11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (3344)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara langt út í umr. um þau atriði sem hér hafa komið fram, en vil þó aðeins gefa skýringu á þeim og lýsa að mörgu leyti ánægju minni yfir þessum umr., þrátt fyrir það þó að á mig hafi verið deilt sem er nú venja hér á hv. Alþ. Það orkar oft tvímælis fyrir ráðh. hvort það er betra fyrir hann að fá lof eða last frá andstæðingum sínum. En þetta hvort tveggja fékk ég nú hjá sumum þeirra, og a.m.k. ætluðu þeir mig betri mann heldur en kæmi fram í vegáætluninni. Hvort það reynist nú skal ég ekkert um segja. Ég hef einhvern tíma orðað það svo sjálfur, að það væri allt í lagi að vera illinenni ef maður væri ekki aumingi líka.

En ég ætla að byrja á því að ræða aðeins við minn gamla samstarfsfélaga, hv. 2. þm. Austurl. Það má vel vera að það muni reynast erfitt fyrir þm. Framsfl. á Austurlandi að tala fyrir þessum málum þar nú. En það gæti nú líka verið að það hafi verið erfitt fyrir þm. Framsfl. á Vesturlandi að tala fyrir sínum kjósendum þegar í Austurland voru settar yfir 200 millj. af vegáætlun sem þá var innan við 2000 millj. í heild, umfram það sem lagt var til skipta í kjördæmi, en það var eftir hlutfallinu. En þá var verið að vinna að stórum verkefnum og eðlilegt að færi mikið fé í verk eins og Skeiðarársand. Það var óhugsandi að leysa bað verk nema þm. sæju yfir málið í heild og vildu leggja það á sig. Það gerðum við alveg hiklaust, og ég segi fyrir mig að ef ég hef tapað atkv. út á það, þá sé ég ekkert eftir þeim, því þá hefði ég gjarnan viljað að þeir kjósendur hefðu haft meiri viðsýni en að raun bæri vitni um. En ég hef ekki nokkra trú á að hafa tapað nokkru atkv. út á það.

Sama gerðist á sínum tíma, en það er nokkuð langt síðan, það var haustið 1960, þá var gert verulega stórt átak í vegagerð á Vesturlandi. Það var þegar vegurinn um Ólafsvíkurenni og Búlandshöfða og brúin yfir Hraunsfjörð voru gerð. Þetta voru stór átök á þeim tíma sem þá voru gerð í vegamálum á Vesturlandi, og hefur ekki verið gert neitt stórátak þar síðan þangað til núna. Þetta stafar einfaldlega af því að það er nú svo með okkur þm., þó að allir vilji illa um okkur tala, þá erum við nú skástu menn þegar á er litið og unum hver öðrum að vinna og leysa þau verkefni sem best eru og nauðsyn ber að leysa í það og það skiptið.

Ég held t.d. að við munum allir hafa staðið að því á sínum tíma að láta byggja Keflavíkurveginn, bara af þeirri einföldu ástæðu að því eru takmörk sett hvað hægt er að keyra á malarvegum þegar umferðin er orðin geysilega mikil, og þá verður að breyta því yfir í varanlegt slitlag.

Ég er alveg viss um, að bæði ég og hv. 2. þm. Austurl. höfum staðið að þessu og sjáum ekki eftir því og segjum bara: guði sé lof að það var gert. Og svo gerðum við meira, því að við tókum þátt í ríkisstj. þegar því var breytt og ríkissjóður látinn greiða af lánunum sem vora tekin til vegagerðarinnar, en áður hafði Vegasjóður gert það. Og það ber náttúrlega að hafa í huga, þegar menn eru að meta, bæði þm. og aðrir, hvað ríkissjóður hefur upp úr umferðinni, þá ber að meta það að ríkissjóður greiðir líka af lánunum sem hafa verið notuð til að byggja upp vegina.

Sama er að segja um Austurveginn. Ég sé sannarlega ekki eftir því að hafa staðið að þeirri framkvæmd. Það er myndarleg og góð framkvæmd og umferðin á þeim vegi var orðin svo geysilega mikil að það var orðið erfitt að halda honum sem malarvegi. Hann tók auðvitað fé frá okkur hinum í viðhaldinu vegna þess að viðhaldið var orðið svo gífurlegt. Sama var einnig að segja um veginn hér um Mosfellssveitina, upp í Kollafjörð, og raunverulega er það þannig á Kjalarnesi líka og þannig mætti lengi telja. Ég er ekki að deila á neinn fyrir þetta og allra síst svo kraftmikinn dugnaðarmann eins og hv. 2. þm. Austurl. Ég held að honum finnist það ekki nema eðlilegt þegar menn spyrna í þóftu til þess að koma áfram nauðsynlegum framkvæmdum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að hafnamálin hafa tekið til sín meira fjármagn en vegirnir hlutfallslega. En það stafar af hafnalögunum sem tóku gildi í ársbyrjun 1972, ef ég man rétt, og það hefur aldrei verið unnið meira í hafnagerð á Íslandi en á s.l. ári. En ég man það líka að þegar var verið að samþ. hér að koma á hafnargerðinni í Þorlákshöfn, þá voru ekki allir á eitt sáttir um hvernig ætti að gera það, heldur deildu menn um þetta eins og menn gera í pólitík. Þeir vita að þessi ver þennan kantinn og hinn er að slá upp veilunum á hinum kantinum. Og þetta er ekki nema það mannlega og eðlilega.

Það hefur glatt mig stórkostlega í þessum umr. að finna hvað hv. þm. eru samstæðir um það sem nauðsyn ber til að auka fé til vegagerðar í landinu. Þetta gleður mig ekki hvað síst þar sem fyrir nokkrum dögum, næstum því að segja, einni eða tveimur vikum, þegar ríkisstj. lagði fram frv. sitt um efnahagsaðgerðir, var eitt af því sem fulltrúar, eins og er kallað, bæði Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins deildu harðast á ríkisstj. fyrir, stóðu sameiginlega að, það var að auka fjármuni til vegagerðar. Ég ætla ekkert að fara að afsaka mig fyrir það hvað þessi áætlun er seint á ferð, en hún er tengd þeirri ákvörðun sem þá var tekin, því með efnahagslögunum var ákveðið að skyldusparnaðurinn, sem er um 300 millj., skyldi ganga til vegagerðar í landinu. Það var ekki fyrr en búið var að ákveða það að hægt var að stimpla þá tölu inn á vegáætlun. En þá kom bara þetta: Bjargráðin voru þau að draga úr vegaframkvæmdum í landinu. Og ég gleðst því yfir að heyra alla þá hv. þm., sem hér hafa talað, hvar í flokki sem þeir eru, heyra þá taka undir það að réttmætt sé að auka við fjárveitingu til vegagerðar, en ekki að draga úr vegaframkvæmdum.

Ég held því fram, og ég er alveg viss um að ég hef þar rök að mæla, að betri vegir í landinu er einn þáttur í gjaldeyrissparnaði okkar. Við þurfum minna viðhald á bílunum en að öðrum kosti, og við eyðum minna en við gerum núna, svo slæma vegi sem við búum við, og bensín og olía eru þau efni sem við flytjum mest inn af nú. Þess vegna er ég alveg sannfærður um að hér er um beinan gjaldeyrissparnað að ræða fyrir þjóðina ef við getum bætt vegina.

Það, sem ég vil svo segja í sambandi við þetta og ég gleðst yfir og er mér miklu meira virði heldur en hitt sem hefur verið sagt og menn hafa verið að atyrða mig fyrir því það eru smámunir, — það, sem ég vil segja, er að það er alveg nauðsynlegt, eins og ég kom að í dag, að endurskoða tekjuöflun til vegagerðarinnar.

Ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl. og þeim öðrum sem hér hafa talað, að brýna nauðsyn ber til þess arna. Ég mun reyna að verða til þess að það dragist ekki, Vinur minn, hv. 5. þm. Vestf., vildi nú losna við mig úr ráðherrastólnum. En rétt áður en ég fór úr fjármálaráðherrastólnum tryggði ég þeim vestfirðingum happdrættisfé í Djúpveginn, og hann reiknaði með að ég mundi gera eitthvað svipað áður en ég færi úr ráðherrastól næst. Það var bara þess háttar sem ég reiknaði með frá hans hendi. En það bíður þess tíma þegar þar að kemur, og ég held að það hafi enginn löngun til þess að vera eilífur augnakarl í ráðherrastóli.

En út af því, sem hefur verið talað um skiptingu hér á milli hraðbrauta og þjóðbrauta, þá er það í beinu sambandi við það, sem ég tel alveg rétt fram tekið, að vegalögin, eins og þau eru núna, og skiptingin þar er orðin úrelt. Þess vegna ber brýna nauðsyn til þess að vinna að því að setja ný vegalög þar sem við byggjum þetta upp með öðrum hætti en við gerum núna með skiptingu á milli hraðbrauta og þjóðbrauta, sem er ekkert annað en það að þjóðbrautirnar, sem við vorum að fást við áður, þær eru komnar í hraðbrautaflokk af sjálfu sér. Það hefur ekkert breyst nema að það eru orðnir svo margir bílar sem fara eftir þeim. Nú er t.d. þjóðbraut komin langt fram allan Norðurárdal, það er komið í hraðbrautaflokk, var áður í þjóðbrautaflokki og hefur ekkert breyst við þetta, nema viðhaldið er orðið enn þá verra og enn þá verra að fást við þetta. Hins vegar þegar kemur á Holtavörðuheiðina, þá dettur vegurinn niður í þjóðbrautaflokk. Svo þegar aftur er komið norður fyrir, þá kemur á ný hraðbrautaflokkur. Þetta er það sem mér finnst alveg ómögulegt. Mér finnst að þessi aðalhringur þurfi að vera einn og hinn sami og það sé ómögulegt að hugsa sér að taka þetta svona í hnútum, og það gerir það að verkum að það er erfitt að skipta þessu.

Ef við víkjum að Holtavörðuheiðinni, sem er mikil og merkileg, þá er ég alveg undrandi á því að ágætir hv. þm., sem hafa orðið að fara yfir Holtavörðuheiðina, skuli hafa gleymt henni eins og þeir hafa gert. Mér er nú næst að halda það að ég muni það rétt, að það, sem hafi þó verið gert af vegabótum á Holtavörðuheiði, hafi fyrst og fremst verið framlag þm. Vesturl. Það hafa fyrst og fremst verið þeir sem hafa beitt sér fyrir þessu, og ég er alveg viss um að mitt minni brestur þar ekki. Ég hef ekki orðið var við að þið, hv. þm. Norðurl., hafið t.d. lagt fé af Norðurlandsáætlun í Holtavörðuheiði. Ef ég fer þar með rangt mál, þá bið ég afsökunar, því ég veit ekki betur. Það hefur þá verið á þessu eða s.l. ári, en ég man nú ekki eftir því. Hitt er annað mál, að mér er fullkomlega ljóst að á Holtavörðuheiðinni er einn af þeim vegum sem verður að endurbyggja. Það verður ekki komist hjá því.

Og þá vil ég um leið segja í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur Konráð, vék að út af happdrættislánunum, að auðvitað ætlast enginn til þess að við förum að stinga þessu á okkur eða koma því ekki til skila. Ég sé hér t.d. í gamalli vegáætlun, og þannig er hugsunin að setja þetta upp þegar vegáætluninni verður skipt í fjvn., þar sé ég t.d. að það er til hraðbrauta ákveðin tala, svo kemur önnur tala í sama dálki: til hraðbrauta, lán frá Alþjóðabankanum. Ég hef hugsað mér að uppsetningin yrði þannig að það kæmi fram hvað væri af happdrættisfé í þessu og hinu almenna, og þannig held ég að við séum ekki í neinum vandræðum með það. Hitt er mér alveg ljóst, að við náum ekki eins miklu í vegagerðinni í landinu almennt núna eins og við vildum vera láta vegna þeirra efnahagserfiðleika sem við eigum í og reynum að halda aftur af okkur. Ég segi fyrir mig, ég hefði viljað fá að setja meira út af happdrættisskuldabréfum, en til þessa hefur ekki fengist samþykkt fyrir því. En m.a. tókst að fá skyldusparnaðinn niður í sambandi við efnahagsráðstafanirnar inn í vegamálin af því að ráðamenn og þeir, sem um fjölluðu, töldu að það væri þó betra að fara þá leið heldur en að bæta núna ofan á happdrættisútgáfu. Við vitum að það hafa verið gerð mikil hróp að því máli núna þessar síðustu vikur, og auðvitað vildum við gæta hófs í þeim efnum. En það er afskaplega fjarri mér að láta mér detta það í hug að þetta komi ekki til skila, og það er líka afar fjarri mér að láta mér detta það í hug að vegir eins og á Holtavörðuheiði verði ekki til meðferðar í sambandi við þessa vegáætlun. Og það er sama um suður- og austurhlutann, allt þetta tel ég að við verðum að taka inn í þetta dæmi að því leyti sem við getum nú. Og það er ekki af því að okkur skorti löngunina, heldur að við verðum að haga okkur eftir þeim kringumstæðum sem þjóð okkar býr nú við í efnahagsmálum, þó að ég telji hins vegar, eins og ég sagði áðan, að það sé bæði gjaldeyrissparnaður og á margan hátt hagur að því að gera samgöngur á landi betri.

Út af því, sem hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson sagði um okkar ágætu Borgarfjarðarbrú, sem er einn af þessum skemmtilegu hlutum í lífinu, meira að segja er hún svo kröftug að snjall teiknari, Sigmund, teiknaði mig í brú, og það hef ég aldrei getað gert á ævinni, hef nefnilega aldrei verið neinn íþróttamaður og get aldrei fengið mynd af mér sem þessa því það er ómögulegt að hafa hana í raunveruleikanum, en þetta er út af fyrir sig ekki nema gott, — en út af því, sem hv. 1. landsk. sagði, hann talaði um þessi mál með rólegheitum og vinsemd, þá vil ég segja það, að um Borgarfjarðarhérað og Vesturland, sunnanvert Snæfellsnes og raunverulega Vestur-Húnavatnssýslu, og meira en það, alla leið að Akureyri og Húsavík, þessa leið fara þungaflutningabílar og það er ómögulegt að takmarka þungann á þessari brú af þeirri ástæðu. T.d. Borgarfjarðarhérað og þetta vestursvæði, það hefur ekki neinar aðrar samgöngur, það hefur ekkert flug og það hefur engin skip, svo að þess vegna fara flutningarnir þarna fram, og þýðir ekki að reikna með því að það sé hægt að takmarka þá, því það er óframkvæmanlegt. Eins og ég sagði í dag, það sem ég óttast nú mest, af því að það verður að gæta hófsemi í þessu, er að það verði of lengi á leiðinni nema forsjónin verði okkur hliðholl.

Það er líka eitt sem kom fram í ræðu hv. 1. landsk. þm. sem mér finnst athyglisvert og megi mjög athuga. Og það er ekki langt síðan við ræddum þetta, við hæstv. fjmrh., að lækka leyfisgjaldið, en færa það aftur yfir á bensínið. Þetta er atriði sem kemur mjög til greina og ber að athuga. Og við vorum báðir sammála um að þetta ætti að gera. í ár getum við ekki gert þetta, þannig að það gæti ekki tekið gildi fyrr en við næstu áramót, vegna þess að ríkissjóður fær leyfisgjaldið í sinn vasa núna. Og svo er annað sem við þurfum að athuga, það eru áhrifin á blessaða vísitöluna sem hefur oft reynst okkur erfið. Ég er ekki alveg viss um hvort er óhagstæðara, leyfisgjaldið eða bensínið. Það er a.m.k. svo langt síðan ég hef látið skoða það að ég þori ekki að segja um það. En þetta er atriði sem ég tel að eigi að kanna.

Þá er það minn ágæti vinur, þessi sem vill láta mig fara úr ráðherrastól ef ég geri eitthvað fyrir hann í leiðinni, hv. 5. þm. Vestf. Hann var að tala um að við værum ekki miklir byggðastefnumenn og annað þess háttar og ekkert hefðum við gert í þá átt, allt hefði þetta verið öfugt. Var það nú alveg öfugt þegar við vorum að breyta þéttbýlisvegafénu úr 10% í 25%? Var það andstætt byggðastefnu? Hverjir njóta þess? Eru það ekki kauptún og kaupstaðir úti á landsbyggðinni? Þegar var verið að koma því í framkvæmd með lögum, þá var það álit þeirra, sem voru andstæðir því, að þetta væri óhagstætt þeim hér á þéttbýlasta kjarnanum. Þessu finnst mér hv. þm. hafa gleymt.

Ég minni einnig á sýslusjóðsvegina. Við höfum gert nokkurt átak í að breyta þessu þó að mér sé ljóst að betur má ef duga skal. Og raunverulega er það nú alltaf svo að sem betur fer tæmum við ekki allt. Og þegar við, sem nú erum á þingi, hættum, þá verður sjálfsagt nóg handa þeim sem á eftir koma, jafnvel þó þeir séu röskir. Þetta hefur þó gengið í þessa átt. Og þetta aftur með hraðbrautir og þjóðbrautir, það er engin breyting annað en það, að þjóðbrautirnar hafa bara komist í hraðbrautaflokkinn. Það, sem við aftur þurfum að gera, er að koma þessu inn sem heildarmáli, og ég vonast til að þeir ágætu menn, sem ég hef nú fengið til þess að sitja í n. og vinna að endurskoðun á vegalögum, þeir komi sér saman um heildarstefnu, verði ekki of miklir smámunamenn og reyni að elta uppi hvern einasta skika, heldur finni stóru línurnar í þessu, því að þeir verða líka að gera sér grein fyrir því að með þeim hætti er ekki verið að slá hinar smærri brautir út, heldur koma þær bara eftir öðrum leiðum og gera okkur málið auðveldara heldur en að öðrum kosti hefði orðið.

Nú skal ég, herra forseti, ekki orðlengja þetta frekar. Ég hef gert grein fyrir þessu máli eins og það sýnist frá mínum bæjardyrum séð, og mín gleði er mest yfir því að heyra almennan áhuga fyrir að auka fé til vegamála í landinu. Ég vona að okkur takist að finna sameiginlega leið til þess að gera þetta, og ég vona líka að okkur takist að endurskoða vegalögin til þess að bæði við, sem sitjum á þingi þetta kjörtímabil, og þeir, sem á eftir koma, geti notið þess að vinna að framkvæmd þessara mála við betri skilyrði heldur en nú er, vegna þess að lögin, sem við búum nú við, voru ágæt að okkar dómi, ég held við höfum allir fylgt þeim þegar þau voru sett. En þróunin hefur breytt þessu, og auðvitað eigum við ekki að vera þannig að við eigum að loka okkur inni í því sem við gerðum einhvern tíma, heldur eigum við bara að fylgjast með þróuninni og sjá hana fyrir og helst að reyna að leggja brautir sem standast þróunina og það sem fram undan er. Og það er ég líka viss um að við viljum allir gera.