11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4073 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

135. mál, fiskileit og tilraunaveiðar

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Atvmn. barst á þskj. 295 till. til þál. um fiskileit og tilraunaveiðar. Flm. var Tómas Árnason. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því að skipuleg leit verði gerð að kolmunna og spærlingi á þessu ári. Veiðiskip verði tekið á leigu í þessu skyni og hefji það jafnframt tilraunaveiðar. Enn fremur verði hert á leit og tilraunaveiðum á loðnu á síðari hluta sumars og næsta haust.“

Atvmn. athugaði till., kynnti sér umsagnir er borist höfðu frá Hafrannsóknastofnun og Fiskifélagi Íslands. N. leggur til að till. verði samþ. með breyt. sem hún flytur till. um á sérstöku þskj. Jón G. Sólnes tók ekki afstöðu til málsins. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Steingrímur Hermannsson og Sverrir Hermannsson. Undir þetta skrifa Páll Pétursson, Gils Guðmundsson, Karvel Pálmason og Guðmundur H. Garðarsson.

Brtt. við þessa grein er á þskj. 593 og er þannig: „Í stað orðanna „Veiðiskip verði tekið á leigu í þessu skyni og hefji það jafnframt tilraunaveiðar“ komi: Tryggt verði að tilraunaveiðar hefjist.“

Okkur fannst, fyrst þegar við fórum að skoða þetta mál, að ekki færi hjá því að þó að málið væri gott og sjálfsagt, þá mundi ekki skorta á það frumkvæði sem nauðsynlegt væri til að það næði fram að ganga efnislega hvernig sem færi um till. En því miður gerðist það að tækifæri til leitar að kolmunna eða tilraunaveiða á kolmunna með einu ágætu aflaskipi héðan frá Reykjavík var ekki sinnt og það fórst fyrir að sá veiðileiðangur væri gerður sem til stóð að gera. Við lítum svo á og það var rækilega undirstrikað við umr. um þessa till. fyrr í vetur, að þar sem fiskur er af skornum skammti í sjónum, þorskfiskar, þá ber að leggja höfuðáherslu á leit og veiðar á öðrum fisktegundum. Það má bæta því við að okkar fremsti loðnusérfræðingur, Hjálmar Vilhjálmsson, lét frá sér fara mjög ákveðnar ábendingar í blaðaviðtali nú fyrir örfáum dögum um nauðsyn þess að verja tíma og fjármunum til tilraunaveiða á loðnu í sumar norður í hafi, því að þar taldi hann að gæti verið um verulega mikla aflavon að ræða. En við leggjum sem sagt til að till. þessi verði samþ.