11.05.1976
Neðri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. minni hl. (Magnús T. Ólafsson):

Hæstv. forseti. Mikið virðist á liggja að koma þessu máli út úr hv. d., og verður ekki annað séð en að þar sé beitt forsetavaldi til hins ítrasta og jafnvel fram yfir þau mörk sem hæfileg og sæmileg hafa verið talin í þessari deild.

Margt má nú hugsa um það hvað að baki býr, en ég fæ ekki dregið aðra ályktun af þeim atkvgr., sem fram hafa faríð hingað til í d. um málið, en að tveir þingfl. hafi í rauninni gert það að flokksmáli. Sá hraði, sem hér er ætlunin að viðhafa, hefur þótt viðunandi í þinglok þegar um stjórnarfrv. hefur verið að ræða sem hæstv. ríkisstj, og meiri hl. hennar hefur ákveðið að skuli ná fram að ganga. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki, a.m.k. svo vitað sé, og reyndar benda þær staðreyndir, sem fyrir liggja, í þveröfuga átt. Hér er um að ræða þingmannafrv., og það hefur komið í ljós bæði í umr. og við atkvgr. að sá hæstv, ráðh., sem fer með þann málaflokk sem málið varðar, hæstv. menntmrh., er málinu mótfallinn og vill hafa allt annan hátt á skipan þeirra mála en barna er fram sett. Engu að síður er málið knúið áfram eins og um væri að ræða stjórnarfrv. sem líf eða dauði ríkisstj, ylti á. Einhvers staðar er þarna þverstæðu að finna úr því að mál, sem sá ráðh., sem um það fjallar og það er skyldast, er andstæður, er samt jafnvel látið hafa forgang umfram afdráttarlaus stjórnarfrv.

Máske er skýringar að leita í því fyrirbæri að tveir þingflokkar virðast hafa gert málið að flokksmáli, Sjálfstfl. og Alþfl. Vegna blaðaviðtala við 1. flm., hv. 9. þm. Reykv., fyrir nokkrum dögum hlýtur mönnum að koma til hugar hvort hér sé kannske að spretta fram vísir að hinni nýju nýsköpunarstjórn sem hann kveðst stefna eindregið að. Slíkt er auðvitað hulið í hugum manna enn þá, þangað til einhver merkileg viðtöl birtast kannske í síðdegisblöðunum, sem getur auðvitað orðið hvenær sem er. Það er ómögulegt að spá fyrir fram um hvað þau fá upp úr mönnum ef gripið er hæfilegt tækifæri til að hafa við þá viðtöl. En þarna er nú, þó svo væri, ekki kominn sá þríhyrningur sem þarf til að ekta nýsköpunarstjórn sé komin á laggirnar, tvíhyrningur er fjarstaða í sjálfu sér. Þarna er þá í hæsta lagi einhver grunnlína, en frá henni einni er ómögulegt að reikna nokkurn flöt, eins og þeir muna sem fengist hafa við flatarmálsfræði á skólaferli sínum.

En ég vil ítreka það að mér kemur kynlega fyrir sjónir sá mikli ákafi sem lagður er á afgreiðslu þessa máls. Það var tekið til 2. umr., að ég held, á milli kl. 10 og 11 á kvöldfundi í gærkvöld, og nú er yfir lýst að ætlunin sé að ljúka um það umr, a.m.k., þótt máske verði atkvgr, við 3. umr. frestað til næsta fundar, 18 stundum síðar. Það er máske hugmynd þeirra, sem hér ráða ferðinni, að best sé að koma þessu máli sem skjótast á þann áfangastað sem þeir óska vegna þess að einhverjar vomur kunni að koma á einhverja sem dregist hafa á að veita því fylgi ef þeir gera sér ljóst hver áhrif það muni hafa og hverjar afleiðingar verða.

Því var lýst nokkuð í umr. hér í gærkvöld að óhjákvæmileg afleiðing þess háttar, sem ætlunin er að taka upp með flutningi þessa frv., er sú að einstök stafsetningaratriði geta orðið og hljóta að verða átakaefni og afgreiðsluefni á Alþ. héðan í frá. Nú hefur sú stafsetning, sem ætlunin er að nema úr gildi með flutningi þessa frv., að nokkru leyti gilt í þrjá vetur og að sumu leyti í tvo. því hefur verið haldið hér fram í umr. að þær breyt., sem urðu undanfari hennar, hafi valdið glundroða í skólastarfi. En ég vil fullyrða að það er ekki rétt. Þvert á móti er það reynsla þeirra kennara sem ég veit um að framkvæmd þessarar breyt. í skólunum hafi verið auðveldari í meðförum heldur en þeir gerðu sér í hugarlund í upphafi. Því er það, eins og ég hef vikið að áður. að ekki er frá skólamönnum, ekki frá móðurmálskennurum kominn sá málatilbúnaður sem hér er á ferðinni. Þvert á móti urðu þeir manna fyrstir til að mótmæla því þegar tillöguflutningur kom fram á Alþ. um að breyta þeirri stafsetningu sem ákveðin var 1973 og 1974, að á það ráð yrði brugðið.

Upphaf þeirrar lotu, sem nú er hér til afgreiðslu á Alþ. í frv.-formi, var í rauninni undirskriftaskjal sem oft hefur verið vitnað í hér í umr. og 100 manns úr ýmsum starfsgreinum, en ég held upp til hópa af menntamannastétt, sendu hæstv. menntmrh. og var birt jafnframt í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Það er fjarri því að þarna séu skólamenn í fararbroddi. Hér má sjá framkvæmdastjóra og félagsmálafulltrúa samvinnufélaganna, fuglafræðing, hagsýslustjóra, seðlabankastjóra, og svo mætti lengi telja, áfengisvarnaráðunaut, svo tekin séu nokkur stöðuheiti af handahófi. En aðdraganda þessarar undirskriftasöfnunar hefur verið lýst á prenti í Morgunblaðinu fyrir tæpu ári. Þar skýrði Jón úr Vör skáld frá því að hann hefði um það vitneskju hvernig þessi undirskriftasöfnun er til komin. Hann skýrði svo frá að háskólakennari einn og forstöðumaður Örnefnastofnunar hefði beitt sér fyrir þessari undirskriftasöfnun, og svo vill til að sá maður er nátengdur 1. flm. frv. á þskj. 140.

Nú skal ég fyrstur manna viðurkenna hæfileika og dugnað þess sem í hlut á, Þórhalls Vilmundarsonar prófessors, sem hann hefur sýnt á ýmsum sviðum. En að sá málatilbúnaður, sem hann stendur að og fær hóp manna af ýmsum starfsgreinum til fylgis við með undirskriftasöfnun, sé allsendis óyggjandi í alla staði, á það get ég ekki með nokkru móti fallist. Forgöngumaður undirskriftasöfnunarinnar og frumkvöðull hennar, Þórhallur Vilmundarson prófessor, hefur komið víða við í íslenskum menntum og víða skilið eftir sig spor í þeim fræðum sem hann hefur lagt stund á. Þó mundu sporin vera enn greinilegri ef ekki hefði viljað svo til að hann hefur ráðist í verkefni sem enn er ólokið, en koma þó vonandi á sínum tíma.

Frægasta dæmi um það mun vera útgáfa 13. bindis Íslenskra fornrita sem prófessor Þórhallur tók að sér á sínum tíma og var langt kominn með fyrir hálfum öðrum áratug, ef ég man rétt. Ég komst fyrst á snoðir um þessa merku sögu þegar ég fékkst við bóksölu. Þá komu í bókaverslunina, þar sem ég starfaði, æ ofan í æ pakkar bóka frá forlagi Sigfúsar Eymundssonar sem voru í umbúðum sem vöktu athygli mína. Þetta voru áprentaðar arkir úr einu bindi íslenskra fornrita, bindi sem ekki var komið út, 13. bindinu. Þar var texti af Harðar sögu með skýringargreinum og texti af Flóamannasögu með skýringargreinum, og ljóst var af því hversu mjög þetta umbúðaefni var notað hjá bókaforlagi Sigfúsar Eymundssonar að þar voru miklar birgðir fyrir hendi af þessum úrvalspappír sem menn vita að notaður er í fornritaútgáfuna og slíkt mál var á prentað. Mér þótti að vonum forvitnilegt að vita hvernig á því stæði að bókaútgáfa í borginni notaði í umbúðir um vöru sína áprentaðar arkir úr bindi af Íslenskum fornritum sem alls ekki var komið fyrir almenningssjónir. Þarna var ekki um gallaðar arkir að ræða, heldur hafði prentun þeirra tekist með ágætum, en fóru samt til notkunar í umbúðapappír. Eftirgrennslanir mínar leiddu til þeirrar vitneskju að prófessor Þórhallur Vilmundarson hefði á sinum tíma verið kominn langt með útgáfu þessa bindis Íslenskra fornrita sem enn er ekki komið út, eins og menn vita, en í miðjum klíðum útgáfunnar hefði hann gert uppgötvun sem síðan hefur orðið vísir að nýrri, kunnri og yfirgripsmikilli kenningu í örnefnafræði. Við þessa uppgötvun í örnefnafræðinni, hvort sem það var nú í Flóamanna sögu eða Harðar sögu, hefði hann talið allt útgáfustarf sitt að bindinu ónýtt og sátrinu eða satsinum, eins og prentsmiðjumenn kalla, hefði verið tortímt, hætt við útgáfuna og þær áprentuðu arkir, sem þannig urðu útgáfuhæfar og ónýtar, notaði bókaútgáfa Sigfúsar Eymundssonar af nýtni í umbúðir utan um vöru sína. Og þegar ég stóð í þessum eftirgrennslunum, þá komst ég að raun um það að meðal bókasafnara í borginni eru lausar arkir af prentuðum hluta þessa óútkomna bindis Íslenskra fornrita mjög eftirsóttir safngripir.

En síðan er allkunna og þarf ekki að rekja hér í löngu máli hvern slóða uppgötvun prófessors Þórhalls í örnefnafræði hefur dregið. Hann hefur fengíð í hendur forstöðu Örnefnastofnunar, sjálfstæðrar stofnunar í tengslum við Þjóðminjasafn, rekur hana af miklum dugnaði og hefur í fjölsóttum fyrirlestrum í Háskóla Íslands kynnt niðurstöður sínar þar. Og þar eru niðurstöðurnar þær helstar, eins og öllum, sem á mál mitt heyra, ætti að vera kunnugt, að raunin sé sú, þegar skoðaðir hafa verið staðhættir og skoðaðar ljósmyndir af landslagi víðs vegar um land nærri þeim býlum sem að sögn Landnámu og annarra fornra heimilda bera nöfn landnámsmanna eða sögualdarmanna, þá komi í ljós við skoðun ljósmynda og athugun á landslagseinkennum að þessir landnámsmenn séu siður en svo geymdir í bæjarnöfnum eða öðrum örnefnum, þar sé um að ræða, ég held í flestum ef ekki öllum tilvikum, það sem prófessor Þórhallur nefnir náttúrunöfn; þ.e.a.s. örnefnin, sem menn hafa haldið dregin. af nöfnum landnámsmanna og annarra fornmanna, séu dregin af hólum, steinum, hæðum eða öðru sem á ber í útsýni frá því bæjarstæði sem um er fjallað hverju sinni.

Því hef ég rakið þessa sögu í nokkrum orðum að hún er í mínum huga dæmi um það hversu menn geta orðið í fræðilegum áhuga, fræðilegum áhuga sem í sjálfu sér er lofsverður, einsýnni og ákafari en góðu hófi gegnir. Og hliðstæða þess ákafa og þeirrar einsýni, sem þarna hefur komið í liðs á fræðasviðinu hjá prófessor Þórhalli, er málafylgja sú sem að hans frumkvæði var vakin með undirskriftasöfnuninni sem hann beitti sér fyrir og varð til að hrinda af stað þeirri hryðju í setubardaganum sem nú er háð hér í hv. deild.

Ég ætla ekki að rekja frekar en ég áðan gerði að það er síður en svo að skólamenn eða málvísindamenn, þeir sem sérstaka aðstöðu hafa til að segja álit sitt á stafsetningu og stafsetningarbreytingum, setji svip sinn á þennan undirskriftalista, þó vissulega megi finna í þeim hópi menn úr þessum starfsgreinum og fræðigreinum. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni.) Hæstv. forseti. Ég býst við að eiga a.m.k. jafnmikið eftir og ég hef lokið. (Forseti: Þá vil ég biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni. Það hefur verið boðaður fundur í Sþ. kl. hálfsex og hv. þm. verður þá gefinn kostur á að halda áfram ræðu sinni á næsta fundi deildarinnar.) Ég tek því góða boði, hæstv. forseti. — [Frh.]