11.05.1976
Neðri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4010 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

7. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. En ég held að það sé rétt að afstaða mín til þess atriðis, sem hefur orðið nokkurt deilumál í sambandi við afgreiðslu þessa frv., komi hér fram.

Á undanförnum árum hefur það verið bundið í lögum að í skólamálum og í bókasafnsmálum skuli hið opinbera leysa af hendi tiltekna þjónustu. Ég álít að slík kvöð eigi að haldast, hvort sem svo framkvæmdin er kostuð af sveitarfélögum eða ríki. Það er aftur spurning og má deila um það að minni hyggju hvort þessi kvöð eigi að vera bundin við ákveðna þjónustu, eins og gildir um framkvæmd skólamála á Íslandi, eða hvort hún á að vera bundin við ákveðin framlög í krónum, eins og hefur verið um bókasöfn. Það er engin breyting frá því sem það hefur verið. Það hefur verið þannig samkv. lögum þar um, að hið opinbera hefur lagt fram vissar fjárhæðir. Það var verulegt framlag á sinum tíma þó það hafi síðar rýrnað.

Ég er sem sagt andvígur því að hverfa frá slíkri kvöð varðandi bókasöfnin, alveg eins og engum mundi detta í hug, hver svo sem greiða skyldi kostnað við fræðslumálin, að hverfa frá því að hafa fræðsluskyldu í landinu og skyldu til að reka skóla. En hitt er svo annað mál, og það er það sem er vitnað í af hálfu sveitarstjórnarmanna, það eru auðvitað fjölmörg mál sem sveitarfélögin annast, ýmist ein eða í félagi við hið opinbera, sem ekki hvílir á slík kvöð þó það séu þjónustuframkvæmdir. Þau eru mörg. Það er gatnagerð, það eru hafnarmannvirki o.fl., o.fl. Mér finnst mikill eðlismunur t.d. á þessum málaflokkum sem ég nefndi, annars vegar og svo hins vegar fræðslu- og skólamálunum og þeirri þjónustu sem almenningsbókasöfnum er ætlað að veita. Mér fannst rétt að þetta kæmi hérna fram, og ég vona að það þurfi ekki að vekja neinar frekari umr. um þetta mál í heild. Ég hefði helst kosið það að sjálfsögðu að lágmarksframlögin væru ekki takmörkuð og það væri ekki heimild til þess að takmarka þau. Það er álít meiri hl. menntmn. að taka slíka heimild inn í lögin, og ég verð að sætta mig við það ef það verður ofan á hér á þinginu, sem reyndar er þegar orðið við 2. umr. þessa máls hér í d. En þrátt fyrir þetta er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta frv., ef að lögum verður, og svo ákvæðin um skólabókasöfn í grunnskólalögunum og samstarf um þetta tvennt á mörgum hinna fámennari staða, þetta hvort tveggja verður til þess að lyfta undir starfsemi bókasafnanna í landinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það.