11.05.1976
Efri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3994 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir álit meiri hl. menntmn. með fyrirvara, og þykir mér rétt að gera í nokkrum orðum grein fyrir þeim fyrirvara.

Ég vil í upphafi lýsa nokkrum grundvallarsjónarmiðum mínum í sambandi við námslán. Ég er því sammála að með námsláni á að gera öllum íslendingum kleift að sækja langskólanám sem til þess eru hæfir af öðrum ástæðum, og á þannig að reyna að jafna svo aðstöðu sem frekast má vera á milli landsmanna. Ég legg hins vegar á það ríka áherslu að námsmenn mega gjarnan hafa nokkuð fyrir sínu námi og ég tel æskilegt að námsmenn stundi nokkra vinnu, t.d. að sumri til, og er því að ýmsu leyti ekki fyllilega ánægður með það hvernig reiknuð er út umframfjárþörf námsmanna. Ég er einnig þeirrar skoðunar að það eigi að vera grundvallaratriði að menn endurgreiði sín lán. Ég fellst hins vegar á það að námslán eigi ekki að vera eins og myllusteinn um háls námsmanna þegar þeir hafa lokið námi, þannig að þeir, sem af einhverjum ástæðum ná ekki viðundandi tekjum, þurfi ekki að hafa af þessu sérstakar áhyggjur.

Fyrir um það bil þrem árum voru námslán tekin til endurskoðunar, enda þá orðin brýn þörf þar sem ljóst var að það kerfi, sem við höfum búið við, er alls kostar ófullnægjandi, endurheimtur af lánum slíkar að það getur hvergi nærri talist fullnægja því sjónarmiði sem ég lýsti áðan, að menn endurgreiði sín lán. Ég tók þátt í þeirri endurskoðun og þótti mér þá ánægjulegt að sá hópur námsmanna, sem einkum vann að þessu, sýndi mikinn skilning og mér fannst raunar að mín sjónarmið og þess hóps færu mjög saman. Mér sýndist þessi hópur vera reiðubúinn til að endurgreiða sín lán, en vildi þó hafa nokkra tryggingu fyrir því að þar yrði ekki um óeðlilegan bagga að ræða. Þá munaði raunar litlu að samkomulag næðist. Það varð því miður ekki og málið hefur síðan dregist og færst í stórum meira óefni.

Í vetur og í fyrra hefur verið unnið á vegum hæstv. menntmrh. að því að athuga þetta mál, og var þá sett á fót n. sem námsmenn áttu sæti í. Mér hefur sýnst, eftir því sem ég best sé, að sú n. hafi unnið athyglisvert starf og það hafi satt að segja ekki munað miklu að þar næðist samstaða þegar af einhverjum ástæðum það samstarf var rofið og menntmrn. á eigin vegum gekk frá því frv. sem hér hefur síðan verið lagt fram. Ég harma þessi málalok og tel að ekki hafi verið eins vandlega eftir því gengið að ná samstöðu og rétt hefði verið, og mér fannst frv. bera þess merki þegar það var lagt fram. Mér sýndist t.d. á nefndarfundi um þetta frv., þar sem fulltrúar námsmanna mættu, að þeir væru stórum betur undirbúnir til umr. um málið en fulltrúar menntmrn. Þeir höfðu lagt í það mikla vinnu að reyna að gera sér grein fyrir þeirri endurgreiðslu sem hér um ræðir, og þótt ég taki það fram fyrir mitt leyti að mér finnst 60% endurgreiðsla ekki mikil og geri raunar ráð fyrir því að menn, sem stunda langskólanám, fái þær tekjur að endurgreiðslan verði í raun langtum meiri þá var þar um ákveðna viðmiðun að ræða, ákveðna tekjuskiptingu að ræða sem námsmenn lögðu til grundvallar og ákveðin hámarkslán. Um þær forsendur mátti að sjálfsögðu allar deila og þær geta orðið aðrar. En ljóst var að þeir höfðu unnið mjög vandlega sínar till. og sínar hugmyndir á þeim forsendum sem þeir þá gáfu sér. Mér þótti illt að ekki skyldi í þeirri n., sem hafði starfað, nást samkomulag um slíkar forsendur svo að þær gætu þá einnig legið til grundvallar fyrir þeim till. sem stjórnvöld lögðu fram. En svo var ekki, og satt að segja, þrátt fyrir nokkuð ítrekaðar tilraunir, hefur ekki tekist að fá slíkan grundvöll. Að vísu met ég það álit sem komið hefur frá Þjóðhagsstofnun eða einum ágætum starfsmanni þar. Ég hygg nú satt að segja að niðurstöður þessa álits hafi komið ýmsum á óvart og sýnt töluvert meiri endurgreiðslu heldur en ráð var fyrir gert. Byggt er á þeim forsendum sem námsmenn höfðu gefið sér og, eins og ég sagði áðan, eru alls ekki að sjálfsögðu hinar einu réttu.

Mér sýndist að 8. gr., endurgreiðslugreinin í þessu frv., væri dálítið úr lausu lofti gripin þar sem ekki lágu fyrir nægilegar athuganir á þeirri endurgreiðslu sem hún hefur í för með sér, og þetta var staðfest af því áliti sem fékkst frá Þjóðhagsstofnun að mínu mati. Ég t.d. tel að unnt hefði verið með meiri vinnu að festa betur í frv. þá aukagreiðslu sem námsmönnum fyrir ofan viðmiðunartekjur er ætlað að greiða. Það er mjög opið í þessu frv. og alls ekki heldur ljóst hvað hin fasta greiðsla, 50 þús. kr., eins og lagt var fram, leiðir til í endurgreiðslu. Þetta er nú heldur ljósara eftir niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar og er þar um töluvert hærri upphæð að ræða en fulltrúar menntmrn. töldu þegar við þá var rætt. Sýnir það ljóslega hve málið var satt að segja lítið skoðað.

Ég verð að segja það, að ég tel út af fyrir sig ekki erfitt fyrir langskólagenginn mann, að greiða 50 þús. kr. á ári, og ég hygg að þeir verði ákaflega fáir, sem eiga í erfiðleikum með það. Hins vegar get ég fallist á að einhverjir geti orðið svo undir í lífsbaráttunni og fallið svo niður í tekjum eða lent í erfiðleikum að það reynist erfitt. Slíkt er alltaf mögulegt, og 50 þús. kr. greiðsla getur þá orðið erfið. Því var ég í n. á þeirri skoðun að réttara væri að miða þessa endurgreiðslu við ákveðinn hundraðshluta af tekjum. Ég nefndi t.d. 3%, þannig að fullar viðmiðunartekjur væri þessi endurgreiðsla yfir 30 þús., e.t.v. 34–35 þús. Ég óskaði eftir því að þetta yrði skoðað og þá jafnframt gert ráð fyrir því að þessi hundraðshluti færi hækkandi þegar yfir viðmiðunartekjur kæmi. Því miður treystir Þjóðhagsstofnun sér ekki til þess að gera sér og okkur grein fyrir því hver endurgreiðsla yrði með þessu kerfi. Það er fyrst og fremst með tilliti til þessa að ég skrifa undir með fyrirvara. Ég skrifa undir með fyrirvara til að lýsa óánægju minni með að fá eftir allt það starf, sem menntmrn. hefur lagt í þetta mál, ekki a.m.k. sæmilegar ágiskanir um hvað t.d. slíkt hundraðshluta endurgreiðslukerfi hefði í för með sér í endurgreiðslu miðað við þær forsendur sem gefnar eru um laun, sem — eins og ég vil enn endurtaka — ég tel satt að segja ákaflega varlegar.

Ég vildi því sjá þær brtt. sem fram kæmu frá minni hl. sem mér var ljóst að var heldur á þessari skoðun. Ég felli mig ekki við brtt. minni hl. við 8. gr., þar sem þessi endurgreiðsla er færð niður í 2% og felld að öllu niður við hálfar viðmiðunartekjur. Ég tel þarna farið of langt niður og námsmönnum enginn greiði gerður með svo lítilli endurgreiðslu. Ég held að þeir gætu vel staðið við nokkru hærri hundraðshluta og mun því ekki fylgja þessari brtt. Ég tel að lækkun niður í 40 þús. kr. fasta greiðslu á ári sé til bóta í till. meiri hl. og mun fylgja því, þó ég hefði kosið, eins og ég hef sagt, nokkuð aðra leið. Ég tel reyndar að allar aðrar breyt. meiri hl. séu til bóta og mun því greiða atkv. með þeim.

Ég get fallist á sumar athugasemdir sem komu fram í sambandi við brtt. minni hl. og mun skoða þær. Ég lít ekki svo á að orðalag í 3. gr.: „Stefnt skal að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði“ — sé hættulegt. Ég get ekki séð það. Þetta er að sjálfsögðu háð því sem veitt er á fjárlögum hverju sinni. Staðreyndin er sú að þarna eru aðrir endar opnir, eins og t.d. eðlilegur náms- og framfærslukostnaður, hver er eðlilegur náms- og framfærslukostnaður og hvað er eðlilegt tillit tekið til tekna námsmanna o.s.frv. Ég vil að þetta sé gert þannig að það sé hvatning til námsmanna til að ná sér í tekjur. Ég hef ekki sætt mig við það, að þegar duglegir námsmenn ná sér í meiri tekjur en gert er ráð fyrir sem lágmark, þá sé lánið lækkað svo sem gert hefur verið. Ég held það mætti gera ráð fyrir heldur meiri tekjum, en binda þær þar fast, svo mér sýnist þetta „stefnt að“ algjört aukaatriði. Ég held einnig að gagnrýni námsmanna sé misskilningur í sambandi við stjórn þessa sjóðs. Mér sýnist að þar sé hlutur námsmanna ekkert síður góður heldur en nú er, og raunar er það staðreyndin, ekki síst í sambandi við það sem kemur siðar í þessu frv., að öll ákvörðun þar er í höndum ráðh. fyrst og fremst og hefur raunar verið það, og e.t.v. má því um kenna, hvernig farið hefur, að menntmrn. hefur alls ekki gætt þess eins og skyldi að skoða vandlega þær reglur sem gilt hafa um úthlutun námslána.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð þó margt mætti segja. Ég vil ljúka þessu með því að segja að ég fagna því mjög hvað ákveðinn hópur námsmanna hefur tekið þessum grundvallarsjónarmiðum vel, að endurgreiða sín lán og auka og styrkja námslánasjóðinn, hefur tekið því vel að verðbinda þessi lán. Ég tel það töluverða fórn frá því sem nú er. En miðað við það að menn stefna að því að endurgreiða sín lán, þá er eðlilegt að til móts við þá sé hins vegar gengið með því að leggja ekki á vaxtabyrði. Ég mun fylgja breyt. meiri hl., en ég vil endurtaka það að ég harma og átel það að ekki skyldi langtum betur vera að því gengið að ná samstöðu við námsmenn sem mér sýnist að hefði getað verið alveg á næsta leiti ef að því hefði verið stefnt.