11.05.1976
Neðri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4004 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

7. mál, almenningsbókasöfn

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að tefja hér neitt að ráði afgreiðslu þessa máls, frv. til l. um almenningsbókasöfn. Ég var heldur seinn að kveðja mér hljóðs við 2. umr. málsins í gær, en mér þykir nauðsynlegt að koma hér að leiðréttingu vegna orða hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar í gærkvöld eða öllu heldur vegna túlkunar hans á bréfi stjórnar Sambands Ísl. sveitarfélaga sem sent var í febr. s.l. Túlkun hv. þm. á þessu bréfi var sú, að hún sýndi óánægju Sambands ísl. sveitarfélaga og að mér skildist sveitarstjórnarmanna yfirleitt með þá ákvörðun að yfirfæra þetta verkefni algjörlega til sveitarfélaganna.

Í bréfinu eða í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga er ályktað að stjórnin telji að endurskoða þurfi þetta frv. frá grunni. Sú ósk var ekki sett fram vegna óánægju með verkefnayfirfærsluna, heldur vegna þess að það hlaut að vera eðlileg ályktun vegna einmitt breytinga á verkaskiptingunni. Það var nauðsynlegt að endurskoða frv. eins og það var lagt fram snemma á þinginu. Það var nauðsynlegt að endurskoða það frá grunni vegna þeirrar stefnubreytingar sem orðið hafði. Endurskoðunin var nauðsynleg vegna ýmissa ákvæða í frv. eins og það var, og hún var líka nauðsynleg vegna brtt. sem hæstv. menntmrh. hafði lagt fram. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga var óánægð með brtt. hæstv. menntmrh. eins og þær voru og eru á þskj. 197. Sambandsstjórnin gat ekki sætt sig við það að ríkisvaldið væri að segja sveitarfélögunum fyrir um það hversu miklum fjárhæðum skyldi varið til þessara verkefnanna eða hinna. Ég vil gjarnan vita hvort það er skoðun minni hl. menntmn. að ríkisvaldið eigi að segja sveitarfélögunum til hversu miklar fjárhæðir þau eigi að leggja í hin og þessi verkefni. Eiga sveitarfélögin t.d. að una því að ríkisvaldið segi þeim hversu miklu fjármagni þau skuli verja þetta eða hitt árið t.d. til gatnagerðar, til vatnsveituframkvæmda eða einhverra annarra verkefna sem eru alfarið á þeirra snærum. Þetta er nákvæmlega sama sem hér er að gerast. Það er búið að yfirfæra þetta verkefni, rekstur almenningsbókasafna, til sveitarfélaganna, og þess vegna hafa þau ekki viljað una því að ríkisvaldið sé að segja þeim hversu miklar fjárhæðir skuli lagðar í þetta tiltekna verkefni ár hvert. Þetta var ástæðan fyrir ályktun sambandstjórnarinnar, ályktun þess efnis að nauðsynlegt væri að endurskoða þetta frv. frá grunni. Ályktunin átti ekkert skylt við óánægju sem kann að vera hjá einstökum sveitarstjórnarmönnum vegna yfirfærslu þessa verkefnis til sveitarfélaganna.

Ágreiningurinn á milli meiri hl. Alþ. og minni hl. menntmn., mér sýnist að hann sé einfaldlega einmitt um verkefnayfirfærsluna. Minni hl. menntmn. vill að horfið sé til fyrri skipunar á þessum málum, en það vill meiri hl. Alþ. ekki. Það er þegar búið að ákveða það með lagasetningu nú fyrir jólin á þessu þingi. Ég tel þetta verkefni eiga að vera í höndum sveitarfélaganna, en minni hl. menntmn, telur að svo eigi ekki að vera. Um þetta er ágreiningurinn. Minni hl. n. vill sem sagt hverfa aftur til fyrri hátta, en það vill meiri hl. Alþ. ekki.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins mótmæla þessari túlkun hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar á bréfi sambandsstjórnarinnar frá í vetur.