11.05.1976
Efri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

219. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið hingað frá Nd. og fékk þar skjóta fyrirgreiðslu. Það er um breyt. á lögum um Háskóla Íslands. Það er orðinn töluverður aðdragandi að gerð þessa frv., en efni þess er komið frá háskólaráði. Breyt. þær, sem frv. inniheldur, varða þrjú atriði: kjör rektors og stjórn deilda, stofnun nýrrar deildar, félagsvísindadeildar, og í þriðja lagi fyrirkomulag prófa, einkum varðandi prófdómara.

Það fylgja þessu frv. nokkuð ítarlegar athugasemdir og m.a. vegna þess held ég að ég geti látið nægja örstutta framsögu fyrir því hér, en ég skal þó aðeins víkja að hverjum þessara þriggja þátta.

Aðild stúdenta og starfsmanna Háskólans, annarra en prófessora, að rektorskjöri og stjórn deilda hefur mjög verið til umr. í háskólaráði undanfarin tvö ár. Það hefur orðið samstaða í háskólaráði um þá tilhögun sem greinir í 1.-5. gr. frv. og svo í 7.–9, gr. Kveðið er á um atkvæðisrétt allra sem fastráðnir eru, settir til fullra starfa við Háskólann og stofnanir hans og hafa háskólapróf. Þá eru ákvæði um breytta aðild stúdenta að rektorskjöri. Samkv. ákvæðum frv. fá þeir þriðjungsaðild og hafa allir stúdentar atkvæðisrétt, í stað þess að nú eiga atkvæðisrétt fulltrúar stúdenta í háskólaráði og tveir fulltrúar stúdenta í háskóladeildum. Aðild stúdenta að stjórn deilda er einnig rýmkuð. Ég vil taka það fram að hér er þó ekki gengið lengra með aukna aðild stúdenta í stjórnun Háskólans heldur en títt er í nálægum löndum, nema síður sé.

Þá er annað atriðið. Það er lagt til að hin nýja deild, félagsvísindadeild, verði til með þeim hætti að sálarfræði, uppeldisfræði og bókasafnsfræði, sem nú er skipað í heimspekideild, flytjist þaðan í hina nýju deild, þar sem einnig verða greinar þær sem nú falla undir námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum. Þá er einnig gert ráð fyrir því að kennsla í félagsráðgjöf fari fram í deildinni, þegar sú kennsla er komin á laggirnar. Það er álit háskólamanna að hér sé um beina hagræðingu að ræða, en þessi till. um stofnun félagsvísindadeildar er reist á álitsgerð n. sem háskólarektor skipaði í jan. 1975 til þess að kanna hvort stofna bæri nýja deild við Háskólann er nái yfir áður nefnd fræði. Álitsgerð þessarar n. er allitarleg og þar eru færð fram rök fyrir því að hagkvæmast sé beinlínis að stofna til þessarar nýju deildar. Og ég vil taka það sérstaklega fram, að það er alls ekki gert ráð fyrir því að stofnun hennar hafi aukinn kostnað í för með sér, nema síður væri.

Um undirbúning að breyttu prófdómarafyrirkomulagi er það að segja, að menntmrn. skipaði í nóv. 1975 að frumkvæði háskólaráðs n. til að kanna möguleika á lækkun prófkostnaðar við Háskóla Íslands sem satt að segja er orðinn ansi mikill. Þessi n. skilaði áliti litlu síðar og það fylgir raunar með frv. sem fskj. En það er sem sagt í þessu frv. gert ráð fyrir gjörbreytingu prófdómarafyrirkomulagsins, þannig að prófdómarar eru felldir niður nema sérstaklega standi á við skrifleg próf. En hins vegar er haldið fyrri hætti að því er varðar munnlegu prófin.

Eins og ég sagði áðan, með vísun til þess að ítarlegar aths. fylgja frv. og svo álit n. sem prentað er með því fskj., þá held ég að ég sleppi að fjölyrða frekar um málið hér. En ég vil leggja áherslu á tvennt: Í fyrsta lagi er þetta beinlínis sparnaðarfrv. Breytingin á stjórn Háskólans hefur engin útgjöld í för með sér, en að vísu ekki sparnað heldur og ekki stofnun hinnar nýju deildar. En breytingin á prófdómarafyrirkomulaginu er talin spara á ári hverju 7–8 millj. kr.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.