11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4034 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Þeir, sem hafa ekki aðrar spurnir af stöðugleika íslensks efnahagslífs en samanburð á fjárframlögum til nýrra þjóðvega árið 1976 í núgildandi vegáætlun, sem samþ. var í fyrravor, annars vegar og hins vegar till. um fjárveitingar til sömu framkvæmda í þeirri endurskoðuðu áætlun fyrir 1976 sem verið er að leggja fram nú, mundu án efa álita að hér ríkti fyrirmyndarstöðugleiki í efnahagslífinu. Fjárhæðirnar, sem ætlaðar eru til einstakra verkþátta í ár í þeirri endurskoðuðu framkvæmdaáætlun sem hér er lögð fram, eru svo algjörlega óbreyttar frá núgildandi áætlun að væri ályktað út frá þeim samanburði, þá skyldu menn ætla að við byggjum við fullkomlega stöðugt verðlag. Út frá þeim samanburði gætu menn haldið að þeirri ríkisstj., sem farið hefur með stjórn efnahagsmála undanfarin 2 ár, hafi tekist firnavel að framkvæma aðalfyrirheit sitt um að halda verðbólgunni sem allra mest í skefjum.

Framlag til hraðbrauta á árinu 1976 er áætlað 1081 millj. kr. eða algjörlega óbreytt frá áætlun sem samþ. var í fyrra fyrir það ár. Framlag til þjóðbrauta á árinu 1976 var ákveðið 352.6 millj. kr. í fyrra, en er nú við endurskoðun áætlað 363 millj. kr. Framlag til landsbrauta í ár var í fyrravor ákveðið 263.4 millj. kr., en nú við endurskoðunina 263 millj., þar munar 400 þús. kr. Framlag til girðinga og uppgræðslu er óbreytt 40 millj. kr. Framlag til Austurlandsáætlunar er óbreytt 177 millj. kr. Framlag til Norðurlandsáætlunar er óbreytt 75 millj. kr. Og framlag til Djúpvegar er áætlað óbreytt 25 millj. kr. Í heild hækka framlög til nýrra þjóðvega á árinu 1976 frá því, sem áætlað var í fyrra, úr 2114 millj. kr. í 2124 millj. Fjárveitingin í heild hækkar því um 10 millj. eða um 0.47%.

Þegar hins vegar er haft í huga að vísitala vegagerðar mun verða um 34% hærri nú í sumar, þegar allar kostnaðarhækkanir eru komnar fram en hún var í fyrra, þá er ljóst að raungildi fjárveitinga, sem óbreyttar eru að krónutölu, er um 1/4 eða um 25% minni en í fyrra. Framkvæmdir við gerð nýrra þjóðvega verða því í sumar um 25% minni en í fyrra og höfðu þær þá einnig lækkað um 25% frá því árinu áður, frá árinu 1974, Það þýðir að samkvæmt þeirri till. til þál. um vegáætlun, sem hér er verið að leggja fram, verða framkvæmdir við nýja þjóðvegi: hraðbrautir, þjóðbrautir, landsbrautir og samkvæmt sérstökum áætlunum, að raungildi einungis 56.3% af framlögum í vegáætlun fyrir árið 1374. En þegar sú áætlun var lögð fram áttu Sjálfstfl: menn á hv. Alþ. naumast nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á því, hve lítið fé væri ætlað til nýrra framkvæmda á því ári, og tóku skýrt fram að leiðin til úrbóta í þessu efni væri sú ein að fá Sjálfstfl.forustuna. Hann hefur haft ríkisstjórnarforustu við gerð og endurskoðun vegáætlunar s.l. 2 ár. Í bæði skiptin, í hvort skipti fyrir sig, hefur raungildi framkvæmda verið skorið niður um 25%. Raungildi fjárveitinga hefur lækkað nærri um helming á þeim tveim árum sem Sjálfstfl. og Framsfl. hafa ráðið málum.

Efndirnar á fyrirheitunum um auknar framkvæmdir í vegamálum eru að sjálfsögðu í órofa tengslum við og eru hvorki verri né betri en efndirnar á höfuðvandamáli, höfuðstefnumáli stjórnarflokkanna, að halda verðlaginu í skefjum og tryggja trausta stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Nei, því miður, hægri stjórnin með sinn mikla meiri hl. á Alþ. hefur hvorki getað tryggt stöðugra verðlag né aukið raungildi fjárframlaga til vegamála eins og ræðumenn Sjálfstfl. hétu við afgreiðslu vegáætlunar 1974, þvert á móti. Á sama tíma og dregur úr verðbólgu erlendis og verðlag innfluttrar vöru hækkar ekki meir en 6–7% á þessu ári geisar linnulaus óðaverðbólga á Íslandi. Afleiðingarnar eru m.a. þær að nú við endurskoðun vegáætlunar fyrir árið 1976 eru framkvæmdir ársins skornar niður að raungildi um 25% frá því sem í fyrra var áætlað um framkvæmdir á þessu ári. Ef metið er raungildi fjárveitinga í þessu sambandi ber sérstaklega að hafa í huga að hér eru innifaldar framkvæmdir vegna hinnar sérstöku fjáröflunar sem fólst í setningu laga um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg, að upphæð 2000 millj. kr. á 4 árum. Gert er ráð fyrir því, að af þessari fjáröflun komi 500 millj. kr. til nota við framkvæmdir á árinn 1976, og án efa hafa flm. frv. og aðrir hv. alþm. reiknað með því að þessi upphæð mundi koma til viðbótar við almennar framkvæmdir, eins og þær voru áætlaðar í núgildandi vegáætlun, og vera nýtt og stórt átak í vegamálum. En niðurstaðan er hins vegar sú, að við framkvæmdir ársins 1976 og framkvæmdir næstu ára fellur þessi fjáröflun inn í almenna lánsfjáröflun til venjulegra framkvæmda, en bætist ekki við, og þrátt fyrir 500 millj. kr. fjáröflun á grundvelli þessara sérstöku laga rýrna heildarframkvæmdir við nýbyggingu þjóðvega á þessu ári um 25%, í stað þess að þessi lagasetning ætti að tryggja viðbótarframkvæmdir.

Það verður sannarlega ekki auðvelt verk að skipta heildarfjármagninu á einstakar framkvæmdir ef fyrst á að taka af upphæðinni, sem hefur verið lækkuð um 25% að raungildi, 500 millj. kr. sérstaklega til Norður- og Austurvegar og síðan að skipta afganginum með venjulegum hætti. Það mundi þýða 43% niðurskurð annarra framkvæmda á þessu ári. Ef raungildi fjárveitinga til nýrra þjóðvega ætti að vera hið sama og á núgildandi vegáætlun fyrir árið 1976 auk sérstakrar fjáröflunar til Norðurlandsvegar og Austurlandsvegar, þá þyrfti fjárveitingin til þessara framkvæmda að vera ríflega 700 millj. kr. hærri en nú er ákveðið í endurskoðaðri vegáætlun sem hér er verið að ræða, og þar til viðbótar hefðu ýmsir búist við því að kæmu þessar 500 milli. vegna happdrættisláns til byggingar Norðurvegar og Austurvegar. Ef raungildið ætti að vera hið sama og var áætlað í þeirri vegáætlun fyrir árið 1974, sem Sjálfstfl. fordæmdi sem mest, þyrfti upphæðin nú að vera milli 1300 og 1400 millj. kr. bærri en nú er gert ráð fyrir í ár, þ.e. upphæðin í ár þyrfti að vera milli 60 og 65% hærri en nú er ráðgert. Síðan vantar þá fé til sérstakra framkvæmda við Norðurlandsveg og Austurlandsveg.

Fjárveitingunni til framkvæmda við nýja þjóðvegi í ár, þeirri fjárveitingu sem hefur verið rýrð um 1/4 að raungildi, er þó haldið í óbreyttri krónutölu frá áætluninni í fyrra með því að auka heildarlántökur. Þær eru haldreipi og úrræði hæstv. ríkisstj, á öllum sviðum, en duga þó ekki til. Lántökurnar eru nú við endurskoðun vegáætlunar hækkaðar frá áætlun í fyrra úr 1050 millj. kr. í 1600 millj. kr. vegna framkvæmda í ár eða um ríflega hálfan milljarð kr. Lántökurnar hafa verið auknar um 52% fyrir árið 1976 og þær jafngilda 75% af áætluðu framlagi til allra nýrra þjóðvega, þ.e.a.s. 75% af framkvæmdum við allar hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir og framkvæmdir við Norðurlandsáætlun, Austurlandsáætlun og Djúpveg, og þó rýrna heildarframkvæmdir um fjórðung. Jafnframt er meginhlutanum af greiðsluhalla í árslok 1975 velt yfir á næstu ár. Hluti af hinum stórauknu lántökum eru skammtímalán sem gert er ráð fyrir að verði að greiða á næstu 1–2 árum og koma þá til rýrnunar framkvæmda þegar á árunum 1977 og 1978.

Ég held að ástæðulaust sé að fjalla um síðari ár vegáætlunarinnar, Í þeirri óðaverðbólgu, sem ríkir, hafa slíkar áætlanir takmarkað gildi, en vonandi verður runnin upp betri tíð þegar að framkvæmd þeirra ára kemur, bæði að því er varðar ytri aðstæður og stjórnarstefnu í landinu.

Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem fær vegáætlunina til umfjöllunar, tel ég ekki ástæðu til að ræða ítarlega um hana hér og nú, en tel rétt að hv. þm, og þjóðin öll geri sér sem ljósasta grein fyrir því hvert stefnir í vegamálum og hvað í áætluninni felst, einkum varðandi þann tíma sem næstur er, árið í ár, en þær till. ætti að vera raunhæfast að búast við að séu fullgildar till. sem lítt eða ekki verði hnikað.

Eins og ég hef þegar rakið felst í þeirri till. til þál. um vegáætlun, sem hér er til umr., varðandi framkvæmdir í ár niðurskurður nýframkvæmda í vegagerð um 25% frá því sem áætlað var í fyrra um þessar sömu framkvæmdir, þrátt fyrir nýja lagaheimild um 500 millj. kr. fjáröflun á árinu til Norðurlandsvegar og Austurlandsvegar. Sá niðurskurður kemur til viðbótar álíka niðurskurði sem varð á framkvæmdum ársins 1975, og jafnframt er gert ráð fyrir vaxandi skuldasöfnun í hlutfalli við nýjar framkvæmdir. Það virðist einungis tímaspursmál og reikningsdæmi hve mörg ár það taki hægri ríkisstjórnina með þessu áframhaldi, ef henni auðnaðist aldur, að koma nýframkvæmdum í vegamálum niður í svo sem ekki neitt með skerðingu raungildis fjárveitinga um 25% á ári.

Um aðrar framkvæmdir, t.d. viðhald þjóðvega, er svipaða sögu að segja. Mjög skortir á nauðsynlega endurnýjun slitlaga á vegum, einkum malarslitlaga. Í grg. með vegáætlun segir um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: „Árlega þarf því að malbera 1366 km. Á síðasta ári voru malbornir 660 km á þjóðvegum landsins eða tæplega helmingur af því sem nauðsynlegt þykir.“ Og um viðhald brúa segir í grg.: „Á síðasta ári var varið til viðhalds brúa 50.4 millj. kr. Ekki hefur verið gerð nein úttekt á því hve mikið fjármaga þyrfti til viðhalds brúa, en ljóst er að vegna fjárskorts á undanförnum árum hefur viðhald brúa verið stórlega vanrækt og þyrfti því þessi fjárveiting að hækka verulega“.

Fjárveiting til viðhalds brúa var í fyrra 50.4 millj. og hækkar ekki verulega, heldur einungis um 7.6 millj. eða um 11% þegar verðlagshækkanir eru 30–40%, þannig að raungildi fjárveitinga mun lækka mjög verulega samkvæmt þeim till. sem hér eru gerðar.

Framlög til viðhalds þjóðvega á árinu 1976 hækka nokkuð að krónutölu frá núgildandi vegáætlun fyrir sama ár, en samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja, er gert ráð fyrir því, að þegar verðlagshækkanir, sem eru á næstu grösum, hafa komið fram hafi framkvæmdakostnaður við viðhald þjóðvega hækkað um 72%. Þetta var ekki mismæli, hækkunin er talin verða um 72% frá því í fyrrasumar. Framlag til viðhalds þjóðvega lækkar því að raungildi á árinu 1976 frá því, sem samþ. var í fyrra fyrir það sama ár, um nálega 25% þrátt fyrir þá krónutöluhækkun sem ýmsir hafa talið eina ljósa punktinn í þeirri endurskoðuðu vegáætlun sem hér liggur fyrir. Framkvæmdir við viðhald þjóðvega munu því rýrna verulega frá því sem áætlað var í fyrra og tæpar 500 millj. kr. vantar á til þess að raungildi viðhaldsfjár haldist, og jafnframt því dragast heildarframkvæmdir við nýja þjóðvegi saman um fjórðung, eins og ég hef áður rakið.

Það verður vissulega erfitt verk fyrir þm. að gera till. um skiptingu síminnkaðs framkvæmdafjár þegar þarfirnar kalla alls staðar að. Ég mun ekki fjalla hér um einstakar framkvæmdir, en get þó ekki látið hjá líða að harma það að þegar framkvæmdir við fjölfarnasta veg landsins, Hafnarfjarðarveg, gætu fjármagnsins vegna, miðað við núgildandi vegáætlun, loks komist suður fyrir Arnarneshæð, — en þessar framkvæmdir eru nú langt á eftir fyrri áætlunum, m.a. var framkvæmd við Hafnarfjarðarveg frestað á síðasta ári um sem svarar 28 millj. kr. — þá skuli vera útlit fyrir að framkvæmdir sunnan Arnarneshæðar geti strandað á því að skipulagsyfirvöld ríkisins og bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa ekki komist að niðurstöðu um legu vegarins. Ég tel slíka stöðu þessa máls algjörlega óviðunandi og hef boríð fram ósk um að fulltrúar þessara aðila komi á fund þm. kjördæmisins og vegamálastjórnar til þess að ræða þetta mál, en skipulagsatriði mega með engu móti koma í veg fyrir að endurbótum á þessum vegi verði haldið áfram eftir því sem fjármagn ýtrast leyfir.

Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem sæti eigum í fjvn., töldum í fyrra að of skammur tími hefði gefist til afgreiðslu vegáætlunar, en hún var þá lögð fram í byrjun apríl, þótt hún væri einungis rædd í n. síðustu vikuna áður en hún var afgreidd á Alþ. hinn 16. maí. En lengi getur vont versnað, ekki aðeins að því er varðar fjárveitingarnar sjálfar sem árlega eru skornar niður, heldur er vegáætlun nú ekki lögð fram fyrr en 7. maí, miklu seinna en áður hefur verið. Þessi vinnubrögð eru algjörlega ótæk og ámælisverð. En í þetta horf virðist sækja á öllum sviðum um vinnubrögð hæstv. ríkisstj., a.m.k. að því er varðar þau mál sem fjvn. á að fjalla um. Má í því sambandi minna á að n. voru einungis ætlaðir tveir starfsdagar fyrir jól til þess að afgreiða fjárlagafrv. milli 2. og 3. umr. Það ætti öllum að vera ljóst að slík vinnubrögð sem hæstv. ríkisstj. viðhefur eru öllum til tjóns, stjórnarsinnum sem stjórnarandstæðingum, og hv. Alþ. til vansæmdar. Þess vegna vænti ég þess að þeir, sem málum ráða, taki sig á í þessum efnum.