12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4079 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. N. fjallaði samhliða um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 46 24. maí 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og einnig um frv. til 1. um breyt. á lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og mun ég að mestu fjalla um þessi þrjú mál samhliða í minni framsögu ef ekkert er við það að athuga.

Á fund n. komu þeir Þorsteinn Geirsson fulltrúi í fjmrn. og Kristján Thorlacius formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og staðfestu þeir að þessi frv. væru í samræmi við samninga þá sem gerðir hefðu verið milli ríkisins annars vegar og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hins vegar.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur allt frá stofnun barist fyrir fullum samningsrétti fyrir kjörum sínum. Fram til 1962 bjuggu opinberir starfsmenn við svokölluð launalög, á Alþ. voru samþ. launalög þar sem kjör opinberra starfsmanna voru ákveðin. En það ár fékk BSRB samningsrétt, þ.e.a.s. BSRB fékk tillögurétt í kjaradeilum sem var á þá lund að ef BSRB væri ekki búið að semja við ríkisvaldið fyrir ákveðinn tíma, þá færi kjaradeilan sjálfkrafa fyrir Kjaradóm.

Reynslan af þessum Kjaradómi hefur að dómi BSRB verið æðimisjöfn, og þeir hafa talið að þessu bæri að breyta. Og ef maður rekur gang mála varðandi Kjaradóm þá er hann skipaður 5 dómendum og jafnmörgum varadómendum. Hæstiréttur skipar þrjá dómendur, fjmrh. skipar einn og heildarsamtök, sem viðurkenningu hafa hlotið, einn dómanda. Það hefur tvisvar sinnum komið fyrir, árin 1963 og 1971, eftir að opinberir starfsmenn fengu lagfæringar á launum sínum til samræmis við aðrar stéttir að á þessa samninga hefur verið bent m.a. af verkalýðshreyfingu sem aðalröksemd fyrir bættum kjörum þeirra aðila. Hins vegar hefur það einnig komið fyrir að BSRB hefur ekki fengið samsvarandi launahækkun og aðrir í þjóðfélaginu ef þeirra samningar hafa fylgt í kjölfarið. Dómurinn hefur þá skyldu að taka tillit til afkomuhorfa þjóðarbúsins og þær á dómurinn jafnan að hafa í huga. Og í dómsniðurstöðu 1972 sagði dómurinn eitthvað á þá leið, að samanburður við aðrar stéttir kynni að gefa tilefni til frekari launahækkana. En dómurinn gaf það jafnframt í skyn að synjunin gæti stöðvað launakapphlaupið milli launþegahópa, og þann rétt, sem fólst í því sem ég nefndi áður, að taka tillit til afkomuhorfa þjóðarbúsins hafði dómurinn í huga.

Starfsmenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafa ekki viljað una þessum dómi og verið á margan hátt óánægðir með þær niðurstöður sem stundum hafa komið frá honum.

Ef við lítum til nágrannalandanna í ljósi þess að opinberir starfsmenn vilja meiri rétt og annað form á þeim rétti er launafélagi í Svíþjóð heimilt að beita verkfalli í kjaradeilum, en er þó skylt að vinna störf sem tryggja að lífi fólks sé ekki stofnað í hættu og eins störf sem koma í veg fyrir að unnið sé tjón á eignum. Þess má geta að þrátt fyrir verkfallsrétt halda opinberir starfsmenn í Svíþjóð æviráðningu með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir í lögum nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í Finnlandi er samningsréttur svipaður og í Svíþjóð. Þó er heimilt að vísa deilu til kjaradeilunefndar ríkisins sé talið að baráttuaðgerðin kunni að valda alvarlegri truflun á mikilvægum starfsþáttum þjóðfélagsins. Með þessum hætti er hægt að fresta verkfalli starfshóps um hálfan mánuð.

Í Danmörku hafa opinberir starfsmenn ekki verkfallsrétt. Takist ekki samningar leggur ríkisstj. fram frv. um launalög. Verkföll hafa þó verið framkvæmd hjá ýmsum starfshópum opinberra starfsmanna.

Í Noregi er verkfallsréttur ekki í venjulegri mynd, en starfsmönnum er heimilt að segja upp störfum með tveggja mánaða uppsagnarfresti og er ekki heimilt að ráða aðra í þær stöður meðan á kjaradeilu stendur.

Þessi mál standa því misjafnlega á Norðurlöndunum, en BSRB og aðilar þess hafa einkum lítið til þess skipulags sem er viðhaft í Finnlandi.

Það er alveg ljóst að þótt opinberir starfsmenn hafi ekki haft verkfallsrétt hér á landi, þá hafa starfshópar knúið mjög á að undanförnu þótt verkfallsréttur hafi ekki verið fyrir hendi, og það er alveg ljóst að stöðugt fleiri hópar sætta sig ekki við það. Það má t.d. nefna verkfræðinga, lækna, flugumferðarstjóra, sjónvarpsstarfsmenn, póstmenn, sem stóðu fyrir jólayfirvinnubanni í eina tíð, símamenn, gæslumenn við geðhjúkrun og kennara. Starfsmenn í ríkisverksmiðjum, kennarar tækniskóla og félagar LSFK hafa knúið fram samninga með verkföllum, verkfallsboðun eða öðrum aðgerðum án þess að heimild sé til þess í lögum. Með samningum, sem ríkisvaldið hefur gert í kjölfar þessara aðgerða, hefur ríkisvaldið í reynd viðurkennt á borði verkfallsrétt ákveðinna hópa og samið á jafnréttisgrundvelli við launþega á sama hátt og þá sem verkfallsrétt hafa.

Það er alveg ljóst og það má telja fullvíst að fleiri hópar komi til með að nota þetta í framtíðinni, þó að 60 ára gömul löggjöf segi annað þar um.

Það kom fram hjá formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að samtökin hafa beitt sér fyrir athugun og fundahöldum og kannað hversu mikið fylgi er innan samtakanna fyrir því að fá verkfallsrétt. Það kom fram í hans máli að á öllum fundum og hjá nær öllum samtökum innan BSRB væri meirihlutafylgi fyrir þessum rétti, og nefndi hann töluna 85% að meðaltali. Það hefur hins vegar komið í ljós að í einu félagi, Starfsmannafélagi stjórnarráðsins, er ekki meirihlutafylgi fyrir þessum rétti. En eftir því sem ég best veit mun það vera eina félagið og tiltölulega fámennt.

Að mínum dómi er verkfallsréttur og réttur til að semja um kjör sin sjálfsögð mannréttindi. En vandinn er hins vegar hvernig farið er með þennan rétt. Það hefur komið fram og menn óttast, að með því að samþ. þetta frv. muni Bandalag starfsmanna ríkis og bæja vera með stöðuga verkfallssvipu á ríkisvaldið. Ég hygg að það sé ekki það sem mönnum ber að óttast. Menn geta og hafa tekið sér þennan rétt þrátt fyrir ákvæði laga, og ríkisvaldið hefur viðurkennt það að vissu leyti, enda hygg ég að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafi ekki áhuga fremur en aðrir launahópar á að beita þessu vopni. Það er eflaust áhugi flestra og nær allra að koma í veg fyrir slíkt.

Það er mjög mikilvægt varðandi verkfallsréttinn hvernig staðið er að verkfallinu, hvernig það er boðað og hversu margir taka þátt í að boða það sama verkfall. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eru tilgreind þrjú atriði fyrir löglega boðuð verkföll. Það er í fyrsta lagi að það sé samþ. við almenna leynilega atkvgr. sem staðið hefur a.m.k í 24 klst., enda hafi félagsstjórnin auglýst nægilega hvar og hvenær atkvgr. um vinnustöðvunina skyldi fara fram. Í öðru lagi samþ. af samninganefnd eða félagsstjórn sem gefið hefur verið umboð til að taka ákvörðun um vinnustöðvunina með almennri atkvgr. sem farið hefur fram á sama hátt og greint er undir 1. lið. Í þriðja lagi samþ. af trúnaðarmannaráði ef lög viðkomandi félags fela því slíkt vald, enda hafi vinnustöðvunin verið samþ. með a.m.k. 3/4 hlutum greiddra atkv. á lögmætum trúnaðarmannaráðsfundi.

Þessir liðir bera það með sér að tiltölulega fámenn samninganefnd eða félagsstjórn getur ákveðið hvenær hefja skuli verkfall ef hún hefur umboð til þess frá viðkomandi félagi. Ef við lítum hins vegar á á hvern hátt skuli staðið að boðun verkfalls samkv. því samkomulagi sem hefur verið gert við BSRB, þá kemur það fram í fyrsta lagi í nokkrum liðum í aths. við frv. á bls. 9. Þar segir m.a.: „Almenn regla að heimilt sé að gera verkföll og verkbönn til að stuðla að framgangi krafna í vinnudeilum. Verkfallsheimild nær aðeins til aðalkjarasamnings.“ Síðan kemur: Þessum mönnum er óheimilt að gera verkfall: a. Hæstaréttardómarar, ríkissaksóknari, sáttasemjari ríkisins. b. Héraðsdómarar o.s.frv. c. Ráðuneytisstjórar o.s.frv. d. Starfsmenn sáttasemjara ríkisins. e. Starfsmenn Alþingis o.s.frv. f. Forstöðumenn stjórnsýslustofnana o.s.frv. g. Forstöðumenn atvinnurekstrar og þjónustufyrirtækja og ýmsir fleiri. Þannig er ljóst að það eru ýmsir mikilvægir aðilar sem er óheimilt að gera verkfall. Auk þess er skylt að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu og heilsugæslu þrátt fyrir verkfall.

Svokölluð kjaradeilunefnd ákveður hvaða einstakir starfsmenn skuli vinna í verkfalli. Í n. skulu eiga sæti 9 menn: 3 skulu valdir af fjmrh., 3 af heildarsamtökum launþega, 2 kjörnir af Sþ. og einn skipaður af Hæstarétti og skal hann jafnframt vera formaður n. Það er því ljóst að fyrir því er séð, að nauðsynlegar undanþágur verði veittar til þess að sinna öryggis-, slysa- og sjúkraþjónustu sem verður að vera fyrir hendi.

Í samningum segir að um boðun verkfalls skuli fara samkv. samþykkt heildarsamtaka. Kjaradeila skal ganga til sáttasemjara ríkisins ekki síðar en mánuði fyrir lok uppsagnarfrests. Strax og deila er komin til sáttasemjara skal hann kveðja tvo menn til starfa með sér að sáttum. Verkfall skal boða með 15 daga fyrirvara. Verkfall má ekki hefja fyrr en sáttatillaga hefur verið felld. Sáttanefnd skal leggja fram sáttatillögu a.m.k. 5 sólarhringum fyrir lok verkfallsboðunarfrests. Þegar sáttatillaga hefur verið lögð fram getur sáttanefnd frestað verkfalli í allt að 15 daga. Eftir að verkfall er hafíð getur sáttanefnd alltaf komið fram með miðlunartillögu eftir venjulegum reglum. Samúðarverkföll eru óheimil. Síðan kemur: Sáttatillaga og miðlunartillaga telst felld ef yfir 50% greiddra atkv. eru á móti henni, enda hafi yfir 50% á kjörskrá greitt atkv. Annars telst sáttatillaga samþ. Það er því ljóst, að hér gilda mjög strangar reglur um verkfallsboðun.

Það má einnig geta þess að samkv. þessu samkomulagi er samningstími alllangur miðað við það sem gengur og gerist. Það kemur fram í samningum að aðalkjarasamningur skuli gilda skemmst í 24 mánuði frá gildistökudegi miðað við mánaðamót og uppsagnarfrestur verði skemmst þrír mánuðir. Lögbundinn endurskoðunarréttur með gerðardómi eða verkfallsrétti fylgir ekki aðalkjarasamningi.

Ég held að það sé ljóst af því sem ég hef hér sagt, að með þessu samkomulagi og með þessu frv. er stefnt að verulegum samningsréttindum fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en hins vegar þurfi menn ekki að óttast að það verði beitt mikilli verkfallssvipu gagnvart ríkisvaldinu. Ég tel að hér sé komið á sjálfsögðum réttindum til þessara starfshópa sem þeir hafa fallist á og samþ. og vil því aðeins að lokum leggja til að frv. verði samþ., og mælir n. shlj. með því.