12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þeim tveimur spurningum sem hv. þm. bar hér fram. Þær eru annars vegar um gildistíma samkomulagsins og hins vegar hvernig haldið muni verða á landhelgisgæslunni þegar samkomulagið fellur niður.

Samkvæmt ákvæðum samkomulagsins við breta í fskj. 1, 7. tölul., átti samkomulagið að gilda „í tvö ár frá undirritun þess“, en samkomulagið var staðfest með orðsendingaskiptum sem fram fóru seint um eftirmiðdaginn hinn 13. nóv. 1973. Þál., sem heimilaði samkomulagið, var samþ. kl. 14.40 um eftirmiðdaginn. Miðað við þetta er eðlilegast að telja gildistíma samkomulagsins útrunninn á miðnætti við lok þess dags sem samkomulagið hlaut gildi, þ. e. kl. 24 fimmtudaginn 13. nóv. 1975. Er réttmæt og eðlileg ósk frá hv. þm. að tekið sé skýrt fram um þetta atriði, vegna þess að nokkurs misskilnings virðist hafa gætt um það.

Þá var hin spurningin, hvernig staðið mundi verða að gæslunni þegar gildistíma samkomulagsins við breta væri lokið. Um það vil ég segja það að þá er allt svæðið innan 200 sjómílna orðið íslensk lögsaga og þar verður haldið uppi löggæslu á venjulegan hátt, jafnt innan sem utan þeirra svæða sem nú eru samningsbundin. Enn er að sjálfsögðu ekki vitað hver muni verða viðbrögð þeirra, í þessu tilfelli breta, svo að maður tali beint um það, sem notið hafa góðs af þessu samkomulagi. Það er ekki hægt og ekki ástæða til þess að ganga út frá því sem gefnu að þeir fari að fremja brot, heldur vil ég miklu frekar ganga út frá því að þeir virði ákvörðun íslendinga um þetta og muni halda sig utan markanna eftir að gildistími samkomulagsins er á enda runninn. Það er sjálfsagt að bíða og sjá hver viðbrögð þeirra verða. En það er ljóst að viðbrögð landhelgisgæslunnar fara að sjálfsögðu eftir því hvernig viðbrögð og framkoma hinna bresku skipa verður.

Það er rétt sem hv. þm. sagði, að það er ekki enn bundinn endir á þær samkomulagsviðræður sem fram hafa farið. Það verður að ætla, að ef þær þjóðir, sem hér eiga hlut að máli, hafa verulegan áhuga á því að ná bráðabirgðasamkomulagi, þá muni þær skilja að fátt greiðir betur fyrir því, að slíkt samkomulag náist, heldur en að þær haldi sig utan markanna á meðan ekki er séð hver endir verður á þessum samkomulagsumleitunum. Það hefur sýnt sig að þýskir togarar hafa algerlega horfið út fyrir 200 mílurnar nú. Ég efast ekki um, að það er mikið að þakka árvekni landhelgisgæslunnar. En hitt er ég líka jafnsannfærður um, að vilji þeirra til þess að komast að samkomulagi í þessu máli á sinn þátt í því að þeir hafa hagað veiðunum nú undanfarna daga á þennan veg. Það væri að mínu mati ákaflega skynsamlegt af bretum að fara að á sama hátt.

Frekari yfirlýsingar um það hver verða muni viðbrögð landhelgisgæslunnar í einstökum atriðum fer ég ekki að gefa hér. Það er sem áður undir mati hlutaðeigandi skipherra komið fyrst og fremst. Og ég ætla ekki að fara hér út í þau almennu atriði varðandi hugsanlegt samkomulag sem hv. þm. ræddi um. Ég geri ráð fyrir að það verði þá frekar hæstv. forsrh. sem víkur að því. Annars held ég að það sé ekki heppilegt, almennt talað, að fara að ræða slíkt hér í einstökum atriðum, heldur sé, eins og ég vona að hafi verið gert, gerð grein fyrir því í landhelgisnefnd eða eftir atvikum utanrmn.

Það er auðvitað skylt að meta og þakka umhyggju hv. þm. fyrir núv. ríkisstj., en mér virtist svo sem hann hefði af því þungar áhyggjur, ef hún misstigi sig nú eitthvað í þessu máli, og teldi sig vita að það væri mikill meiri hl. þjóðarinnar á móti samkomulagi. Ég fyrir mitt leyti held að það sé alltaf vissara að sjá um hvað samkomulag er gert og um hvers konar samkomulag er að ræða, áður en verið er með fullyrðingar af þessu tagl. Ég fyrir mitt leyti mun a. m. k. þegar þar að kemur, ef á það reynir, fara eftir sannfæringu minni um það hvort ég tel rétt að gera samkomulag eða ekki, en ekki láta neina kjósendahópa hafa þar áhrif á. Ég hef mitt umboð til loka þessa kjörtímabils og þá ætla ég að standa reikningsskap, en mér er skylt eins og hverjum öðrum þm. þangað til að fara eftir sannfæringunni og sannfæringunni einni, en ekki láta stjórnast af neinni atkvæðavon, hversu girnileg sem hún er.