12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4090 í B-deild Alþingistíðinda. (3374)

261. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka undir það með hv. 12. þm, Reykv. að mér finnst að mörgu leyti óeðlilegt að það skuli þurfa að vera svo, að embættismenn þurfi að hafa ákveðinn hvata til að bæta sinn innheimtuárangur. Þeir eiga að fá laun fyrir sin störf og væri eðlilegast að þau laun væru þannig að þeir gætu skilað starfi sínu á sómasamlegan hátt, og ég efast ekki um að flestir þeirra munu gera það. En þetta kerfi hefur verið lengi og er því eðlilegast að mínum dómi, fyrst ekki er unnt að leggja það niður, að breyta því þannig að það sé meiri jöfnuður í því kerfi, og þess vegna styð ég það.

En varðandi þá brtt., sem hv. 12. þm. Reykv. hefur lagt fram, þá er hér um mál að ræða sem oft hefur verið rætt. Hér er um stórmál að ræða sem ég tel að sé á engan hátt hægt að afgreiða á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. að heimila fjmrh. að greiða öðrum þóknun. Það er mál sem verður að athuga mun betur. Ég vil því leggja til að sú till. verði felld.

Þegar rætt er í grg. með frv. um sambærilega embættismenn við sýslumenn og bæjarfógeta, þá er fyrst og fremst átt við t.d. tollstjóra og lögreglustjóra, en kaupmenn og kaupfélög geta á engan hátt flokkast undir embættismenn. Það er hins vegar rétt, að það er mjög mikill galli í sambandi við söluskattinn að þeir, sem þurfa að stunda lánsviðskipti, og ég hygg að það sé einna mest hjá kaupfélögunum sem m.a. hafa mikil viðskipti við bændur, þurfi að standa skil á söluskatti jafnt þó að viðkomandi aðili skuldi mikla úttekt. En hvort þessi mál verða best leyst með því að menn fái innheimtuþóknun af söluskatti, það leyfi ég mér að draga í efa. Það er nú svo að það er mjög mismunandi hvað þarf að hafa fyrir því að selja vörur. Er það eðlilegt að aðili, sem selur við skulum segja vél sem kostar 10 millj., fái sömu innheimtulaun og sá sem selur stykkjavöru? Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að greiða þessum aðilum innheimtulaun. Þeir fá sína álagningu til að standa undir sínum kostnaði, og það er að mínum dómi með álagningunni sem á að standa undir kostnaðinum, en tel á allan hátt óeðlilegt að þeir fái innheimtulaun. Ég veit ekki til þess að það tíðkist í nokkru landi, þar sem ég þekki til, að sá aðili, sem selur vöruna, fái innheimtulaun fyrir að skila þeim aurum til ríkisins.