12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4105 í B-deild Alþingistíðinda. (3434)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Það var seinni partinn í gær sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sá ástæðu til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár vegna starfa allshn. Ég var því miður bundinn annars staðar vegna skyldustarfa, en ég tel nauðsynlegt að strax nú í dag komi fram athugasemdir og mótmæli varðandi þau ummæli sem hann viðhafði í sinni ræðu þá. Hann taldi að allshn. og þá hv. Alþ. „ætli að heykjast á því að afgr. svo mikið sem eitt einasta af þeim fjölmörgu málum sem snerta dómsmái og rannsókn sakamála sem fyrir Alþ. hafa verið lögð“, og hann taldi að sú afstaða, sem hv. allshn. hafi tekið í þessu máli, þ.e.a.s. um afgreiðslu á frv. til l. um rannsóknarlögreglu, væri sú versta, sem hægt væri að taka undir þessum kringumstæðum, og langt í frá vansalaus fyrir Alþ. og sýndi sinnuleysi sem fólk hlýtur að eiga erfitt með að trúa, eins og málum er háttað.

Þetta eru fullyrðingar sem ég vísa algjörlega á bug og eru auðvitað langt frá því að vera í samræmi við staðreyndir málsins. Vera má að þessar yfirlýsingar hv. þm. stafi af ókunnugleika. Ég tel það vera sennilegustu skýringuna því í vetur hefur hv. allshn. haldið 16 fundi, en hv. þm. hefur mætt á 5 nefndarfundum, en hann á sæti í þessari nefnd. N. hefur á þessum fundum sínum, 16 fundum, fengið til meðferðar 25 mál og hefur nú afgr. 16 þeirra frá sér. Af þeim, sem enn þá eru óafgreidd, eru 3 þingmannafrv., eitt frv. um ættleiðingu, sem nýbúið er að leggja fram, og 3 frv., sem fjalla um meðferð opinberra mála, skipan dómsvalds og rannsóknarlögreglu og eru öll skyld mál sem fylgjast að. Af þeim frv., sem n. hefur afgr. frá sér, eru 10 þeirra lögð fram af hálfu dómsmrn. og snerta dómsmál og lögreglumál, og tvö til viðbótar í þessum málaflokki hefur n. samþ. sem eru lögð fram af einstökum þm.

Frv. um rannsóknarlögreglu og tvö fylgifrv. með því frv. liggja enn óafgr. hjá allshn. Hv. þm. túlkaði þessa stöðu svo að Alþ. vildi ekki sinna dóms- og rannsóknarmálum. Þessi ályktun og áburður er alvarlegur, og það er mjög áríðandi að mótmæla honum kröftuglega. Rannsóknarlögreglufrv. var tekið fyrir í fyrsta skipti á fundi allshn. 9. mars s.l. og þá var það sent til umsagnar. Umsagnir lágu fyrir strax eftir páska eða í lok apríl. Seinkun á einni umsögn og fjarvera mín frá þinginu í tvo daga olli því að fyrsti fundur n. eftir páska var haldinn þriðjudaginn 4. maí. Þá var þetta mál sérstaklega tekið fyrir og ákveðið að halda sérstakan fund um þessi frv. á föstudegi, á sérstökum tíma, sem er ekki reglulegur fundartími n., þann 7. maí. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mætti ekki á þeim fundi. Þá lágu fyrir umsagnir frá allmörgum aðilum og við yfirlestur á þeim kom í ljós að mjög veigamiklar athugasemdir komu fram. Það var því einróma álit nm., sem allir voru mættir að undanskildum nefndum þm., einróma álit þeirra að það væri eðlilegt og rétt að fresta afgreiðslu þessa máls að sinni. Það varð mat n. að þetta mál væri svo veigamikið að það væri ekki skynsamlegt og ekki heppilegt, ef horft væri til framtíðarinnar, að afgr. það í einni svipan, það væri til meira gagns fyrir dómstóla og löggæslu að það yrði ekki hrapað að nýju fyrirkomulagi sem áhrifamiklir og málsmetandi aðilar á þessum vettvangi vildu tjá sig um og voru kannske ósammála og óánægðir með þær till. sem gerðar höfðu verið. Í þessu máli skiptir augnablikið ekki öllu, heldur frambúðarskipan. Á það ber og að líta að það frv. til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins, sem hér var rætt um og hefur verið til meðferðar, á að taka gildi í fyrsta lagi 1. jan. 1977. (Forseti: Ég vil nú biðja hv. þm. að stytta mjög mál sitt. Það er ekki ætlast til að slíkar umr. taki nema örfáar mínútur.) Ég skal gera mitt besta til að stytta mál mitt. Það er aðeins til þess að útskýra afgreiðslu þessa máls sem ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram, vegna þess að hv. þm. virðist hafa fengið hér allnokkurn tíma í gær til þess að ræða um störf nefndarinnar.

Þar sem fyrir lá að frv. átti ekki að taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. jan. 1977, þá má álíta að skjót afgreiðsla næsta haust á þessu frv. mundi ekki koma í veg fyrir það að það taki gildi með eðlilegum hraða og á eðlilegum tíma.

Ég skal, virðulegi forseti, svo ljúka máli mínu, aðeins segja það að þáltill., sem borin er fram af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, hefur ekki fengið afgreiðslu úr þessari n. Þar er um að ræða að veita embættum og rn. ótakmarkaða heimild til að ráða til starfa ýmsa sérfræðinga til þess að leysa fram úr margvíslegum dómsmálum. Það hefur ekki tíðkast að veita svo ótakmarkaðar heimildir hér á Alþ. Nefndin treystir sér ekki til að gera það nú. Ég vil því undirstrika að það er ekki vegna þess að allshn. hafi lítinn áhuga eða skort á skilningi á þessum málum sem hún hefur ekki treyst sér til að afgr. þessi mál, heldur einmitt vegna þess að hún vill búa svo um hnútana að það verði til frambúðar.