12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

261. mál, laun starfsmanna ríkisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frsm. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. fyrir að hafa bent á þau mistök sem hafa orðið hér í prentun, Nál. skrifaði ég undir með fyrirvara, en þess er ekki getið, líklega er hér um prentvillu að ræða.

Ég vil taka það fram að ég er í öllum atriðum samþykkur frv. sem liggur hér fyrir, en hef þó flutt brtt. við frv. að gefnu tilefni. Ég tel að allir, sem innheimta söluskatt eða önnur gjöld sem teljast til ríkissjóðstekna, séu á sinn hátt starfsmenn ríkisins eða innheimtumenn ríkissjóðs. Flestir, sem innheimta söluskatt, gera það samkv. lögum eða skipun framkvæmdavaldsins, en hingað til endurgjaldslaust. Ég tel óhæfu að sumir þegnar þjóðfélagsins skuli skyldaðir til að leggja fram vinnu endurgjaldslaust, á sama tíma sem launaðir starfsmenn ríkisins, embættismenn, fá aukaþóknun fyrir að vinna sömu eða lík störf, Þar fyrir utan eru t.d. verslunarmenn ábyrgir fyrir söluskattsskilum, oft áður en greiðandi söluskatts hefur greitt skattinn til viðkomandi manna sem taka á móti söluskattinum. Ég get tekið sem dæmi, sem ekki er sjaldgæft og kemur oft fyrir, að kaupmaður láni t.d. efnalitlu fólki lífsviðurværi ef illa stendur á og þarf að standa skil á söluskatti áður en hann fær hann greiddan sjálfur. Ég tel að hér sé mönnum mismunað í launagreiðslum eftir því hvort það er launaður embættismaður eða skyldaður af ríkisvaldinu til að inna af höndum störf fyrir ríkisvaldið án launa.

Skipuð var nefnd af hæstv. fjmrh. 27. okt. 1971 til að gera till. um breytt fyrirkomulag á greiðslu aukatekna sýslumanna, bæjarfógeta og sambærilegra embættismanna. Ég vil taka fram að það, sem snýr að innheimtustörfum þessara embættismanna, er sambærilegt við hvaða innheimtustörf sem innt eru af hendi til að afla ríkissjóðstekna, — hvort sem mennirnir eru kallaðir embættismenn eða ekki, þá eru störfin þau sömu, svo að ég tel að þeir, sem eru skyldaðir til að innheimta, vinni sömu störf og þeir sem eru á launum hjá ríkinu til þess að gera það sama. N. skipuðu valinkunnir menn, þeir Baldur Möller, Björn Fr. Björnsson, Björn Hermannsson og Sigurgeir Jónsson, og ég held að það sé nokkur trygging fyrir því að hér hafi verið vel að verki staðið.

Þá stendur hér að n. hafi skilað till. sínum í júní 1972. Niðurstaðan var sú að n. taldi þörf á gagngerri breytingu á núverandi greiðslum fyrir innheimtu aukatekna. Miðuðu till. n. að því að jafna hlut innheimtumanna frá því sem verið hefur og jafnframt að því að gera innheimtukerfið að hvata til bætts innheimtuárangurs. Sem sagt, það þarf að hvetja embættismenn með aukatekjum til þess að gera skyldu sina.

Ég skal ekki fjalla um það hvort hér er rétt eða rangt að staðið, ég hef enga brtt. um þessi atriði að gera, en ég tel að þeir, sem hingað til hafa verið ólaunaðir, en skyldaðir til að inna þetta starf af hendi fyrir ríkissjóð, eigi að fá greiðslu fyrir það. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt., sem er á þskj. 712, við frv. til l. um breyt. á l. nr. 92 24. des. 1965, um laun starfsmanna ríkisins. Ég vil undirstrika það að þegar þjóðfélagsþegn er skyldaður til að inna störf af höndum fyrir ríkissjóð og þá til þess að afla ríkissjóði tekna, þá lít ég á hann sem starfsmann ríkisins hvað bað snertir. Því hljóðar till. mín svo:

„Við 1. gr. Aftan við greinina bætist:

Enn fremur skal fjmrh, með reglugerð ákveða þóknun til annarra innheimtuaðila ríkissjóðstekna (þ.e. annarra en opinberra starfsmanna).“

Það getur þá verið um að ræða fleiri starfshópa en verslunarstéttina.