12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4106 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fékk þau skilaboð áðan frá hæstv. forseta í sæti mitt, að mér væri velkomið að taka til máls á þessum þingfundi í dag, og þykir mér hugur hæstv. forseta nokkuð hafa breyst til mín frá því í gær, er mér var meinað að taka til máls þegar ég hafði beðið um orðið. Ég hef skilið þingsköp svo að hér ríkti málfrelsi og þm. fengju að tala þegar þeir bæðu um orðið, en biðu ekki eftir því að forseti sendi þeim boð um að nú mættu þeir tala.

Í gær, þegar mér var meinað að tala, ætlaði ég að greina frá afstöðu minni í allshn. í því máli sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði að umræðuefni utan dagskrár þar sem hann kvartaði undan því að mál fengjust ekki afgr. úr n. Það eru í sjálfu sér ákaflega eðlileg viðbrögð þm. að hann kvarti undan því, og mér hefur skilist að það sé skylda forseta að sjá svo til þess að n. afgr. mál eða gerðu grein fyrir afstöðu sinni. Ég heyrði ekki að hv. þm. fengi nein slík loforð af hálfu hæstv. forseta í gær.

Á fundi allshn. föstudaginn 7. maí lagði formaður allshn., hv. þm. Ellert B. Schram, til að máli þessu yrði frestað. Ég féllst á þetta fyrir mitt leyti vegna þess að þá var búið að láta þau boð út ganga hér á hv. Alþ. að miða ætti störf við það að þingi lyki eftir viku, þ.e.a.s. um helgina 15. maí. Þetta var fyrsti fundurinn sem við fjölluðum um mál þetta eftir að nm. allir höfðu kynnt sér umsagnir, og það var augljóst að það var mikil vinna fyrir höndum og vandasamt verk að búa það frv. svo úr garði að allir mættu vel við una. Og ég vona að hæstv. dómsmrh. fallist á að rétt sé að þm. vandi þetta verk sitt vel. Af þessum ástæðum féllst ég á að fresta þessu til næsta þings.

Hins vegar liggur einnig fyrir allshn. þáltill. frá þrem þm.: hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, Jónasi Árnasyni og Karvel Pálmasyni, um heimild ráðh. til fleiri mannaráðninga vegna rannsókna afbrotamála. Sú till. fæst ekki heldur afgr. úr n., og skilningur formanns var sá, að með því að fresta frv. til l. um rannsóknarlögreglu hefði n. einnig frestað afgreiðslu á þessari þáltill.

Við umr. á næstsíðasta fundi n. féllst formaður hins vegar á það að þessi afstaða hans hefði engan veginn verið skýrt afmörkuð né hefði afstaða allra nm. legið ljós fyrir um þetta. Og alltjent er það svo að þetta var ekki minn skilningur, enda er það ekki bókað á fundi 7. maí að sú þáltill. hafi verið tekin sérstaklega fyrir, hvað þá að það hafi verið ákveðið að sú till. yrði ekki afgr. úr n. Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann beiti áhrifum sínum til þess að allshn. skili þessari till. úr nefnd.