12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Mér þótti heldur en ekki vera skammdegisdumbungur í svörum hæstv. ráðh. áðan. Það grillti ekki í ákveðin svör við neinu af því mikilvægasta sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafði beint til þeirra. En ég vil leyfa mér að segja fáein orð í sambandi við þetta stórmál sem hér er nú komið til umr.

Landhelgisbarátta okkar íslendinga er barátta fyrir brýnustu hagsmunum okkar, lífshagsmunum okkar. Undirstaða efnahagslegs sjálfstæðis okkar er í veði, hvorki meira né minna. Um þetta virðist ekki vera neinn ágreiningur hjá þjóðinni, og þess vegna ætti ekki heldur að vera neinn ágreiningur um það, að í þessari baráttu hljótum við að sýna alla þá hörku sem við frekast megnum, en látum ekki undan neinum hótunum andstæðinga okkar. Skyldi vera hætta á slíku? Já, því miður. Það virðist óneitanlega vera hætta á slíku. Um það vitnar t. a. m. sú ritstjórnargrein sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson vitnaði í hér áðan, ritstjórnargrein sem birtist í einu málgagni hæstv. forsrh. í morgun. Þar kveður við gamalkunnan tón. Þar er reynt að læða því inn hjá þjóðinni að staða okkar sé of veik til þess að við getum náð rétti okkar og greininni lýkur á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef við eigum kost á að ná meiri friðun með samningum við aðrar þjóðir en án samninga eigum við hiklaust að gera slíka samninga.“

Mér virðist að málgagn hæstv. forsrh. sé þarna að gera andstæðingum okkar tilboð eða víkja til þeirra — skulum við segja — ráðleggingu sem t. d. bretar gætu skilið á þessa leið: „Ef við bretar hótum því að stórauka, e. t. v. tvöfalda sókn okkar á Íslandsmið, að sjálfsögðu undir herskipavernd, — stórauka hana frá því sem verið hefur skv. núgildandi samkomulagi, — ef við bretar hótum þessu, svo fremi íslendingar fást ekki til þess að endurnýja samninginn við okkur, þá mun málgagni íslenska forsrh. ekki verða skotaskuld úr því að sjálfsögðu að sýna fram á að það muni verða heldur en ekki vinningur fyrir íslensku þjóðina að sætta sig við óbreytt ástand, áframhaldandi sömu ásókn af hálfu okkar breta og verið hefur að undanförnu.“

Það, sem ég á við, er þetta: að með ritstjórnargrein eins og þeirri, sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, er þetta málgagn hæstv. forsrh. ekkert að gera annað en að veikja siðferðisþrek okkar íslendinga og magna upp ósvífnina í andstæðingum okkar.

En hver ætli sé þá staðan í dag? Að mínum dómi er staðan í dag svipuð og hún var fyrir tveimur árum, þ. e. a. s. haustið 1973. Þá voru bretar bersýnilega að gefast upp. Ég var þá á ferð í Englandi og í sept. heimsótti ég ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal togarabæinn Grimsby. Við héldum þarna blaðamannafund og kynntumst ástandinu náið. Við fengum að finna rækilega að það var mikill kvíði, það var mikill vetrarkvíði í togaramönnum í Grimsby. Það fór ekkert á milli mála að við óbreyttar aðstæður á Íslandsmiðum mundu þeir neita að sækja þangað yfir vetrarmánuðina a.m.k., m. ö. o.: það voru allar horfur á því að við íslendingar mundum með öllu losna við breska togara af miðum okkar á þeim vetrarmánuðum a. m. k. sem voru að ganga í garð. Breskir togarasjómenn höfðu þá fengið að kynnast því nokkuð hvers landhelgisgæsla okkar er megnug, og þeir treystu sér alls ekki til áframhaldandi átaka við hana að viðbættum þeim veðraham sem þeir vissu af reynslu að veturinn hér á Íslandsmiðum mundi láta á þeim ganga. Eftir þetta hefðum við íslendingar að sjálfsögðu átt alls kostar við breta. En áður en til endanlegrar uppgjafar kæmi af hálfu breta gerðist það, eins og kunnugt er, að íslenski forsrh. fór að hitta kollega sinn í London og átti við hann viðræður sem síðan leiddu til samkomulags sem svo hefur leitt til þess ískyggilega ástands fiskstofnanna sem öllum er nú kunnugt um, sérstaklega þorskstofnsins.

Þetta tækifæri til stórsigurs okkar íslendinga í landhelgismálinu var sem sé ekki notað. Verður tækifærið notað núna? Framkvæmdastjóri samtaka togarayfirmanna í Hull, Tom Nilssen, lét svo ummælt nú fyrir nokkrum dögum að breskir sjómenn, hann talar fyrir hönd þeirra, en ekki fyrir bönd togaraeigenda, hann sagði að breskir sjómenn vildu halda sig utan við 200 mílurnar fyrst eftir að veiðiheimildir breta ganga úr gildi, væntanlega til að sýna samkomulagsvilja sinn, enda — og taki menn nú vel eftir: enda væru breskir sjómenn búnir að fá sig fullsadda af átökunum á miðunum við Íslandsstrendur undanfarin ár. Þarna kemur sem sé fram sami vetrarkvíði og við urðum varir við svo rækilega fyrir tveimur árum í Grimsby, ég og hv. þm. Benedikt Gröndal.

Hver verða svo viðbrögð okkar íslendinga? Ég tek undir það, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði áðan, að í landhelgisátökunum við breta og vestur-þjóðverja hefur íslenska landhelgisgæslan sjaldan eða aldrei fengið að sýna til fulls hvers hún er megnug. Æðstu yfirvöld hennar hafa alltaf haldið aftur af henni, meira eða minna. Ef af henni væri nú létt þeim hömlum, þá leikur ekki neinn vafi á því að hún gæti á þeim vetrarmánuðum, sem nú ganga í garð, truflað stórlega ránskap andstæðinga okkar á Íslandsmiðum og jafnvel bægt með öllu frá fiskstofnunum þeirri hættu sem að þeim stafar nú af þessum ránskap, a. m. k. frá þorskstofninum, þeim stofni sem harðast hefur orðið úti af þessum sökum. Það vantar sem sé ekkert nema meiri röggsemi af hálfu íslenskra stjórnvalda, en því miður virðist ærin ástæða til að efast um að slíkrar röggsemi sé að vænta, sbr. t. d. ritstjórnargreinina í Morgunblaðinu í morgun.

Guðmundur Kjærnested skipherra, sá mæti maður, fjallaði um landhelgismálið í ræðu sem hann flutti sem fráfarandi forseti Farmanna-og fiskimannasambandsins á nýafstöðnu þingi þess og hafa ummæli hans vakið alþjóðarathygli, enda talaði hann þarna fyrir munn alls þorra íslendinga. Hins vegar hefur Guðmundur Kjærnested fengið fyrir þetta næsta kaldar kveðjur í málgagni hæstv. forsrh. Ég leyfi mér enn að vitna í ritstjórnargrein frá í morgun með leyfi hæstv. forseta:

„Það sjónarmið hefur komið fram að íslendingar eigi að slíta stjórnmálasambandi við breta og loka Íslandi fyrir allri umferð frá bandamönnum okkar í Atlantshafsbandalaginu, ef bretar senda herskip á Íslandsmið. Hagsmunum hverra mundu slíkar aðgerðir þjóna,“ spyr Morgunblaðið. „Engin rök er hægt að færa fram fyrir því að slíkar aðgerðir mundu þjóna hagsmunum okkar íslendinga. Þvert á móti sýnist augljóst að slíkar aðgerðir mundu ganga gegn bæði víðskiptalegum hagsmunum okkar og öryggishagsmunum. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að tryggja frið á fiskimiðunum.“

Ég spyr: Er hægt að hugsa sér öllu kurteislegri, öllu elskulegri eða ástúðlegri viðbrögð við þeim ofbeldishótunum sem við íslendingar höfum fengið að heyra af hálfu andstæðinga okkar í landhelgismálinu? Er hægt að hugsa sér öllu átakanlegri vísbendingu um réttmæti þess, sem eitt sinn var sagt, að það virðist vera í eðli sumra íslendinga að standa jafnan þeim mun meira í keng gagnvart útlendu valdi sem meiri ástæða virðist fyrir þá að ganga uppréttir.