11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

134. mál, endurvinnsluiðnaður

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Atvmn. fékk til athugunar till. hv. þm. Ingólfs Jónssonar um endurvinnsluiðnað á þskj. 294, 134. mál. Till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram ítarlega athugun á því hvort endurvinnsluiðnaður í ýmsum greinum gæti orðið arðvænlegur hér á landi, dregið úr gjaldeyriseyðslu og veitt mörgum örugga atvinnu.“

N. hefur athugað till. og kynnt sér umsagnir er borist höfðu frá Rannsóknaráði ríkisins, Félagi ísl. iðnrekenda, Iðnþróunarstofnun Íslands og Iðnþróunarsjóði. Mælir n. með samþykkt till. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Sverrir Hermannsson og Steingrímur Hermannsson. Undir þetta álit skrifa Páll Pétursson, Gils Guðmundsson, Karvel Pálmason, Jón G. Sólnes og Guðmundur H. Garðarsson.

Það er skemmst af því að segja, að umsagnir um till. voru allar mjög jákvæðar. Við stöndum í þeirri meiningu að þetta sé merkilegt mál sem beri að gefa fullan gaum og það hefur lítillega verið unnið að þessu máli. — Þessar athuganir kosta að vísu talsvert fé ef þær eiga að verða ítarlegar og róttækar, en við leggjum sem sagt til að þessi till. verði samþ.