sennilega sé hvergi um eins mikla hættu á alvarlegum afleiðingum að ræða og hér. Þetta er till. um friðarráðstöfun algjörlega í anda Bandalags Sameinuðu þjóðanna. Ég hygg að það yrði ærið erfitt að mæla gegn henni á þeim vettvangi. Þannig verða menn að nota þessi tæki og sýna við það örlítið ímyndunarafl, en ekki setjast niður eins og slagsmálahundar sem viðurkenna ekkert annað en hnefaréttinn. Þetta eru mál sem við höfum fjallað um og barist um fyrst og fremst í orði og þar munu þau vinnast, og við megum ekki líta niður á neinn vettvang þar sem við getum haldið þessum málum frekar til streitu.

Að lokum tek ég mjög undir ummæli hæstv. forsrh., er hann lét í ljós þakkir til sendinefndar okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, Hans G. Andersens formanns hennar, sem hefur unnið þar frábært starf, og annarra sem voru á fundinum í New York. Þeir hafa náð miklum árangri við að halda textanum eins og við viljum hafa hann. En ég tek líka undir það að við skulum ekki hefja of mikinn sigurfagnað, vegna þess að nefndarformenn á ráðstefnunni, og forseti hennar og margir fleiri ráðamenn hennar, sem hafa staðið að gerð þessa texta, eru flestir frá strandríkjum. Það má því búast við að þeir séu heldur hliðhollir svipuðum málstað og okkar, og má gera ráð fyrir að landluktu ríkin eigi eftir að gera sína höfuð- og lokasókn, og sú sókn verður gerð þegar fer að líða að atkvgr. Mér segir svo hugur um að það muni verða till. frá þeim sem verði að afgr. með atkv. þegar þar að kemur. Við skulum vona að við verðum eins heppnir leikinn út og við höfum verið til þessa.