12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

259. mál, kjarasamningar opinbera starfsmanna

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 46 frá 24, maí 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. N. fjallaði um þetta frv. samhliða 258. og 260. máli og leggur til að þetta frv. verði samþ.

Ég gerði í framsögu um 258. mál grein fyrir þessu máli í heild. En það kom fram í umr. að það var litið svo á að hér væri um fyrsta skrefið að ræða í baráttu opinberra starfsmanna fyrir samningsrétti. Það er nú ekki svo að hér sé um fyrsta skrefið að ræða því að ýmis skref hafa veríð stigin áður, m.a. þegar ákveðið var að opinberir starfsmenn fengju samningsrétt, en ef samningar næðust ekki, þá væri málinu vísað til Kjaradóms. Reynslan verður að skera úr um það hvernig framkvæmd þessara mála reynist. En við hljótum að leggja á það áherslu að allar reglur um verkfallsboðun og framkvæmd verkfalls séu sæmilega skýrar, því að það er nú svo að það hefur mjög oft í þessu landi verið boðað til ólöglegra verkfalla og ekki gætt þess að fara að lögum. Það er því nauðsynlegt að það sé nokkur tími, frestur, sem gefist þangað til verkfall kemur í framkvæmd, þannig að ekki sé hlaupið til allt í einu og verkfall boðað öðruvísi en málið hafi verið skoðað mjög gaumgæfilega.

Það var einnig allmikið rætt um æviráðningu opinberra starfsmanna. Ég vil geta þess að í des. 1974 var kveðinn upp í Hæstarétti dómur þar sem talið var að heimilt sé að ráða opinberan starfsmann með gagnkvæmum uppsagnarfresti og svipta menn þar með í framtíðinni æviráðningu. Það skal þó tekið fram að þeir starfsmenn, sem ráðnir voru fyrir áramótin 1974, verða án gagnkvæms uppsagnarfrests, þeir njóta æviráðningar áfram. En samkv. þessum dómi er heimilt að ráða menn í þjónustu ríkisins með gagnkvæmum uppsagnarfresti, og það mun vera allmikið um það að svo sé gert. Ég tel það vera rétta stefnu að það sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur, og ég hygg að bað séu allmargir opinberir starfsmenn sem telja eðlilegt að gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé fyrir hendi. Það má einnig geta þess að þau atriði, sem þurfa að vera fyrir hendi ef um brottrekstur úr starfi er að ræða, eru allmörg, og koma fram í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna:

1. Ef starfsmaður brýtur af sér í starfi með: a) óstundvísi eða annarri vanrækslu, b) óhlýðni við lögfest boð eða bann yfirmanns, c) vankunnáttu eða óvandvirkni, d) ölvun í starfi, e) framkomu í eða utan starfs ósæmilegri, óhæfilegri eða ósamrýmanlegri því starfi.

2. Fullnægir ekki lengur skilyrðum til þess að fá skipun, setningu eða ráðningu í stöðuna. 3. Hefur náð hámarksaldri.

4. Skipunartími hans samkv. tímabundnu skipunarbréfi er útrunninn.

5. Hann flyst í aðra stöðu. 6. Staðan er lögð niður.

Nú hafa dómar að vísu fallið þannig að um ólöglegan brottrekstur hefur verið að ræða, en samt mun það aldrei hafa komið fyrir að starfsmaður hafi verið dæmdur inn í starf aftur. Þetta sýnir að æviráðningin er nú ekki eins föst í sessi og margir vilja halda fram og það er hægt að beita uppsögnum þótt sakir séu tiltölulega litlar.

Að svo mæltu vil ég ítreka það að fjh.- og viðskn, leggur til að frv. þetta verði samþykkt.