11.05.1976
Neðri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4009 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

7. mál, almenningsbókasöfn

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það virtist koma hv. þm. Svövu Jakobsdóttir eitthvað á óvart að ég hafði spurt minni hl. hv. menntmn. hvort það væri í skoðun þeirra hv. þm. að ríkið ætti að segja sveitarfélögunum fyrir verkum, hve miklum fjárhæðum ætti að verja til einstakra verkefna, og nefndi þar dæmi. Þetta virtist koma á óvart vegna þess að ég hefði greitt atkv. í gær með brtt. meiri hl. menntmn. Ég hélt ég hefði gert grein fyrir afstöðu minni í umr. í gær, en til þess að þetta sé ljóst skal ég ítreka það að ég lýsti óánægju minni með þessa forsjá ríkisins. Ég lýsti óánægju minni með það að ríkið væri að segja sveitarfélögunum fyrir verkum, eins og gert er í 8. gr. þessa frv., um lágmarksframlög sveitarfélaganna til þessa verkefnis. En ég gerði grein fyrir því að ég gæti út af fyrir sig fallist á þetta vegna þess að komið væri inn heimildarákvæði um að það mætti víkja frá þessari reglu að fullnægðum vissum skilyrðum. Þetta vona ég að sé þá alveg ljóst.

Ég held ég megi fullyrða að fyrir tilstilli hv. þm. Svövu Jakobsdóttur hefur áður komið inn í Alþingístíðindi a.m.k. hluti úr þessari grein Páls Lindals, en það er vafalaust gagnlegt að fá hana í heild inn í þingtíðindi. Ég ætla hins vegar að hlífa Páli Líndal við því að fara að ræða þessa grein hans hér á Alþ. Við höfum annan vettvang til þess að tala saman. Þess vegna læt ég útrætt um það. Ég get hins vegar sagt það hér að innheimta 1% gjaldsins á útsvarsstofn, sem er að hluta til efni þessarar greinar Páls Líndals, var ekki að mínu skapi fremur en annarra sveitarstjórnarstjórnarmanna. Og ég get upplýst það hér, af því að það var ekki nafnakall um það frv., að ég greiddi ekki atkv. með því. En þetta mál er ekki hér til umr. og ég læt þess vegna útrætt um það.

Við erum að tala hér öðrum þræði um sjálfstæði sveitarfélaganna, nokkuð sem ég held að þm. allra stjórnmálaflokka vilji gjarnan styðja, þannig tala þeir. Það er mín skoðun að aukið sjálfstæði sveitarfélaganna náist ekki með því að gera þau háð framlögum frá ríkinu á þessu og hinu sviðinu, og ég held að það sé einmitt þarna sem okkur greinir á, og mér sýnist það raunar vera alveg ljóst. Þarna er ágreiningurinn. Ég hef ekki áhuga á auknum framlögum ríkisins til verkefna sem ég tel að eigi að vera í höndum sveitarfélaga. Þetta er eitt af þeim verkefnum, og um það hafa sveitarstjórnarmenn náð samkomulagi á sínum þingum, á sínum vettvangi. Ég vil að sveitarstjórnir hverfi frá sífelldu betli til Alþ. og til ríkisins um ríkisframlög til þessara og hinna málaflokka. Þau eiga hins vegar að fá tekjustofna í samræmi við verkefni sín, og þau eiga að fá að ráða niðurröðun verkefnanna, en ekki að láta segja sér þar fyrir verkum. Mér sýnist líka að hv. þm. Svava Jakobsdóttir treysti ekki sveitarfélögunum fyrir þessu verkefni sem við erum að ræða hér, vill sem sagt leiðsögn ríkisins í þessu sem mörgu öðru. Það vil ég hins vegar ekki. Og ég vil aðeins ítreka það, að ég treysti fullkomlega hverju byggðarlagi til þess að verja því fjármagni sem þarf til bókasafna, til þess að koma upp myndarlegum bókasöfnum, og ákvæði þessa frv. um lágmarksframlög sveitarfélaga skipta þess vegna hér ekki nokkru máli. Þar sem er áhugi fyrir að koma upp slíkum menningarstofnunum sem bókasöfn eru, þar munu sveitarstjórnir verja því fjármagni sem þarf til þess að koma því ætlunarverki í framkvæmd.