11.05.1976
Efri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera fjölorður um málið, en aðeins segja örfá orð í tilefni af þeim brtt. sem liggja fyrir.

Hæstv. iðnrh. hefur nú skýrt till. þær sem hann hefur lagt fram á þessum fundi, og ég vil að það komi hér fram, að ég hef ekkert á móti þessum brtt.

Það er, eins og hæstv. ráðh. gat um, lagt til að í 5. gr. skuli ekki miðað við stofnkostnað af mannvirkjum, heldur að það skuli gert ráð fyrir að yfirtaka fari fram á skuldum vegna mannvirkjanna skv. samkomulagi. Í raun og veru lít ég svo á að hér sé ekki neinn beinn efnismunur sem felst í þessari till. frá því sem er í frv., vegna þess, eins og kom fram við 2. umr. í því sem ég sagði þá, að það er grundvallaratriði varðandi frv. um Orkubú Vestfjarða að það náist samkomulag um yfirtöku þessara eigna, eigna Rafmagnsveitna ríkisins og eigna sveitarfélaganna á Vestfjörðum í orkumannvirkjum. Þetta er fyrsta brtt.

Önnur brtt. kveður á um að það skuli tiltaka ákveðna fjárhæð varðandi heimild til ríkisábyrgðar. Ég hef að sjálfsögðu heldur ekkert við það að athuga.

Þá er það þriðja brtt., að í stað orðanna „gangast fyrir“ komi: .,beita sér fyrir“, en þetta á við 15. gr. frv. þar sem fjallað er um hlutverk iðnrh. varðandi það verkefni að koma á sameignarsamningum. Ég fellst einnig á þau sjónarmið sem hæstv. ráðh. setti fram varðandi þessa brtt. og hafði áður verið sett fram af hv. 6. þm. Norðurl. e.

Þá er sú brtt. sem lá fyrir við 2. umr. og var tekin aftur til 3. umr., þ.e. brtt. Ragnars Arnalds. Ég hef ekkert við það að bæta sem hæstv. iðnrh. sagði um þessa brtt. En ég vil aðeins að það komi fram, að ég tel að ef þessi brtt. verður samþ., þá sé þessu máli stofnað í fullkomna óvissu, svo ekki sé meira sagt. Ég held að þá geti svo farið að það verði ekkert að stofnun Orkubús Vestfjarða. Það er ekki vegna þess að í þessari brtt. komi fram sérstök stefnumörkun í orkumálum landsmanna, heldur einfaldlega vegna þess að það er gert ráð fyrir að þær ráðstafanir, sem yrðu nú gerðar í sambandi við stofnun Orkubús, gætu orðið aðeins bráðabirgðaráðstafanir. Ég tel að mér sé óhætt að lýsa því hér yfir að þá muni ekki vera áhugi hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum, sem eiga eignir í orkumannvirkjum, að leggja þær fram til fyrirtækis sem væri einungís ætlað að standa til bráðabirgða. Auðvitað er það svo, að hvað sem við ákveðum nú í dag um framtíðarskipan þessara mála, þá er það að sjálfsögðu alltaf á valdi Alþ. að gera þær breytingar á sem það telur að sé rétt á hverjum tíma. Ég held að m.a. af þessum ástæðum væri ákaflega óeðlilegt að samþ. þessa brtt. hv. 5. þm. Norðurl. v.

Með því að ég veit að bæði þessi hv. þm. og flokksmenn hans á Vestfjörðum eru — og ég legg sérstaka árherslu á flokksmenn hans á Vestfjörðum — eru áhugamenn um að koma á þeirri skipan sem flest í frv. um Orkubú Vestfjarða, þá vildi ég leyfa mér að mega vona að 5. þm. Norðurl. v. gæti hugsað sér að taka þessa till. aftur af þessum ástæðum.