11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ekki veit ég, ég er ekki nógu kunnugur þingsköpum til þess að átta mig á því, en hvaðan kemur hugmynd sú um 5 mínútur? Ég hygg að ég hafi manna best látið að tilmælum hæstv. forseta um að stytta mál mitt í upphafi, varð ekki var við að hann gerði neina tilraun til að stytta mál annarra manna og ekki heldur síðasta ræðumanns. En þetta tekur mig ekki langan tíma. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á að það hefjast fundir í deildum þegar kl. vantar korter í fjögur, þannig að það eru 5 mínútur eftir sem þessi fundur getur staðið. Hins vegar ef hv. þm. þarf að tala lengur þá verður það að vera síðar í dag eða í kvöld.) Ég geri ráð fyrir að ég verði langt kominn á þessum 5 mínútum.

Ég ætlaði að þakka hæstv. forsrh. svör hans, slík sem þau voru. Við höfum gert okkur grein fyrir því að það er síður en svo af illu hjartalagi sem hann hefur stundum verið að dómi okkar ýmissa fulllinur í viðbrögðum sínum við atburðum á fiskimiðunum í þessu þorskastríði. Ég ligg honum ekki á hálsi fyrir það. Hinu mótmæli ég, að ég hafi nokkurn tíma skreytt mig öðrum fremur með friðarást eða hlutleysishjali. Ég hef stært mig af því að vera ekki hlutlaus í neinu meginmáli, og ég hef ekki reynt að draga fjöður yfir það geðslag mitt að vilja einmitt heldur slást heldur en frið um það sem mér finnst vera ósæmilegt og ranglátt. En hér komum við e.t.v. að meginefni þessa máls. Geðslag íslenskra ríkisstj. undir forsæti hæstv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar er það hljóðfæri sem bretar virðast kunna að spila á. Nótan er slegin á miðunum fyrir austan með því að bresku herskipin sigla á íslensk varðskip, og þá kemur ávallt sama hljóðið úr hæstv. forsrh. suður í Reykjavík, ætíð sama hljóðið: semja, semja. Við hefðum allir kosið það efalaust, alþm., að samkomulag hefði orðið um útfærslu fiskveiðilögsögunnar, að við hefðum náð marki okkar án átaka. En það varð ekki. Við urðum að slást.

Raunverulega förum við ekki fram á annað, alþb. menn, en samræmi milli þeirra svara, sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar gefa við yfirgangi breta úti á miðunum, og þeirra svara, sem ríkisstj. gefur. Þegar Týr rétti sig af á föstudaginn eftir hér um bil 3 mínútur og kom upp úr kafinu með aðra skrúfuna burtu og ristan byrðing og brotinn borðstokk, þá hélt skipherrann áfram sem horfði og klippti á vír næsta togara. Svar hans var sem sagt þetta: Halda áfram að verja landhelgina.

Viðbrögð ríkisstj. eru annars konar. Þegar breski flotinn lætur virkilega á sér kræla á miðunum eystra, þegar gripið er til nýrra ofbeldisaðgerða, þá vælir í aðalmálgagni ríkisstj.: Ég gefst upp, ég gefst upp. — Þetta svar af hálfu ríkisstj. við hverri ofbeldisaðgerðinni á fætur annarri hefur leitt til þess að bretar hafa hert sig, vegna þess að þeir sjá eða þykjast sjá að þessar aðgerðir renti sig. Þeir sjá um aðgerðirnar á miðunum, aðrir sjá um hina pólitísku túlkun málsins uppi á Íslandi. Við höfum margsinnis bent á leiðir, baráttuaðferðir í þeirri stöðu sem við erum í núna, alþb.-menn, — raunhæfar leiðir.

Ég get ekki tekið undir hugmyndina um slátt heiðursmerkja til þess að hengja á varðskipsmenn. Ég held það geti haft ákaflega mikla siðferðilega þýðingu að standa við bakið á þeim í þessum slag og láta þá finna að við ætlum ekki að ganga að neins konar nauðungarsamningum í þessum átökum.

Það má vera hverjum sæmilega greindum manni ljóst að við eigum ekkert erindi í NATO, hernaðarsamtökum sem beita valdi sínu gegn okkur, það hafi sýnt sig að ameríski herinn hér á landi er ekki vinsamlegur heldur öllu fremur fjandsamlegur. Við þurfum að kveðja hann og segja honum að fara heim. Það hefur sýnt sig að krafa okkar alþb.- manna, að svo miklu leyti sem við henni var orðið, um að setja togara til gæslustarfanna, hún hefur borið árangur. Og eitt er víst, að flaðrið sem andsvar við ofbeldisaðgerðum af hálfu breta á miðunum, það er ekki æskilegt núna, það er ekki æskilegt svar.

Svo vil ég aðeins í lokin vekja athygli hæstv. forseta á því og kveðja hv. alþm. til vitnis um það að ég hefi stillt mig um það með öllu að nefna hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj. þeim nöfnum í þessu sambandi sem mér eru skapi næst og vel færu.