12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4075 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 669 er frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins eins og var gengið frá því í hv. Nd. Alþ. Þetta frv. er hluti af framleiðsluráðslögum, en frv. um heildarlöggjöf var á sínum tíma samið og var gert ráð fyrir að flytja þetta þá í einu lagi. Var sérstök n. fengin til þess að fjalla um málið í upphafi þegar frv. var samið og svo einnig þegar þeim kafla, sem er aðalatriðið í þessu frv., var bætt inn í frv.

Ég hafði hugsað mér að flytja ekki þennan þátt frv., sem hér er til meðferðar, fyrr en hægt væri að flytja frv. í heild, en af tvennum ástæðum hef ég breytt þar um. Í fyrsta lagi varð um það samkomulag við kjarasamninga í fyrra að lögin yrðu endurskoðuð og aðilar vinnumarkaðarins, eins og þeir eru nú nefndir, vinnuveitendur og ASÍ-menn, fengju aðild að þeirri endurskoðun, og hefur nú verið gengið frá skipun n., það er verið að senda þau bréf út. En ástæðan til þess, hvað það hefur dregist, er fyrst og fremst sú að tilnefning frá hálfu aðila gekk seint, og sérstaklega voru það vinnuveitendur sem voru þar seint á ferðinni. Og í öðru lagi er hin ástæðan sú, að á fundi stjórnar Mjólkursamsölunnar sem haldinn var 6. nóv. s.l., var samþ. svofelld ályktun, með leyfi hæstv. forseta: „Á fundi stjórnar Mjólkursamsölunnar í gær, 6. þ. m., var rætt um breyt. þá sem fyrirhugað var að gera á framleiðsluráðslögum og þá sérstaklega um mjólkursölumálið. Stjórnarnefndarmenn voru sammála um að það þurfi að leiða mjólkursölumálið til lykta sem allra fyrst, enda þótt aðrar breyt. á framleiðsluráðslögunum verði ekki gerðar samtímis.“

Að fenginni þessari samþykkt og með tilliti til þess að ég geri ráð fyrir því að það taki nokkurn tíma að skoða svo umfangsmikil lög sem framleiðsluráðslögin eru og e.t.v. geta verið þar nokkuð skiptar skoðanir um ýmis atriði, sem ég samt vona að takist að leysa með samkomulagi, þá sá ég ástæðu til að bera fram þetta frv.

Það eru tvö atriði í raun og veru sem eru meginuppistaða í þessu frv. Það er fyrst og fremst um breytingu á mjólkursölu bæði hér og annars staðar, en þar er stuðst við þá þróun sem orðið hefur á síðari árum, því að hvort tveggja er, að með kjörbúðunum hafa möguleikar til mjólkursölu breyst og með þeim breytingum, sem orðið hafa á umbúðum á mjólk, hefur verið hægt að selja mjólk í hinum almennu matvöruverslunum. Það mun og vera ósk þeirra aðila, neytendanna og húsmæðranna sérstaklega, sem fara í innkaupaferð, að geta keypt allar vörur á sama stað, eins og þær geta í hinum stóru verslunum, og einnig er nú hægt að gera mjólkurinnkaup með þeim hætti að kaupa fyrir fleiri en einn dag í einu, því að geymsluþol mjólkurinnar í hinum nýju umbúðum og svo breyting á heimilunum í sambandi við kæliskápa gerir það að verkum að auðvelt er að geyma mjólk einhvern tíma heima fyrir.

Þessar ástæður hafa legið til þess að breytingin hefur orðið sú, að þrátt fyrir það að Mjólkursamsalan hafi haft einkaleyfi til sölu mjólkur, þá er salan komin meira en 50% í hendur almennra verslana og hefur dregið úr sölu Mjólkursamsölunnar sjálfrar. Að hennar mati var ekki rétt að halda því kerfi áfram sem var upphaflega tekið upp 1934 og hefur reynst hið ágætasta. Er ekkert að undra þó að 40 árum liðnum sé ástæða til að breyta þar um, og að sjálfsögðu á að fara þar að því sem hagkvæmast er að formi til, eins og hér er stefnt að og samkomulag var um í þeirri n. sem vann að uppbyggingu þessa frv.

Annar þáttur í þessu frv., sem olli misskilningi í hv. Nd. Alþ., var að hægt er að jafna vegna mismunandi stofnkostnaðar milli afurðagreina, eins og á milli mjólkur- og kjötsölu. Þetta hefur að vísu alltaf verið gert, en í þessu frv. er það tekið fram. Það var hald manna að þetta stangaðist á við það ákvæði að ekki mætti leggja ofan á söluverðið á innlendum markaði. Þetta frv., sem hér er og var að vísu breytt í Nd., tekur af tvímæli um það, það hafði aldrei það inni að halda, vegna þess að í 12. gr. framleiðsluráðslaganna, eins og hún er í gildi og eins og hún verður í gildi þrátt fyrir þá breyt, sem hér er á ferðinni, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Óheimilt er að bæta upp söluverð landbúnaðarvara á erlendum markaði með því að hækka söluverð þeirra innanlands.“ Þessu ákvæði er ekki hreyft og stendur óhaggað. Ég bar það undir skrifstofustjóra Alþingis hvort það tæki ekki af öll tvímæli að þessum ákvæðum, sem voru í frv., var breytt í Nd. að því leyti að þar var sérstaklega tekið fram að ekki mætti nota þetta á þann veg að leggja það á útsöluverð á innlendum markaði til þess að bæta þarna upp. Hér var aðeins um það að ræða að framleiðendum væri heimilt að jafna sín á milli, en ekki að taka það gjald frá neytendum. Það var á misskilningi byggt, eins og þessi lagagr. ber með sér.

Út af þeim umr., sem þar komu einnig fram, hef ég kynnt mér það við meðferð frv. við endurskoðun frá upphafi hefur alltaf ríkt sá skilningur að hér væri aðeins um það að ræða að bændurnir, framleiðendur í þessu tilfelli, gætu fært sín á milli, en ekki lagt það á neytendur, ef skorti á að t.d. mjólkin gæfi betri útkomu en kjötið, þá mætti hreyfa þar í milli.

Svo er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að þrátt fyrir þá breyt. að Mjólkursamsalan hætti að vera einkaaðili sem smásali, þá verður hún það sem heildsali og má að sjálfsögðu reka búð sem smásali líka, en er enginn einkaaðili þar um. En Sexmannanefnd ákveður verð í heildsölu og einnig í smásölu þannig að hún ákveður dreifingarkostnaðinn eins og hún gerir nú. Enn fremur er gert ráð fyrir því að greiða verði sérstakt losunargjald, þannig að það sé ekki hægt að krefjast þess að fá smámagn án þess að fyrir það verði að greiða. Þá er ætlast til þess að hversu lítið magn sem fengið er, þá sé sama gjald tekið fyrir flutninginn, miðað við þær reglur sem þar gilda um. Þetta er að sjálfsögðu gert í öryggisskyni og til þess að halda við það sem verið hefur, að dreifingarkostnaður á mjólk verði sem minnstur.

Það var tvennt, sem kom fram í umr. í hv. Nd., sem var mjög ánægjulegt. Það var í fyrsta lagi að það yrði að viðurkenna að dreifingarkostnaði á mjólk hér á landi hefði verið mjög í hóf stillt og mundi vera minni hér en annars staðar gerðist. Ég vona að þrátt fyrir þessa breyt. takist að halda því, enda finnst mér að það eigi að vera þar sem sömu aðilar fjalla um verðlag á dreifingarkostnaði eftir sem áður.

Í öðru lagi komu þau vottorð frá heilbrigðisyfirvöldum hér í bæ að Mjólkursamsalan hefði staðið sig mjög vel í því að hafa búðir sinar í því lagi, að þær væru til fyrirmyndar, og lögðu heilbrigðisyfirvöldin á það áherslu að það yrði áfram og þessi breyting yrði því ekki gerð með of miklum hraða svo að þessu væri fullnægt. Þess vegna er ákvæði til bráðabirgða að þau ákvæði, sem þetta varðar, komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. febr. 1977.

Smærra atriði er það, að Stéttarsamband bænda, sem upphaflega var 5 manna stjórn og hefur átt sæti í Framleiðsluráði, en nú er orðin 7 manna stjórn, hún sitji öll í Framleiðsluráði. Það er talið óeðlilegt að það falli ekki saman við þá breytingu sem gerð var á stjórninni, að tveir menn séu hafðir þar útundan.

Um önnur atriði í sambandi við þetta frv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, enda gerði ég grein fyrir frv. í hv. Nd. þegar ég lagði það þar fram. Ég hef sem sagt vakið athygli á því, sem voru tekin af öll tvímæli um með Nd., að sú verðjöfnun, sem þarna er talað um, er gerð eingöngu innbyrðis hjá framleiðendum búvara, en gengur ekki út í verðlag í neyslunni. Höfuðbreytingin er hins vegar í sambandi við dreifingu og sölu á mjólkinni, og mér skildist á umr. þar um að flestir væru sammála um að þessa breytingu þyrfti að gera.

Ég legg svo til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn. Og ég treysti hv. n. til þess að vera dugleg við störf sín, eins og hún hefur verið við önnur þau verkefni sem ég hef fengið henni í hendur.