12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4074 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

145. mál, afréttamálefni

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. í hv. Nd. var gerð breyt. á frv. til l. um breyt. á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Þessi breyt. felur það einkum í sér að það eru teknar upp ákveðnar reglur um það að 1/3 hluti af rétti hvers lögbýlis, sem sérmetið var í fasteignamati árið 1932, skuli vera í hlutfalli við fjölda jarða, — 1/3 hluti af réttinum til afréttarlands skuli miðast við fjölda lögbýla eða lögbýli eins og þau voru 1932, en 2/3 hlutar skuli vera í hlutfalli við beitarþol heimalands jarðarinnar. Þetta er einkum gert vegna þess að það hefur komið í ljós sums staðar á landinu, þar sem athugað hefur verið um ítölu, að býli, sem um langan aldur hafa byggt afkomu sína á sauðfjárrækt og notkun afréttarlands, mundu, ef ítölulögum væri beitt án tillits til þessarar fornu hefðar ok búskaparvenju, hafa mjög litla eða nær enga möguleika á því að stunda sauðfjárrækt sem hliðargrein við annan búskap.

Ég held að það þurfi ekki að orðlengja um þetta. Það hefur áður verið gerð grein fyrir þessu frv. og gerð grein fyrir því að einn megintilgangur þess er að betur verði mögulegt að skipuleggja not beitilands til sauðfjárræktar heldur en verið hefur áður og koma í veg fyrir að land verði ofnýtt. Hitt er það, að heimalönd jarða eru mjög misstór og allmargar jarðir 9 landinu, sem lítil heimalönd hafa, hafa um mjög langan aldur notað sameiginleg beitilönd sveitarfélags eða upprekstrarfélags. Með þessari breyt. er komið til móts við sjónarmið þeirra sem telja, að um verulega röskun væri að ræða á þeirra búskaparháttum ef ákvæðinu um ítölu yrði beitt til hins ítrasta.