12.05.1976
Efri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

275. mál, stofnlánasjóður vörubifreiða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, frsm. samgn., hv. 4. þm. Suðurl., gerði í raun í lokin nokkra grein fyrir því hvernig á því stæði að þetta verkefni væri tekið út úr sér þrátt fyrir það að nýlega hefði verið samþ. á Alþ. till. til þál. sem við fluttum, Karvel Pálmason og Páll Pétursson, um stofnlánasjóð eða stofnlánadeild sem hefði það hlutverk að veita lán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum. Það kann að vera rétt, að hér sé um miklu viðameiri verkefni að ræða þegar þessi tæki koma inn í, bæði langferðabifreiðarnar og hinar stórvirku vinnuvélar. En á hitt legg ég áherslu, að vandi þessara aðila er síst minni en vörubílstjóra. Það er að vísu rétt að geta þess, að þeir, sem hafa keypt stórvirkar vinnuvélar, hafa sumir hverjir fengið vissa lánafyrirgreiðslu úr Byggðasjóði, en þurft til þess að uppfylla ýmis ströng skilyrði. Ég held að það sé rétt hjá mér að til þeirra hafi verið lánað allt að 30%, en skilyrði hafa verið mjög ströng varðandi þetta svo sem eðlilegt hlýtur að vera. Og auðvitað er óeðlilegt að Byggðasjóður eigi að koma hér í lánakerfið nema þá sem alveg sérstakur viðbótaraðili við hinn eiginlega stofnlánasjóð, sem sæi um þetta verkefni.

Má vera að hér sé um skref í áttina að þessum sjóði að ræða. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga að til þessa sjóðs verði þannig stofnað, en hlýt þá jafnframt, ef meiningin er að koma þessu í gegn nú á þessu þingi, að treysta því sérstaklega, þar sem þetta hefur nú verið samþ. hér á Alþ., að þessir aðilar, þeir sem sjá um langferðabifreiðarnar, og hinir, sem eru með stórvirku vinnuvélarnar, verði ekki lengi utan við þennan sjóð, verði teknir sem allra fyrst þar inn í. Ég er t.d. alveg sannfærður um að það stendur ekkert á þeim frekar en eigendum vörubilstjóranna að greiða þennan hluta af sinni veltu inn í þennan stofnlánasjóð. Ég hef það mikið rætt við þá aðila um þetta að ég veit að það stendur ekkert á því. Því held ég að ég verði að leggja á þetta sérstaka áherslu, ekki síst vegna þess að langferðabílarnir okkar, þ.e.a.s. þeir bílar sem annast áætlunarferðir, eiga í geysilegum erfiðleikum nú. Ég er jafnvel á því, að erfiðleikar þeirra, sem halda uppí áætlunarferðum víðs vegar um landið og ætíð fer þó fækkandi, — erfiðleikar þeirra séu enn þá meiri, tekjur þeirra enn þá stopulli en vörubílstjóranna. Og þegar ég var með þessa till. um atvinnubifreiðarnar og stórvirku vinnuvélarnar, þá hafði ég þessa aðila, langferðabílstjórana, alveg sérstaklega í huga, þó að vörubifreiðarnar kæmu að sjálfsögðu þar næstar á eftir og síðan hinar stórvirku vinnuvélar sem æ meira ryðja sér til rúms og eru orðnar nær ómissandi við öll meiri háttar verk.

Ég sem sagt treysti því að þetta sé, eins og hv. frsm. gat hér um, skref í áttina, það væri ekkert því til fyrirstöðu sem sagt að í þennan sjóð kæmu seinna þeir aðilar sem um er getið í till. sem samþykkt var hér um stofnlánasjóð vegna langferðabifreiða og stórvirkra vinnuvéla. Á það verður að treysta. Ég tel það hins vegar nokkru miður, að þessir aðilar skuli vera teknir sérstaklega út úr, af þeirri ástæðu að ég er viss um að vandi þeirra er ekki meiri en hinna, fyrir svo utan það að einmitt þessum vörubifreiðum, sem hér er sérstaklega um rætt, þ.e.a.s. þessum stærstu vörubifreiðum og bifreiðum sem flytja vörur landshluta á milli, þessum bifreiðum fylgir óneitanlega töluverð hætta fyrir þjóðvegina okkar og meira en það. Við þurfum sem sagt að taka alla flutninga okkar í raun og veru til gagngerðrar endurskoðunar, og ég veit ekki hvað við eigum að ganga langt í því að næstum allir flutningar á vörum milli landshluta fari fram með þessum stóru vörubifreiðum sem skemma vegi okkar meira og minna og eru þjóðvegakerfinu í heild mjög dýrir. Ég er hins vegar ekki að draga úr nauðsyn á þessari þjónustu. Hún er svo sannarlega fyrir hendi vegna þess sérstaklega að vöruafgreiðsla okkar með skipum hefur gersamlega verið í molum.

Ég vil sem sagt treysta því að ef það er meiningin að þetta frv. fái framgang núna, þá verði þeir aðilar, sem við Karvel Pálmason og Páll Pétursson höfðum sérstaklega í huga í þessu sambandi, eigendur langferðabifreiða og stórvirkra vinnuvéla, teknir sem allra fyrst inn í þennan sjóð.