11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3341)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á —- ég vil segja mjög alvarlegum mistökum sem orðið hafa við samningu þeirrar till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1976–79 sem hér liggur fyrir til umr.

Ég vil vekja athygli á því að 16. maí 1975 voru hér á hinu háa Alþ. samþ. lög um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg, og 1. gr. þessara laga hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ríkissjóður gefur út happdrættisskuldabréf að upphæð allt að 2000 millj. kr. til sölu innanlands á næstu 4 árum.“

Ég endurtek: „Ríkissjóður gefur út.“ Það er skylda ríkissjóðs að gefa út þessar 2000 millj. á 4 næstu árum frá þeim tíma þegar lögin voru samþ.

Og 7. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjármunir þeir, er inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skulu renna til Vegasjóðs og skal þeim varið að 2/3 hlutum til að greiða kostnað við gerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur og að 1/3 hluta til að greiða kostnað við gerð Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða um Suðurland.“

Það er sem sagt lögbundið að gefa út þessa upphæð fjár og að verja fénu í þessum sérstaka tilgangi sem um er rætt í þeirri grein sem ég nú síðast las upp.

Í till. til þál. sem nú er til umr., grein 2 undir líð 3, sem heitir: Til nýrra þjóðvega — stendur: 1. Hraðbrautir, og síðan koma upphæðirnar. 2. Þjóðbrautir. 3. Landsbrautir. 4. Girðingar og uppgræðsla. 5. Sérstakar áætlanir. Og undirliðir: 1. Austurlandsáætlun. 2. Norðurlandsáætlun. 3. Djúpvegur, og síðan upphæðirnar þar aftur frá.

Nú er að vísu sú upphæð, sem til Djúpvegar er varið, að þessu sinni úr ríkissjóði, að mér skilst með sérstakri ákvörðun. En þegar happdrættislánin voru boðin út vegna Djúpvegar, þá var sú upphæð talin þarna sérstaklega undir „sérstökum áætlunum“. Svo hlýtur einnig að eiga að gera um þá framkvæmd sem skylt er að gerð verði eftir lögum um Norðurveg og Austurveg. Það má e.t.v. segja að orðalagið „á næstu 4 árum“ segi ekki að það sé skylt að skipta þessu á 4 ár, að það eigi að vera 500 millj. kr. á hverju einstöku ári. Um það má kannske deila. Það má líka eða hefði mátt deila um það á síðasta ári hvort þá hefði ekki átt að bjóða út lánfé og byrja þessar framkvæmdir. Að vísu var þá komið fram undir mitt ár þegar lögin voru samþ., og ég gerði það ekki að ágreiningsefni og hef engan ásakað fyrir það að á s.l. ári skyldi ekki hafíð útboðið. En þegar ár er liðið frá því að lögin voru samþ. þá er skylt að bjóða út að mínu mati ekki minna en 500 millj. kr. í þessum tilgangi. Þó skal ég endurtaka það sem ég sagði áðan: Um það má deila og um það kynni ég að vera til viðræðu að eitthvað minna væri boðið út í þessum tilgangi nú, ef vissa væri fyrir því að það fengist þá bætt upp á næsta ári, eða þá að hin leiðin yrði farin, að þessar 500 millj. allar yrðu út boðnar, en einhver lítill hluti þeirrar fjárhæðar yrði lánaður til þess að mæta vanda annarra, því að vissulega er hann mikill alls staðar.

Meginatriði málsins er það að þetta er lögbundið og fram hjá því verður ekki sneitt. Þess vegna verður að flytja brtt. eða breyta þessu ákvæði í greininni sem ég las upp áðan. Ég mun þó ekki flytja brtt. nú, því ég er þess fullviss að samgrh. mun sjálfur að athuguðu máli gera það, því það er lagaskylda að haga málum þannig.

Nú kynnu einhverjir að segja að meira fé en 500 millj. fari til framkvæmda á þessum vegum sem ég nefndi. Og það er sjálfsagt rétt. En það var öllum ljóst, bæði flm., ráðh., þeim sem andstæðir voru frv. eða kannske fylgdu því þótt þeir bentu á annmarka í sínum eigin kjördæmum og annars staðar, þá var öllum ljóst að hér var um að ræða viðbótarfjármagn við hinar almennu fjárveitingar, en alls ekki að þau kjördæmi, sem þessi vegur liggur um, ættu að missa af almennum fjárframlögum vegna hans. Það vissu allir menn, það var út frá því gengið strax í grg., í framsöguræðu minni, ræðu hæstv. samgrh. og ræðum allra þeirra sem að því viku. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að þetta verði leiðrétt og um það hlýtur að verða gerð krafa, bæði af mér og mjög mörgum öðrum. Eina leiðin til að gera þetta ekki, væri sú að breyta lögunum sem samþ. voru í fyrra, og ég ei hræddur um að það sé enginn meiri hl. fyrir því á hv. Alþ.

Ég skal ekki blanda mér í deilurnar um skiptingu milli hraðbrauta og annarra vega. Það er vissulega mikið álitamál og kemur illa við sum kjördæmi, eins og hv. 2. þm. Austf. vék að hér, að verja svo miklu fé til hraðbrauta. En á hitt vil ég benda, að það er algjör misskilningur að hraðbrautir séu eingöngu þeir vegir sem verið er að leggja á bundið slitlag. Ég held að það mætti verja ekki bara milljörðum, heldur milljarðatugum til að byggja upp hraðbrautir sem eru mjög slæmar, en þessir vegir teljast hraðbrautir vegna hins mikla umferðamagns sem á þeim er. Þess vegna má sannarlega nýta alla þessa upphæð og miklu, miklu meira en það til þess að byggja upp vegi án þess að hverfa að því að leggja þá bundnu slitlagi. Hins vegar hef ég verið þeirrar skoðunar að þegar fjármagn er til þess að hefja framkvæmdir við vegi út frá Reykjavík, það þurfi líka að byrja frá Akureyri og um fjölfarin þorp og kaupstaði. Ég tel rangt að aldrei sé heimilt að hefja slíka framkvæmd á fullnaðarvegi frá neinum punkti á landinu nema Reykjavík. Og ég held að menn ættu að geta verið mér sammála um þetta, því að vissulega er fjölfarnari vegur t.d. út frá Akureyri, um Blönduós og viðar heldur en t.d. hér uppi í Hvalfirði. En það er ekki meginmálið. Ég held að menn séu sammála um að það geti ekki verið neinir peningar, að neinu ráði a.m.k., á þessu ári til að leggja bundið slitlag. En það er áreiðanlega hægt að nota hraðbrautaféð.

Mér er fullljóst að það er mikill fjárhagsvandi sem við eigum við að glíma, og ég er einn þeirra sem hefðu gjarnan viljað skera niður framkvæmdir, síst þó kannske vegaframkvæmdir, og reyna að spara á ríkisútgjöldum eins og frekast er kostur á mörgum sviðum. Menn mundu þá kannske segja að það kæmi úr hörðustu átt að ég væri nú að krefjast þess að þessi lög yrðu framkvæmd. En lög eru nú einu sinni lög og þau verður að framkvæma nema þeim sé þá breytt. Og að því er fjárhagsvandann varðar, þá gat ég þess að jafnvel þótt ekkert fé hefði verið veitt samkvæmt þessum lögum á síðasta ári, þá væri ég til umr. um annaðhvort að eitthvað minna yrði boðið út í þennan veg, en nú er einmitt verið að bjóða þetta fé út, og þar sem það er boðið út, þá er óheimilt að verja einni krónu til nokkurs annars en samkvæmt þessum lögum, að því er ég tel, það er algjörlega óheimilt. En ég er sem sagt til viðræðu um annaðhvort að lána eitthvað af því fé til Vegasjóðs, ef Alþ. ályktar það, eða hitt, að eitthvað minna verði boðið út á þessu ári, en undir engum kringumstæðum að það verði þá nema tiltölulega lítill hluti upphæðarinnar og undir öllum kringumstæðum að þáltill. verði breytt og felldur inn í hana sérstakur líður í þessum tilgangi, því enginn getur breytt lögum með þál.