12.05.1976
Efri deild: 105. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi. Samhljóða frv. var lagt fyrir bæði 94. og 96. löggjafarþing, en varð þá ekki útrætt. Það er undirbúið af n. sem fyrrv. menntmrh. skipaði 1971. Nál. og umsagnir voru prentaðar með frv. við fyrri flutning og þær eru ekki endurprentaðar að þessu sinni. Frv. var flutt í Nd. sem hefur nú gert á því nokkrar breyt. sem ég er út af fyrir sig alveg samþykkur. M.a. hefur sú breyt. verið gerð að gildistaka frv. er miðuð við 1. jan. 1977.

Meginstefna þessa frv. er að nemendur, sem lokið hafa skyldunámi, eigi þess kost að afla sér sérmenntunar til undirbúnings störfum í viðskiptalífinu um leið og þeir treysta almennt þekkingargrundvöll sinn, eins og gengur og gerist.

Með vísun til ítarlegra athugasemda, sem þessu frv. fylgja, og til ræðu, sem ég flutti við 1. umr. málsins í Nd., mun ég ekki fara út í það að rekja einstök efnisatriði þessa frv. hér við 1. umr. í hv. deild.

Ég held að það fari ekki á milli mála að þörf traustrar menntunar á viðskiptasviðinu hefur vaxið mjög svo með auknum umsvifum á þjóðarbúinu og með æ fjölbreyttari atvinnu- og viðskiptaháttum. Ríki og sveitarfélög hafa haft forustu um það að byggja upp hið almenna skólakerfi, um útfærslu og eflingu menntakerfisins í flestum greinum. En um viðskiptafræðsluna er hins vegar þá sögu að segja, að þungi hennar hefur hvílt á samtökum verslunarinnar sem rekið hafa tvo einkaskóla, Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann í Bifröst, þó með mjög verulegum styrkjum úr ríkissjóði. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að þessir skólar haldi áfram að starfa á vegum samtakanna, en með auknum stuðningi ríkisvaldsins. Svo er jafnframt ætlast til þess að námið verði þáttur í meira eða minna samræmdri menntun á framhaldsskólastiginu almennt og geti t.d. farið fram í fjölbrautaskólum, eftir því sem þeir koma til sögu, og svo þá í sérstökum verslunarskólum, fleiri heldur en einkaskólunum tveimur, ef ástæða þykir til þess.

Starfs- og rekstraraðstaða þessara tveggja einkaskóla er orðin ákaflega erfið, og er óhætt að segja að það sé varla unnt að gera ráð fyrir rekstri þeirra til langframa á svipuðum grundvelli og nú á sér stað. Ég hygg að það verði ekki undan því vikist að ríkið taki vaxandi þátt í rekstri þeirra eins og annarra skóla á framhaldsskólastiginu og eins og hér er lagt til að gera. Menn getur greint á um það kannske hvort það sé óhjákvæmilegt að gera þessa breyt. nú eða hvort hún geti komið síðar, en ég held að leiki ekki á tveim tungum að hún verði að koma. Þetta hefur verulegan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, og það er rétt og skylt að gera n. nánari grein fyrir því með því að leggja fyrir hana athugun fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar á þessu atriði, á kostnaðarhliðinni.

Ég vil svo aðeins láta það koma fram hér að í framhaldi af setningu grunnskólalöggjafarinnar fer nú fram beinlínis í samræmi við ákvæði þeirrar löggjafar endurskoðun á framhaldsskólastiginu í heild. Það er starfandi nefnd sem vinnur að gerð frumtill. um þessi efni og mun skila þeim áður en langir tímar liða. Ég hef rætt við þessa n. um þetta frv. og hún telur að löggjöf í samræmi við það geti í megindráttum fallið inn í þá heildarendurskoðun sem nú fer fram.

Með tilliti til þess, sem ég áður sagði um þá ítarlegu grg. sem fylgir þessu frv., þá þarf ég ekki að orðlengja þetta frekar, en leyfi mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.